Dægursveifla hita og vinds í Reykjavík í júní

Lítum á dægursveiflu vinds og hita í júní í Reykjavík og berum saman léttskýjað og skýjað veður.

d-rvk_hiti_juni

Lárétti ásinn sýnir klukkustundir sólarhringsins en sá lóðrétti hitann í °C. Blái ferillinn er hitinn í léttskýjuðu og sá rauði í alskýjuðu veðri. Við sjáum að miklu munar á ferlunum. Dægursveifla hitans í léttskýjuðu er meir en sex stig, kaldast er að meðaltali klukkan 4 en hlýjast kl. 15. Frá og með kl. 16 fellur hiti ekki mikið fyrr en eftir kl. 20 að kvöldi. Eftir það fellur hann hratt, hraðast milli kl. 22 og 23.

Í alskýjuðu er dægursveiflan minni en tvö stig. Mjög litlu munar á hita kl. 4 og kl. 5 og frá og með kl. 12 breytist hiti ekki mikið fyrr en eftir kl. 17 þótt hlýjast sé kl. 15, rétt eins og í léttskýjuðu. Við sjáum að hámarkshiti í léttskýjuðu er 3,5 stigum hærri heldur en í skýjuðu.

w-d-rvk-f-juni

Síðari myndin sýnir dægursveiflu vindhraðans (í metrum á sekúndu). Mikill munur er á dægursveiflunni í skýjuðu og léttskýjuðu. Í léttskýjuðu er vindur á nóttunni mun minni heldur en á daginn, er þar komin hin misvelþokkaða hafgola. Munar hér meira en 3 m/s. Vindhraðinn nær hámarki kl. 16.

Í alskýjuðu er munur á degi og nóttu aðeins um 1,5 m/s. Hvassast er kl. 11 en hægast milli kl. 2 og 4 að nóttu. Í skýjuðu veðri er líklegra að lægðagangur sé í námunda við landið heldur en í björtu. Hafi ein öflug lægð komið í námunda við landið á tímabilinu sem hér er til viðmiðunar gæti hún hafa hækkað vindhraða í alskýjuðu umtalsvert og því skulum við ekki treysta því að meðalvindur sé almennt meiri í alskýjuðu heldur en léttskýjuðu. Ítarlegri rannsókn þarf til að skera úr um það.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Nú hefur verið nær heiðskírt í tvo daga í röð og því hægt að líta til lofts og reyna að sjá hvort einhver merki sjáist um hvort Grímsvötn hafi þeytt einhverjum gosefnum upp í heiðhvolfið. Satt að segja hefur mér fundist bera meira á slíku þegar sól tekur að lækka og fyrst á morgnana en um miðjan daginn, hvort sem eitthvað er nú að marka mitt sjónmat eða ekki. Vera kann að hér leiki eitthvert hlutverk kuldamistrið, sem oft fylgir langvinnri norðanátt hér um slóðir, um það veit ég ekki. En vafalaust hafa vísindamenn einhver tól og tæki í sínum verkfærakistum, sem geta metið og mælt hvort eitthvað svona sé á ferðinni og þá lagt mat á hvort slík efni, hvort sem það eru nú brennisteinssambönd eða eitthvað annað, hafi eða komið til með að hafa áhrif á sólgeislun til okkar hér á norðurhveli. Kannski koma áhrifin fram í köldum vetri 2011-2012?

Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 21.6.2011 kl. 21:55

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Þakka þér fyrir Þorkell. Hér sunnanlands hefur verið mikil móða í lofti, en einnig talsvert af skýjum þannig að ég geri mér ekki grein fyrir því hvort enn megi sjá ösku í heiðhvolfinu en frekar finnst mér roðinn á norðurloftinu nú í kvöld benda til þess að ekki sé alveg hreint þar uppi. Aska í heiðhvolfi sést best eftir sólarlag og þá sem skuggadrög á rauðu norður- eða vesturlofti. Sömuleiðis má stundum sjá í heiðhvolfið nærri hvirfilpunkti um miðjan dag. Sé himinninn þar ekki blár eða sé hann mynstraður í annars heiðskíru veðri er líklegt að eitthvað ryk sé efra. Ég hef hins vegar varla trú á því að þetta sé mikið núna ef það er eitthvað, þá kæmi það fram í gervihnattamælingum. Það er sérstaklega á vorin að mikið mistur kemur hingað til lands frá heimskautasvæðunum. Það er í veðrahvolfinu og gerir himininn hvítleitan - svipað og saltmengun í hvassri vestanátt gerir líka.

Trausti Jónsson, 22.6.2011 kl. 00:54

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 30
  • Sl. sólarhring: 129
  • Sl. viku: 2477
  • Frá upphafi: 2434587

Annað

  • Innlit í dag: 27
  • Innlit sl. viku: 2201
  • Gestir í dag: 27
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband