5.6.2011 | 01:34
Veðurkerfi úr norðri - eru þau algeng?
Þegar farið var að teikna veðurkort eftir samtímaveðurskeytum (synoptísk kort) þurftu menn að velja hversu stórt svæði hentugast væri að láta þau ná yfir. Í vestanvindabeltinu koma flest veðurkerfi úr vestlægum áttum og þau sem þaðan koma hreyfast yfirleitt hraðar en önnur. Rétt þótti því að láta kort ná lengra til vesturs heldur en til austurs. Gjarnan tvisvar sinnum lengra, af breidd kortsins eru þá um 2/3 sem liggja vestan landsins sem spáð var fyrir, en 1/3 austan þess.
Á Íslandi sjá veðurkort því austur um Eystrasalt og jafnvel til Finnlands, en vestur um Hudsonflóa í Kanada. Skiptingin á milli suðurs og norðurs er meira álitamál. Íslensk kort hafa gjarnan náð norður að 80°N og suður að 35 til 40°N. Þetta er ekki fjarri 1/3 og 2/3 skiptingu. Þetta tryggir það að veðurkerfi sem eru á leið til landsins sjást á kortunum áður en hingað er komið.
Í sjónvarpi þykir útlit korta skipta jafnmiklu eða meira máli heldur en innihald. Ég hef sjálfur látið það yfir mig ganga og vorkenni bæði mér og öðrum þá nauð. Núverandi sjónvarpskerfi eru líka einhvers konar málamiðlun útlits og efnis. Við verðum að sætta okkur við það enn um sinn.
En það er bara erfitt að horfa á þegar norðanáhlaup, stór og smá virðast koma fyrirvaralaust inn á kortið - stundum án nokkurra sýnilegra tengsla við eiginleg veðurkerfi. Ekki eru þó allar norðanáttir af þessari gerð - stundum tengjast þær kerfum sem sýnileg hafa verið á kortunum áður en þau skella yfir.
En þetta er langur inngangur að skýringarmynd dagsins. Hún sýnir tíðni vindátta í 500 hPa fletinum yfir Íslandi í prósentum.
Hér eru tölur settar í kringum Ísland. Þær eiga við vindáttirnar, 21% tímans er vindur af stefnu milli suðvesturs og vesturs, 17% tímans er hann úr stefnu milli vesturs og norðvesturs - og svo framvegis. Fjörutíu prósent tímans er vindátt í veðrahvolfinu miðju úr norðlægri átt, sextíu prósent tímans úr suðlægri. Þrjátíu prósent úr austri og sjötíu úr vestri.
Nú er það svo að það eru vindar enn ofar sem mestu ráða um framrás veðurkerfanna og þar er vestsuðvestanáttin enn eindregnari. En þessi mynd sýnir samt að við eigum líka að líta til norðvestlægu áttanna - þótt sú átt sé afarsjaldgæf niður við jörð norðvestan Íslands.
Í neðstu lögum lofthjúpsins eru það austlægu áttirnar sem eru ríkjandi við Ísland. Áraskipti hvort það er austsuðaustan- eða austnorðaustanáttin. Þetta er einkennandi veðurlag á okkar slóðum, vestanátt efra undirstungin af austanátt neðar.
En á morgun (5. júní) kemur krappt lægðardrag úr norðvestri yfir Ísland og veldur kuldakasti, öðru dragi er spáð úr norðri rétt um miðja viku. Það á að halda kuldanum við.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.4.): 35
- Sl. sólarhring: 84
- Sl. viku: 1268
- Frá upphafi: 2460764
Annað
- Innlit í dag: 28
- Innlit sl. viku: 1114
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Athugasemdir
Eitt sem ég hef aldrei skilið og er þó farinn að nálgast sextugt en það er að íslenskir veðurfræðingar hafa ekki enn gert sér grein fyrir því að strandir og norðurland vestra eru amk. 3 ef ekki 4 veðursvæði. Samt er endalaust tuggið á því að sama veður sé á Hólmavík og t.d. Blönduósi sem er ósatt því veðurfar á þessum stöðum er afar ólíkt svo ekki sé meira sagt. Hvernig stendur á því Einar að á tölvu og tækniöld er ekki hætt að alhæfa svona í veðurlýsingum hvort heldur er í útvarpi eða sjónvarpi. Verður ekki bara að lengja veðurfréttatímana um nokkrar mínútur, þeir eru hvort sem er vinsælasta eftnið. Hvað segir þú.
Valbjörn Steingrímsson (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 11:42
Mig grunar að Valbjörn Steingrímsson á Blönduósi hafi ruglast milli þeirra veðurfræðinganna Trausta Jónssonar og Einars Sveinbjörnssonar, það sé sá Einar sem hann ávarpar í texta sínum, en það er í sjálfu sér aukaatriði. Hinsvegar held ég að flestir verði að viðurkenna, að spásvæði Veðurstofunnar eru einhversskonar málamiðlun. Ég hef búið bæði hér í Skagafirði og einnig á Hólmavík og þess utan á ég einhverjar þúsundir ferða að baki um svæðið á öllum árstímum og tek undir með Valbirni að munurinn er gríðarlegur á þessu svæði. Hinsvegar hygg ég að víða annarsstaðar sé ekki minni munur innan svæði. Nefni sem dæmi að það er oftast mjög ólíkt veðurfar inni í hinum þéttbýla Eyjafirði og úti á Tjörnesi, það er mikill munur á veðurfari inni í Djúpi og úti á Ingjaldssandi ellegar á Patreksfirði og er þetta þó sama spásvæði. En í nútímanum eru fleiri möguleikar á að skoða veðurspár. Tölvuspárnar til dæmis geta sýnt manni nokkuð glöggt hvernig t.d. úrkomusvæði og vindstrengir haga sér í tilteknum landshlutum. Þær hafa farið hraðfara batnandi og koma til með að gera það, trúi ég. Mér hefur oft virst þær gefa manni nokkuð góða hugmynd um hvernig veður þróast næstu 12 - 24 klukkutíma. Allar spár eru hinsvegar því ónákvæmari eftir því sem þær ná lengra inn í framtíðina.
Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 14:16
Ég held að aldur hafi sáralítið að gera með skilning á veðurspásvæðum. Og þetta
er alveg rétt sem Þorkell segir, að einhversstaðar verði að draga mörkin. Svo
getur veðurfar verið afar mismunandi innan hvers svæðis. Það mætti jafnvel
hafa landið eitt spásvæði og segja í nokkrum setningum hvernig viðrar í
hverjum landsfjórðungi . Það getur jafnvel verið töluverður
munur í veðurfari, þó aðeins nokkrir kílómetrar skilji á milli . Svo er hægt að fara
alveg niður í mismunandi götur í sama bæjarfélagi og þar getur líka verið munur ,
en slíkt kallaði Páll Bergþórsson veðurfræðingur " míkróklíma". Ég held að ekki
sé við veðurfræðinga að sakast vegna spásvæðanna . En það er
auðvelt að skamma þá . Ég þekki þetta á eigin skinni sem arkitekt og oft verið skammaður fyrir byggingar sem ég er blásaklaus af. En aftur að norðankyljunni.
Þetta veðurfar hefði Þórbergur Þórðarson kallað " íslenskt vor " eins og lesa má um í Íslenskum aðli. Og forðum var oft fjárfellir þegar svona viðraði.
Í dag eru bændur betur varðir fyrir þesskonar áföllum - svo er kuldinn ekki
svo slæmur nú þó skæni á pollum um nætur í uppsveitum. Nú nálgast 17. júní
og þá er spurningin hvort lægðin sem þeim degi fylgir jafnan, færir okkur einhver
hlýindi til frambúðar. En mín spá er þó að það breyti ekki verulega til batnaðar
fyrr en um miðjan júlí.
Óli Hilmar Briem
óli Hilmar Briem Jónsson (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 16:50
Takk fyrir góða pisla. Þú nefnir kortin í veðurfréttatímum sjónvarpsins og ég tek undir það að oft mætti útskýra meira hvað er í gangi og ala áhorfendur aðeins upp í veðurfræðum um leið og veður dags og næstu daga er sýnt. Eitt finnst mér oftast vanta, en það er að skil séu teiknuð inn á kortin. Mér finnast þau gefa miklar upplýsingar til að spá í staðbundið veður og sakna þess að sjá þau ekki oftar.
Friðrik Dagur Arnarson (IP-tala skráð) 5.6.2011 kl. 22:08
Einar verður að svara fyrir sig, en það er rétt hjá Þorkeli að spásvæðin eru málamiðlun, oft er mikill munur á veðri einstakra hluta þeirra. Það á ekki aðeins við um Strandir og Norðurland vestra heldur öll svæðin. Þegar ég byrjaði að fá greitt fyrir að gera veðurspár fyrir 32 árum var Norðurland aðeins eitt spásvæði. Þá varð oft að bæta í spáorðin, vestantil eða austantil. En menn höfðu einhvern veginn látið sér það lynda síðan 1926. Um 1980 gerði Markús Á. Einarsson veðurfræðingur könnun á skiptingu landsins í veðurspásvæði og tillaga hans var tekin upp og hefur verið notuð lítið breytt síðan. Unnið er að skönnun eldri greinargerða Veðurstofunnar og verður rit Markúsar vonandi aðgengilegt á netinu síðar á þessu ári.
Friðrik. Sífellt er verið að stytta veðurfréttatímana í sjónvarpinu. Að vísu jók aðeins við tímann við síðustu breytingu og er það vel. Vonað getum við að enn meiri lengingar komi síðar. Svo vill til að erfitt er að teikna skil inn á sjónvarpskortin þannig að þau hreyfist með þrýstisviðinu i þeim hugbúnaði sem í notkun er. Hreyfimyndinni sem sýnd er af hitasviðinu (í 850 hPa) er ætlað að koma í stað hefðbundinna skilateikninga. Helstu skilasvæði sjást oft mjög vel á hitasviðsmyndinni. Annað mál er síðan að skilateikningar á kortum eru orðnar afspyrnumikið klám á síðari árum - enda er greining þeirra nánast ekkert kennd nú orðið. Ég fæ andlega verki af því að þurfa að horfa upp á sumt af því sem borið er á borð. Taka þyrfti til á þessu sviði - en ég treysti mér ekki til krossferðarinnar.
Trausti Jónsson, 6.6.2011 kl. 00:55
Mér finnst veður í sjónvarpi ekki vera veðurfréttir í dag heldur eingöngu veðurspá fyrir næstu daga.
Væri ekki bara sniðugast að Veðurstofa Íslands færi bara að búa til vefsjónvarp á vedur.is. Þá geti þið sagt alvöru veðurfréttir og ýmsan annan veðurfróðleik í ótakmarkaðan tíma, enn ekki bara veðurspár.
Pálmi Freyr Óskarsson, 6.6.2011 kl. 05:35
Mér finnst veður í sjónvarpi ekki vera veðurfréttir í dag heldur eingöngu veðurspár fyrir næstu daga.
Væri ekki bara sniðugast að Veðurstofa Íslands færi bara að búa til vefsjónvarp á vedur.is. Þá geti þið sagt alvöru veðurfréttir og ýmsan annan veðurfróðleik í ótakmarkaðan tíma, enn ekki bara veðurspár?
Pálmi Freyr Óskarsson, 6.6.2011 kl. 05:37
Það kom til tals fyrir allnokkrum árum að Veðurstofan færi sjálf að sjónvarpa veðurfréttum á netinu. En af ýmsum ástæðum komst það aldrei lengra. Ætli kostnaðurinn hafi ekki vaxið mönnum í augum.
Trausti Jónsson, 7.6.2011 kl. 02:24
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.