Í miðjum júlí 2011

Þurrkurinn á Norðurlandi fer að verða athyglisverður hvað úr hverju. Ekki hefur norðanáttin verið rigningasöm í þar í sumar - og ekki virðist spáð mikilli úrkomu næstu daga. Fyrri helmingur mánaðarins hefur verið hlýr um meginhluta landsins - nema á Austfjörðum og á Suðausturlandi þar sem hiti er enn lítillega neðan meðallags. Veðrabreytingar sjást stöku sinnum í langtímaspám en aðallega í einhverjum móðukenndum fjarska. Enda er hið hefðbundna landslag einnig oftast hulið óljósri móðu. Eldgosið í vor fór fram með öðrum hætti heldur en vænst var - og síðan komu tvö heldur óvænt jökulhlaup - blogg hungurdiska hafa reyndar lítið um þau að segja.´

Síðastliðna nótt (aðfaranótt þess 15. júlí) varð síðan einnig óvæntur smáatburður, silfurský sáust á lofti frá Reykjavík séð rétt um miðnæturbil. Ég hef aldrei séð þau svona snemma - aldrei fyrr en um 25. júlí. Veðurstofur nágrannalandanna hafa einnig minnst á þau á vefsíðum sínum að undanförnu. Silfurský myndast í svokölluðum miðhvörfum lofthjúpsins um hásumarið en þá er kaldasti tími ársins þar uppi, í um 90 km hæð. Miðhvörfin eru efst í miðhvolfinu en það liggur ofan á heiðhvolfinu. Milli mið- og heiðhvolfs eru heiðhvörf, en veðrahvörfin undir heiðhvolfinu - efst í veðrahvolfi.

Silfurskýin sjást nú í flestum árum á tímabilinu 27. júlí til 15. ágúst, um miðnæturbil, þegar norðurloftið er heiðríkt. Í sumum árum sést heiður himinn ekki á þessum tíma vegna ágengra skýja. Sýnarglugginn í kringum miðnættið lengist þegar kemur fram í ágúst - allt þar til skýin hverfa um og fyrir miðjan mánuðinn.

Svo virðist sem tíðni silfurskýja hafi farið að aukast á síðari hluta 20. aldar. Þeirra var fyrst getið eftir eldgosið mikla í Krakatá í Indónesíu 1883. Mjög einkennilegt þykir að þau hafi ekki hlotið athygli fyrr í Norður-Evrópu vegna þess að þar fylgdist fjöldi manns alltaf með stjörnuhimninum og hvert einkennilegt smáatriði á himni var tilkynnt. Nú á tímum eru skýin stundum mjög áberandi, svo áberandi að útilokað má telja að menn hefðu ekki tekið eftir þeim.

Vafalítið er því að skýin hafi verið sjaldséð þar til á síðari áratugum - hvað sem breytingunni veldur.  Birtuskilyrði eru svipuð hér á landi 15. júlí og síðustu dagana í maí. Ég leita eftir 20. maí á hverju ári. Svo langt silfurskýjaskeið hér á landi yrði að teljast órækt vitni um hnattrænar umhverfisbreytingar. Líkur á slíkri lengingu eru þó varla miklar en spennandi er samt að fylgjast með því. Meiri fróðleik um silfurský má lesa í pistli á vef Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er ekki ofmælt um þurkana hjá okkur hér norðan heiða. Þeir standa allri sprettu fyrir þrifum. Reyndar gerði smá vætu í fyrri nótt. Síká nánast að verða vatnslaus, Hrútafjarðará er skárri, þar hefur sá mikli snjór se er í Tröllakirkju sitt að segja. Mér finnst athygglisvert hvað síðustu sumur eru þurr hjá okkur. Eins er það að þessi norðanátt er einstaklega þrálát. Er þetta ekki að verða með lengstu tímabilum um margra ára skeið sem hún stendur svona lengi?  Kveðja og þakkir fyrir fróðleikinn.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 09:05

2 identicon

Tek undir hvert orð Gunnars kunningja míns í Hrútatungu um þurrkana. Hér í Skagafirði er þegar orðið stórtjón á túnum bænda. Talsverður snjór, sem er enn í fjöllum vegna kuldans í júní og snjókomu síðari hluta vetrar, hefur hinsvegar hjálpað upp á að sumar ár halda enn vatnsrennsli sínu.  -  Athyglisverðar pælingar varðandi silfurskýin. Held ég hafi ekki nema einu sinni séð þau á síðasta áratug tuttugustu aldarinnar, en hvorki fyrr né síðar, upp á síðkastið hefur skýjafar hér um slóðir verið með þeim hætti að mjög sjaldgæft er að sjáist heiður himinn um þetta leyti árs. Slíkt gerist nú orðið helst á útmánuðum. Áreiðanlega er mikil spurning hvort tilkoma þeirra tengist með einhverjum hætti áhrifum mannskepnunnar á andrúmsloftið.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 16.7.2011 kl. 10:12

3 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Úrkoman á Bergsstöðum það sem af er júlí er 0,3 mm og gæti nú varla minni verið. Hún var 6 mm í júní.

Sigurður Þór Guðjónsson, 16.7.2011 kl. 10:50

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar og Þorkell. Ég hef ekki komist að því að gera samantekt um þurrkana á ykkar svæði - það er nokkur vinna því samfara. En ég geri það um síðir ef þessu fer ekki að linna. Núverandi þurrkaskeið er að ég held komið á þriðja ár. Í samantekt sem ég gerði í vor fyrir Reykjavík kom í ljós að síðan 1920 höfðu ámóta skeið komið aðeins þrisvar áður og ekkert þeirra áberandi meira. En það er nokkuð erfitt að skilgreina þurrkaskeið, áhrif þeirra eru svo mismunandi eftir því hversu lengi þau standa - frekar heldur en hvort stöku sinnum komi 1 eða 2 nær úrkomulausir mánuðir. Þurrkar sem hafa áhrif á grunnvatnsstöðu þurfa að standa lengi. Snjór í fjöllum fer nú ört minnkandi og mér sýnist hér syðra að hann sé nú að komast niður undir meðallag árstímans - meiri heldur en undanfarin ár en samt litlu meiri en meðaltal lengri tíma. Úr Borgarfirði neðanverðum séð virðast skaflarnir í Snjófjöllum upp af Fornahvammi séu óðum að verða ósköp venjulegir. Ég hef ekki séð austurhlið Tröllakirkju ennþá í sumar. Flestir skaflar eru grábrúnir af ösku. Þakka tölurnar Sigurður.

Trausti Jónsson, 17.7.2011 kl. 02:41

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1056
  • Sl. sólarhring: 1111
  • Sl. viku: 3446
  • Frá upphafi: 2426478

Annað

  • Innlit í dag: 943
  • Innlit sl. viku: 3099
  • Gestir í dag: 915
  • IP-tölur í dag: 847

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband