Dulin átök í dag (17. apríl 2011) - kuldi sækir að

Í dag var vindur hægur um meginhluta landsins þrátt fyrir að hitamunur milli Austur- og Vesturlands væri allmikill og hátt í lofti var mikil vindstrengur, 40 m/s í 5 kílómetra hæð og 60 m/s enn ofar. Ástæðu hægviðrisins má vel sjá á kortinu hér að neðan sem fengið er úr smiðju hirlam-líkansins, greining kl. 18 sunnudag 17. apríl.

w-hirlam-170411-18gr

Fastir lesendur hungurdiska (séu þeir nokkrir) kannast við línurnar á kortinu. Þær svörtu, heildregnu, sýna hæð 500 hPa-flatarins frá sjávarmáli í dekametrum (dam=10 m). Því þéttari sem línurnar eru því meiri er vindurinn í fletinum. Rauðu strikalínurnar sýna aftur á móti fjarlægðina milli 500 hPa og 1000 hPa þrýstiflatanna, einnig í dekametrum, þessi fjarlægð er kölluð þykkt og við notum gjarnan ákveðinn greini: Þykktin. Því meiri sem þykktin er því hlýrra er loftið.

Kuldapollurinn óþægilegi er enn á sínum stað þar sem hann hefur haldið til með stuttum hléum frá því snemma í febrúar. Þykktin í honum miðjum er innan við 4900 metrar - helkuldi. Nú er hlý hæð yfir Bretlandseyjum, þykktin þar er í kringum 5500 metrar, reyndar sumarþykkt hjá okkur en ekki svo mjög óvenjuleg yfir Bretlandi síðari hluta aprílmánaðar. Spurning hvort við munum njóta góðs af þessu lofti eða hvort bíða þurfi fleiri áætlunarferða úr suðri til að svo megi verða.

Á svæðinu við Ísland má sjá að þykktar- og hæðarlínur falla eiginlega alveg saman. Þar kemur skýringin á hægviðrinu við jörð. Kalda loftið vestur af landinu gengur svo snyrtilega undir hlýja loftið austur af að allur þrýstimunur jafnast út. Þau fáu nörd sem vilja smá hugarvinnu ættu að prófa að draga þykktarsviðið frá hæðarsviðinu í kringum Ísland og skoða útkomuna, þá kemur hægviðrið í ljós. 

En þetta ástand er ekki stöðugt. Hæðarsviðið er að aflagast, allmikill hæðarhryggur nálgast úr vestri (rauð ör). Hann þrengir að lægðardraginu sem liggur vestan Íslands og á að skipta því í tvennt (svartar örvar). Hluti fer suður til Portúgal og gæti valdið úrfelli og þrumuveðrum þar (ekki þó víst). Annar hluti fer til norðausturs milli Íslands og Grænlands og hreinsar hlýja loftið sem nú er yfir Austurlandi frá landinu.

Hitamunur verður talsverður yfir landinu mestallan mánudaginn. Þegar þetta er skrifað (eftir miðnætti aðfaranótt mánudags) snjóar talsvert á Snæfellsnesi en hláka er litlu austar. Ekki treysti ég mér til að segja hvar lína á milli snjókomu og rigningar liggur mestallan mánudaginn meðan lægð er að dýpka í námunda við landið, en kalda loftið nær loks undirtökunum á mánudagskvöld.

Loftið sem stefnir þá að landinu úr suðvestri er kalt, kaldasti hluti þess á að fara yfir landið á aðfaranótt þriðjudags, þykktin á þá um stund að fara niður fyrir 5120 metra. 

w-hirlam-thykkt-190411-03_gr1704-18

Kortið sýnir þykktarspá hirlam-líkansins aðfaranótt þriðjudags 19. apríl. Hér eru þykktarlínur heildregnar en litafletirnir sýna hita í 850 hPa fletinum, hann er í um 1300 metra hæð. Frostið í miðjum kuldapollinum er -10 til -12 stig í þeirri hæð. Það er því að sjá að veturinn heimsæki okkur enn á ný og verði staða sem þessi raunin má gera ráð fyrir miklu leiðindaveðri á heiðum um landið vestanvert þegar þetta kort gildir og hálku á láglendi. Vetrarkuldinn dvelur þó ekki lengi við landið og verður farinn hjá fyrr en varir.

En fylgist vel með spám Veðurstofunnar. Umhleypingarnir eru ekki búnir og ekki ólíklegt að meira heyrist um þá á hungurdiskum síðar í vikunni.

Kortin eru fengin af brunni Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Maður óttast mest að umhleypingunum linni loks með langvarandi norðankulda.

Sigurður Þór Guðjónsson, 18.4.2011 kl. 01:39

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Jú, en við getum líka vonað að það verði austanblíða.

Trausti Jónsson, 18.4.2011 kl. 02:19

3 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Takk fyrir mig. Mig langar að spyrja um tvennt. Hvers vegna er úthafsloftslag hér en eyjaloftslag í Færeyjum? Hver er helsti munur á úthafs- og eyjaloftslagi?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 18.4.2011 kl. 09:35

4 identicon

Takk fyrir Þennan kaldasama fróðleik að heiman. Hér í Vest-Agder fylki í Noregi er komið vor. 16 stiga hiti yfir daginn. Aðeins nokkrir dagar síðan snjórinn fór, en hann var mikill hér í vetur að sögn heimamanna. Veturnir hér hafa vesnað með hverju árinu að sögn og óvenju kaldir og snjóþungir. Kantu á þessu nokkra skýringu,..

Óðinn K (IP-tala skráð) 18.4.2011 kl. 12:56

5 Smámynd: Trausti Jónsson

Benedikt. Ég hef aldrei heyrt neinn gera greinarmun á eyja- og úthafsloftslagi og veit því ekki hver hann er. Greinarmun mætti svosem gera á þessu en ég þekki hann ekki. Staður er talinn búa við úthafsloftslag sé árstíðasveifla hitans (munur á meðalhita kaldasta og hlýjasta mánaðar) minna en 20 stig. Úthafsloftslag er því á Íslandi öllu. Þar sem munurinn er minnstur hér á landi (á nesjum og eyjum við Austfirði) er hann innan við 10 stig. Ég man ekki nákvæmlega hver hann er í Færeyjum, sennilega innan við 8 stig.

Óðinn: Nei, ég kann enga sérstaka skýringu á því. Tilviljun hefur valdið því að þrýstingur hefur nú í tvo vetur verið yfir meðallagi á Íslandi. Það þýðir að norðanáttir hafa verið tíðari en venjulega í Noregi og þar með hefur verið kaldara þar.

Trausti Jónsson, 19.4.2011 kl. 01:35

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a
  • w-blogg271224aa
  • w-blogg261224ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.1.): 1041
  • Sl. sólarhring: 1118
  • Sl. viku: 3431
  • Frá upphafi: 2426463

Annað

  • Innlit í dag: 928
  • Innlit sl. viku: 3084
  • Gestir í dag: 900
  • IP-tölur í dag: 833

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband