Blikubleðill fer hjá

Síðdegis í dag (3. júní) drukknaði sólin frá Faxaflóa séð í blikubakka sem sló upp á himininn. Á undan honum fóru langar klósigatrefjar eða blikubönd. Engin greinileg lægð fylgdi og mjakaðist loftvog heldur upp á við. Blikan sást vel á gervihnattamyndum sem hvítur bleðill sem nálgaðist landið úr vestri. Lítum á mynd kvöldsins frá móttökustöðinni í Dundee á Skotlandi.

w-blogg040611-2a

Við sjáum Ísland teiknað inn á myndina. Þar norðaustur af er kuldapollurinn sem fór yfir í morgun og olli skúrum eða slydduéljum, einkum vestan- og norðvestanlands. Þetta er svokölluð hitamynd, þar eru heit svæði svört, en köld hvít. Hvítastar eru háar blikubreiður. Þær eru merktar með tölustöfunum 1 til 4, sú sem nú fer hér hjá er merkt sem 1. Við sjáum breiðu 4 illa, en í hinum þremur tilvikunum sjáum við skarpar brúnir bakkanna og að þeir virðast hvítastir næst þessum brúnum.

Skýaform af þessu tagi einkenna snarpar vindrastir hátt í veðrahvolfinu nærri veðrahvörfum. Þessar vindrastir eru gjarnan nefndar skotvindar. Margir (veðurfræðingar og aðrir) nota orðið skotvindur um það sem ég kalla ætið heimskautaröst og verða lesendur að afsaka sérvisku mína en gæta jafnframt að henni. Ég nota skotvind um það sem á ensku kallast jet streak og er annað hvort bútur úr heimskautaröstinni (e. polar jet stream), þar sem vindhraði er mestur eða þá stutt röst, stubbur lítt tengdur röstinni miklu. En fyrir alla muni takið ekki um of mark á sérvisku minni.

En allir blikubleðlarnir á myndinni tengjast skotvindum vindrasta. Lítum á 300 hPa-kort sem gildir á svipuðum tíma og myndin sýnir.

w-blogg040611-2b

Svörtu, heildregnu línurnar sýna hæð 300 hPa-flatarins í dekametrum (dam = 10 metrar). Við erum hér í í kringum 9 kílómetra hæð frá jörðu. Vindörvar eru hefðbundnar, sýna vindhraða og vindstefnu. Þau svæði eru lituð þar sem vindhraði er meiri en 40 m/s eða 80 hnútar. Á dökkgrænu svæðunum er vindur meiri en 50 m/s.

Númerin á kortinu svara til númeranna á gervihnattamyndinni og við sjáum greinilega samsvörun á milli blikubleðla og grænlituðu svæðanna. Vindhraða og stefnubreytingar í kringum rastirnar fjórar búa til lóðrétta hringrás og þar með skýjakerfin. Kerfin eru hins vegar ekki eins til orðin. Við laumumst e.t.v. í þau fræði síðar.

Hvernig gátu svo forfeður okkar séð mun á blikuppsláttartegundunum fjórum á myndinni? Það hefur verið þrautin þyngri og vart á færi nema allrabestu skýjarýna, hvort sem þeir höfðu loftvog eða ekki. Reynt var að skrifa reglur þeirra niður og getum við lesið sumt á bók en ábyggilega hefur verið erfitt fyrir skrásetjara að átta sig á því út á hvað reglurnar gengu - enda háloftarastir óþekktar - eða voru þær það?

En blikubleðlar dagsins verða allir úr sögunni hvað okkur varðar á morgun (laugardag) nema númer 4. Ástæða er til að fylgjast með röstinni yfir N-Grænlandi og lægðardraginu sem fylgir henni. Ekki er víst að mikil uppsláttur sjáist þegar hingað er komið. Munum niðurstreymið austan Grænlands. Fimmta blikubakkans er líka að vænta úr vestri - yfir Suður-Grænland til austurs fyrir sunnan land. Verða þá margar blikur á lofti? Kannski missum við af atburðum vegna þess að lágskýjasúpa byrgir alla sýn til himins um helgina?  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sérviska, segirðu. Kann að vera, en hún er allavega miklu skiljanlegri en óskýr hugtök.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 11:25

2 identicon

Nú er liðið á laugardag og síðari hluta dags hefur verið nær heiðskírt hér. Ef ég væri að gefa upp veður til Veðurstofu myndi maður reyndar gefa upp 1/8 heildarhulu, smávegis af góðviðrisbólstrum er yfir austurfjöllum og Mælifellshnjúk. Það er misturvottur að sjá til allra átta, þó minnst til norðurs yfir sjóinn, en það er ekki hægt að tala um bláan himinn. Fyrst í morgun (milli klukkan fimm og sjö) voru blettirnir sem sá í gegn um flákaskýin, sem voru hér yfir í 6 - 800 metrum botnar, ágætlega fallega bláir. En núna er himininn allur mjög ljósleitur, hvergi hægt að segja að sjáist almennilega blár himinn og í sólarátt er hann nánast mjólkurhvítur. Vafalaust  á mistrið einhvern þátt í þessu, en áttin hefur verið rétt sunnan við vestur í dag og nokkuð stíf á tímabili allavega, þannig að ólíklegt er að öskuryk í neðri loftlögum komi hér við sögu, þótt maður geti ekkert um það fullyrt, hafandi ekkert til að byggja á annað en það sem maður sér hér af heimahlaði.

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 4.6.2011 kl. 18:35

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Þakka Þorkeli skemmtilega athugasemd að venju. Um skyggni langar mig að spyrja hvort það sé komið undir sjón eða sjónleysi veðurathugunarfólks hvað það er langt? Í öðru lagi langar mig að spyrja hvaða máli skyggni skiptir yfirleitt. Hvað þýðir orðið súld? Hver er munurinn á súld og skúrum?  Veðurspár og fréttir eru sagðar í öllum fjölmiðlum. Þurfum við á öllum þessum veðurspám og fréttum að halda?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 4.6.2011 kl. 21:06

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Ég þakka veðurlýsinguna Þorkell. Í vestanátt er oft vægt saltmistur í lofti sem gerir himininn hvítan. Mig grunar þó að eitthvað úr gosinu sé ofar. Í sjónvarpinu sást mikið mistur í frétt frá Norðfirði, en gervihnattamynd sýndi greinilega að það var upprunnið norðan Dyngjujökuls - ekki veit ég nákvæmlega hvaða aurar það eru eða aska. Þetta mistur náði á myndinni talsvert austur fyrir land.

Benedikt, ég þekki tvö dæmi þess að versnandi sjón aldraðra veðurathugunarmanna hafi haft áhrif á skyggnismat þeirra. Skyggni skiptir mjög miklu máli í öllum samgöngum, flug vill frétta af öllu skyggni sem er minna 10 kílómetrar og lélegt skyggni er hættulegt allri umferð. Upplýsingar um skyggni getur líka hjálpað veðurfræðingum við greiningu veðurkorta - þó mikilvægi hennar hafi minnkað. Súld er mjög smágerð rigning og hefur mun meiri áhrif á skyggni heldur en sama magn rigningar. Skúrir eru ójöfn úrkoma - eru reyndar ofnefndir í formlegum veðurlýsingum í stað rigningar. Veðurfréttir og veðurspár eiga að vera auðaðgengilegar í nútímasamfélagi - alltaf á að vera stutt í veðurfréttir. Vel má vera að símar, internet og aðrir samskiptamátar hafi dregið úr mikilvægi veðurfrétta í sjónvarpi og útvarpi. En þetta eru bakgrunnsupplýsingar sem menn slökkva bara á ef þeir vilja komast hjá því að heyra þær. Það gerist e.t.v. ekki mikið í þjóðfélaginu þótt veðurfréttir vanti, en það gerir heldur oftast ekkert til þótt læknisþjónustu vanti, hinn venjulegi maður þarf ekki oft á henni að halda. En síðan liggur dagurinn í leyni þegar gott væri að hafa frétt af veðri, jafnvel lífsnauðsynlegt.

Trausti Jónsson, 5.6.2011 kl. 02:32

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 30
  • Sl. sólarhring: 685
  • Sl. viku: 2352
  • Frá upphafi: 2413786

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2170
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband