Þuklað á júlí - helstu júlímet - sett á daga

Í upphafi júlí 2011 er ágætt að líta á helstu landsmet mánaðarins. Við ættum þó að hafa óvissu í huga, en metalistar eru alltaf til skemmtunar, rétt eins og úrslit íþróttamóta.

Hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í júlí (svo viðurkennt sé) eru 30,0 stig, mælt á Hallormsstað 17. júlí 1946. Á Hallormsstað var hámark yfirleitt ekki lesið nema með 0,5 stiga nákvæmni þannig að ákveðin óvissa fylgir af þeim sökum. Hæsti hiti sem var lesinn af aðalmæli stöðvarinnar var 27,0 stig. Þann 11. júlí 1911 varð jafnhlýtt á Akureyri þegar hitinn mældist 29,9 stig. Gríðarleg hitabylgja var á norðan- og austanverðu landinu þennan dag og hiti kl. 17 var 28,9 stig á Seyðisfirði en þar voru engar hámarkshitamælingar. Hitans gætti ekki suðvestanlands í suddaveðri sem þar var.

Geta má þess að um svipað leyti (1911) fór hiti yfir 20 stig í Færeyjum og mánuði síðar gerði gríðarlega hitabylgju í Danmörku (yfir 35 stig) og á Bretlandseyjum (yfir 37 stig).

Hæsti hiti sem mælst hefur í Reykjavík í júlí var hinn minnisstæða 30. árið 2008, 25,7 stig. Þá mældist hiti á Þingvöllum 29,7 stig, það mesta sem mælst hefur á sjálfvirkri stöð á Íslandi. Er tími kominn á að 30 stiga múrinn verði rofinn að nýju.

Lægsti hiti sem mælst hefur á landinu í júlí er -4,1 stig í Möðrudal þann 21. árið 1986. Ámóta lágur hiti, -4,0 stig, mældist í Núpsdalstungu í Miðfirði þann 27. árið 1944. Miðfjörðurinn er þekktur meðal veðurnörda fyrir lágan lámarkshita í júlí og ágúst (án þess að þar sé sérlega kalt að öðru leyti). Frost mældist á fleiri stöðvum nóttina köldu 1944 en viku áður var yfirstandandi einhver besta og mesta hitabylgja sem vitað er um um landið suðvestan- og vestanvert.

Þær miklu hæðir sem valda hitabylgjunum hafa tilhneigingu til að færast til vesturs og austan við þær er þá miskunnarlaus norðanátt beint úr Norðuríshafi. Lægsti hiti sem vitað er um á Akureyri í júlí er -1,0 stig. Þetta var 1. dag mánaðarins 1915. Rúmri viku síðar gerði mjög hart norðanveður með snjókomu í byggðum norðaustanlands og sunnanlands lömdust kartöflugrös og skemmdust.  

Lægsti hiti sem mælst hefur í júlí í Reykjavík er 1,4 stig. Það var þann 25. árið 1963. Persónulega minnist ég þessa dags sérstaklega því þá snjóaði niður í Brekkufjall við Borgarfjörð en það er aðeins 400 metra hátt.

Mesta snjódýpt sem mælst hefur á veðurstöð í byggð í júlí er 10 cm, þann 24. 1966 í því veðri sem sennilega hefur verst orðið allra júlíveðra síðustu 90 árin. Þá fuku þök af húsum bæði sunnanlands og norðan, trillur sukku í höfnum og gróður stórspilltist. Mesta snjódýpt á veðurstöð mældist við Snæfellsskála 17. júlí 1995, 15 cm, en það er hátt til fjalla og ekki sambærilegt við byggðastöðvar.

Mesta sólarhringsúrkoma í júlí á veðurstöð mældist á Hánefsstöðum við Seyðisfjörð þann 4. árið 2005, 201,1 mm. Þá urðu miklir vatnavextir eystra og fokskaðar bæði í Hornafirði og á Snæfellsnesi.

Loftþrýstiútgildin eru bæði úr Stykkishólmi. Lægsti þrýstingur í júlí mældist í Stykkishólmi þann 18. árið 1901, 974,1 hPa. Þá urðu skaðar í ofsavestanveðri austanlands. Mjög fátítt er að þrýstingur fari niður fyrir 980 hPa í júlí. Þrýstihámarkið mældist þann 3. árið 1917, 1034,5 hPa.

Við nefnum afbrigðilega júlímánuði vonandi eftir nokkra daga. Annars má geta þess í framhjáhlaupi að fimm daga tölvuspár og lengri eru með eindæmum óstöðugar þessa dagana, ýmist spáð miklum hlýindum eða afbrigðilegum kuldaköstum eða skakviðri. Sennilega rétt að trúa engu. En við fylgjumst með.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Hvað var úrkoman á Hánefsstöðum?

Sigurður Þór Guðjónsson, 4.7.2011 kl. 14:13

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Úrkoman á Hánefsstöðum var 201,1 mm.

Trausti Jónsson, 4.7.2011 kl. 14:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (31.3.): 125
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 1657
  • Frá upphafi: 2457212

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 1508
  • Gestir í dag: 96
  • IP-tölur í dag: 94

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband