Kuldapollurinn kveður - gervihnattarmynd í dag

Ég get ekki stillt mig um að fjalla í fáum orðum um flókna gervihnattarmynd sem tekin var um kl. 15 í dag, fimmtudag (10. mars 2011). - Algjört örvafyllerí. Ekki ábyrgist ég að rétt sé túlkað (ábyggilega ekki) - en reyni samt. Myndin er hluti af stærri mynd sem nú er á brunni Veðurstofunnar  og verður þar í nokkra daga. Myndin sýnir suðvesturjaðarinn á þeim deyjandi kuldapolli sem hefur verið á leiðinni hjá landinu í nokkra daga.

w-noaa-100311-1500

Hér má vonandi greina útlínur Grænlands til vinstri á myndinni og útlínur Íslands aðeins til hægri og ofan við miðju. Ísland er að mestu hulið skýjum, þó er bjart syðst á landinu og austur með Suðausturlandi. Ég hef sett bæði örvar og númer inn á myndina. Lítum á það safn.

Talan 1 er sett a milli tveggja örva sem sýna norðvestanátt frá Suður-Grænlandi og síðan til austurs fyrir sunnan land. Mjög vel sést hvernig éljaklakkarnir vaxa smám saman til austurs eftir því sem loftið verður óstöðugra og rakara.

Talan 2 er sett þar sem sjá má mjóslegna éljagarða sem myndast í norðaustanátt frá Íslandi. Þar sem þessar tvær ólíku vindáttir mætast er mikill éljagarður. Hann nær alveg frá bókstafnum „a“, suður og austur um að hægri brún myndarinnar þar sem vonandi má greina bókstafinn „b“. Þetta er kannski dæmigerður samstreymisgarður á mótum tveggja vindstefna. Ef við gætum dregið mjög nákvæm kort af svæðinu mætti e.t.v. greina einhverjar pólarlægðir í garðinum.  

Ofan í garðinn er teiknuð stutt fjólublá ör. Hún á að gefa til kynna þá vestanátt sem toppar klakkanna lenda upp í þegar þeir koma upp í efri hluta veðrahvolfsins.

Staðan yfir Íslandi er mjög flókin og ekki auðvelt að sjá hvað er á ferðinni. Þarna eru smáatriði sem ég átta mig ekki alveg á. Ég hef sett þrjár bogadregnar rauðar örvar (punktalínur) í skýjaþykknið. Þær eiga að sýna norðvestanátt sem var í 5 km hæð yfir landinu og má í þykkninu sjá ámóta bogalínur í skýjunum. Skýjakerfið í heild barst í dag hins vegar til suðvesturs eins og gulu örvarnar sýna.

Háloftaathugun á hádegi á Egilsstöðum sýndi gríðarleg hitahvörf í 5 km hæð yfir staðnum, þar hlýnaði um 7 stig á örstuttu hæðarbili. Skýjaþykkninu fylgdi því greinilega mjög hlýtt loft sem er búið að fara hringinn í kringum miðju kuldapollsins sem nú er langt norðaustan við landið. Á hádegi mátti með góðum vilja sjá votta fyrir þessu hlýja lofti yfir Keflavík.

Segja má að hlýju framrásarinnar gæti allt suður að éljagarðinum mikla því hann hörfar til suðurs og suðvesturs eins og litlu gulu örvarnar sýna.

Mikið hríðarveður geisaði norðanlands - með 5 til 8 stiga frosti í hafáttinni. Það er meira heldur en algengast hefur verið í vetur - enda þykktin í dag aðeins um 5060 metrar. Ekki veit ég hvort eitthvað af úrkomunni hefur verið ættað úr efra skýjakerfinu - það gæti verið - eða hvort hún er ættuð úr éljasambreiskju í óstöðugu lofti yfir tiltölulega hlýjum sjónum norðan við land. En loftið í neðstu 5 km lofthjúpsins var mjög óstöðugt í dag.

Þegar mjög óstöðugt loft rekst á fjöll myndast þar háreist éljaský og mikil úrkoma, en að öðru leyti sér óstöðugt loft landslag frekar illa. Loftið heldur áfram eins og ekkert hafi í skorist hinu megin fjallsins og er litlu stöðugra en áður (aðeins þó). Við slíkar aðstæður berast él oft suður fyrir heiðar eins og gerðist hér suðvestanlands í dag. Ratsjármyndir sýndu furðustöðugan örmjóan éljagarð frá Holtavörðuheiði, suður um Borgarfjörð og til höfuðborgarsvæðisins. Veðursjáin sér ekki lengra í norður en éljaskýin hér syðra virtust í ratsjánni vera öll undir 3 km hæð.

Sé rýnt í myndina má sjá einkennilegar skýjamyndanir yfir landinu, skarpar hvítar brúnir og hvíta bletti. Ég vægi lesendum við ágiskunum um uppruna þeirra - en þær eru til.

Er þessi kuldapollur þá úr sögunni (að vísu á eftir að fylgjast með örlögum vestasta enda éljagarðsins á vestanverðu Grænlandshafi). Sá næsti hefur þegar myndast yfir heimskautaeyjum Kanada og sýnir okkur klærnar við helgarlok - ekki þó á sama hátt og sá sem nú fór hjá. Hvernig er með þessa kuldapolla - hvernig myndast þeir eiginlega? Hvers vegna er þeirra lítið getið nema á hungurdiskum?

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ben.Ax. (Benedikt  Jóhannes Axelsson)

Sæll. Mér finnst mars vera leiðinlegasti mánuður ársins hvað veðurfar snertir. Þar á ég við umhleypinga. Er eitthvað til í því eða er ég bara að ímynda mér þetta vegna þess að þegar ég var 11 ára sást ekki á milli húsa vegna stórhríðar á Húsavík þann 5?

Ben.Ax. (Benedikt Jóhannes Axelsson), 11.3.2011 kl. 16:40

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Mars hefur oft verið leiðinlegasti mánuður ársins, en hefur farið betur með okkur undanfarin heldur en algengt var fyrir 20 árum og lengra síðan.

Trausti Jónsson, 12.3.2011 kl. 02:24

3 identicon

Þakka þér Trausti mjög fróðleg skrif. Ég tek undir það að Mars getur verið efiður, gamla sögnin var að mars næði því harðasta.  Mín reynsla eftir að hafa mokað snjó um árabil á Holtavörðuheiði að mars var yfirleitt erfiðasti mánuðurinn, reyndar gat apríl orðið slæmur í miklum snjóavetrum. Reynar hefur nú ekki komið snjór hér um slóðir sem neinu nemur síðan 1995.

Með bestu kveðju.

Gunnar Sæmundsson (IP-tala skráð) 12.3.2011 kl. 20:53

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Gunnar. Það er rétt sem þú segir að mars er í venjulegu árferði oft erfiðasti mánuður ársins á fjallvegum landsins. Þar er oft lítið um hlákur fyrr en í kringum sumardaginn fyrsta og snjór safnast fyrir fram undir það. Mig minnir að meðalsnjódýptarhámark á Hveravöllum sé í apríl. Svipað á trúlega við á Holtavörðuheiði.

Trausti Jónsson, 13.3.2011 kl. 01:34

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 108
  • Sl. sólarhring: 166
  • Sl. viku: 2029
  • Frá upphafi: 2412693

Annað

  • Innlit í dag: 103
  • Innlit sl. viku: 1777
  • Gestir í dag: 97
  • IP-tölur í dag: 91

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband