Marshiti í Stykkishólmi í rúm 200 ár

Við lítum enn á hitafar í Stykkishólmi síðustu tvær aldir, nú í mars.

w-marshiti-sth

Ýmislegt vekur athygli á þessari teiknimynd. Kuldinn í mars 1881 æpir á okkur, hann á aðeins einn keppinaut, marsmánuð 1859. Sá vetur var kallaður álftabani og flaggar langkaldasta apríl allra tíma.

Með núverandi reikniaðferðum reiknast meðalhitinn á Siglufirði -19,8 stig í mars 1881, nærri þremur stigum undir meðaltalinu í Möðrudal í janúar 1918 og i Grímsey í mars 1881 en það eru næstlægstu gildi mánaðarmeðaltala á landinu. Siglufjarðartöluna má auðvitað draga í efa, mig minnir að skipt hafi verið um mæli í mánuðinum auk þess sem ég hef grun um að aðstæður hafi ekki verið eftir ítrustu stöðlum þess tíma.

En Siglufjörður á líka lægsta hita sem mælst hefur hér á landi í mars, -36,2 stig úr því fullkomna kuldakasti sem náði lágmarki sínu 21. dag mánaðarins 1881. Í athugasemd veðurathugunarmanns  stendur að meir en 40 stiga frost hafi mælst inni í sveitum - en þar voru engar opinberar mælingar. Bræðurnir (?) Snorri og Erlendur Pálssynir athuguðu. Ekki kann ég frekari skil á þeim.

En aftur að teiknimyndinni. Marsröðin er dálítið klippt og skorin. Hiti hrökk í 3 stig í mars 1841 og telja má að árin 16 til 17 næstu þar á eftir séu mikið hlýindaskeið marsmánaða - mun meira áberandi heldur en í febrúar á sama árabili. Mars 1856 marði það að vera sá næsthlýjasti, jafnhlýr og 1964 en heldur kaldari en sá makalausi mars 1929 þegar hafísjaka rak að ströndum Finnmerkur.

Í bréfi til Veðurstofunnar 1929 segist Benedikt Jónsson frá Auðnum, þá veðurathugunarmaður á Húsavík, minnast vetrarins 1855 til 1856. Hann fullyrðir að alla sína tíð (þar til 1929) hafi enginn vetur ámóta góður komið í Þingeyjarsýslu. Haustið áður gekk mikil hundapest um Norðurland og strádrap þar hundastofninn og fóru menn suður um hálendið um miðjan vetur til að endurnýja. Komu þeir heim með 50 hunda hóp í Þingeyjarsýslur - og var minnisstætt fyrir snáða á 10. ári sem Benedikt var þá. Hvernig er með þessar hundapestir? - ég vona að við eigum ekki von á slíku.

En enn aftur að teiknimyndinni. Nokkrir sæmilega hlýir marsmánuðir komu á árabilinu 1873 til 1884, auk hins ofurkalda 1881 en síðan var hlé á mjög hlýjum marsmánuðum þar til 1923. Þótt sá mánuður hafi skömmu síðar fallið í skugga 1929 virðist hann hafa komið mönnum mjög á óvart - svona lagað hafði bara ekki verið í tísku í minni flestra þeirra sem þá voru uppi.

Tímabilið 1923 til 1964 voru hlýir marsmánuðir margir og sá sem þetta skrifar man sérstaklega eftir þessum mánuðum 1963 og 1964. Ég vona að ég fái að lifa slík hlýindi aftur á þessum árstíma, en frábið mér kuldana vorið 1963. Ekki það að marsmánuðir áranna 2003, 2004 og 2005 komust nokkuð nærri og reglulega kaldan mars höfum við ekki séð síðan 1979.

Af samantektum meðaltala styttri og lengri tímabila svipuðum þeim og voru í pistlinum í gær má sjá að mars er hættir til að vera úr hófi kaldur þegar mikið er um hafís við landið. Það virðist muna meira um ísinn eftir því sem lengra kemur fram á veturinn. Tiltölulega lítill ís var við landið á árunum 1840 til 1856 heldur en áður og síðar á 19. öld. Sumarið á þetta sameiginlegt með mars, hlýskeið 19. aldar er þá mun sýnilegra heldur en það er háveturinn. Kannski að mars sé vormánuður eftir allt saman?

Beina línan á myndinni sýnir leitnina yfir allt tímabilið. Hún reiknast nálægt einu stigi á öld en höfum í huga að reiknuð leitni spáir engu.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 120
  • Sl. sólarhring: 177
  • Sl. viku: 2041
  • Frá upphafi: 2412705

Annað

  • Innlit í dag: 114
  • Innlit sl. viku: 1788
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 99

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband