Mars er vetrarmánuður á Íslandi

Þrátt fyrir að sól sé farin að hækka mikið á lofti í mars er samt glórulaust að telja þann mánuð til vorsins hér á landi. En alþjóðlegur þrýstingur er samt mikill, reglumenn vilja hafa þá reglu á hlutunum að árstíðirnar séu jafnlangar og að veturinn nái þá til mánaðanna desember, janúar og febrúar. Þá taki vorið við.

Ef útlendingur spyr mig um meðalhita vorsins hér á landi reiknar hann með því að mars sé þar með - nema að ég hafi fyrir því að taka sérstaklega fram að svo sé ekki. Ég get svosem líka bugtað mig og beygt fyrir alþjóðlegum hefðum - er maður ekki að því alla daga?. En reyndar er það svo að víða í útlöndum taldist veturinn áður fyrr ná frá vetrarsólstöðum til vorjafndægra. Það er skynsamlegt og gengi e.t.v. hér á landi. Það er skömmu fyrir vetrarsólstöður sem hiti hér á landi fer niður í þann flata botn sem síðan ríkir fram til 1. apríl. Þetta eru um það bil mörsugur, þorri og góa.

Eins og ég minntist á í pistli fyrir um það bil mánuði (1. febrúar) er mars að meðaltali kaldasti mánuður ársins sjötta hvert ár í Reykjavík, desember fimmta hvert ár, febrúar fjórða hvert og janúar þriðja hvert - nóvember og apríl sárasjaldan.

Lítum nú á töflu sem sýnir meðalhita í Stykkishólmi vetrarmánuðina á ýmsum tímabilum. Ég vona að hún sé ekki ólæsileg.

w-t178vetur

Hér má sjá mánuðina í dálkum hvern fyrir sig, veturinn í heild í aftasta heila dálkinum. Í fyrsta dálki er getið um ýmis 30-ára tímabil, aldirnar tvær i heild auk síðustu 10 ára (neðst). Þeir sem eru smámunasamastir munu taka eftir því að meðaltal mánaðadálkanna fjögurra ber ekki alveg saman við vetrarmeðaltalið sem tilfært er í síðasta dálkinum. Menn geta giskað á hvers vegna (en það er viljandi).

Í efstu tveimur línunum má sjá hæsta og lægsta mánaðarmeðalhita í mánuðunum fjórum. Við sjáum að spönnin er mest í mars, 18,7 stig. Aftasti dálkurinn er meðaltal hlýjustu og köldustu línunnar hvorrar um sig. Ef methiti yrði í öllum vetrarmánuðum kæmu þessar tölur upp. Veturinn 1880 til 1881 er sá kaldasti á öllu tímabilinu og við sjáum að hann hefur farið býsna nærri því að vera hið fullkomna lágmark. En hann á ekki janúarmetið (1918) og blæðir fyrir það. Hlýjasti veturinn í Stykkishólmi á þessum lista var 1964, þar vantaði tæp 1,7 stig upp á að hann væri í hæstu hæðum.

Rétt er að taka fram að fyrsta tímabilið, 1811 til 1840 er óttalegur skáldskapur og ætti e.t.v. ekki að vera þarna með - en allt fyrir skemmtanagildið. Tölurnar hækka aðallega þegar á líður - en þó er hlýskeiðið 1931 til 1960 hlýjast - nema í febrúar þar sem 1961 til 1990 er hæst. Febrúar er að jafnaði kaldastur fram til 1960 og mars er kaldari en janúar 1871 til 1900. Desember er alltaf hlýjastur nema 1961 til 1990 - þá er það febrúar. Miklu munar á hita á 19. öld og þeirri 20. Desember hlýnar minnst en febrúar mest.

Það er svo sérlega áberandi hvað síðustu 10 ár eru miklu hlýrri en öll önnur tímabil (síðustu 20 ár eru það líka). Þó verður að hafa í huga að árin eru aðeins tíu og áframhald þessa mikla hita yrði með miklum ólíkindum - þrátt fyrir vaxandi hita í heiminum. Líta má þannig á að við séum nú þegar búin að taka hitaaukninguna út með líkur á kólnandi veðri næstu 20 árin yfir höfðum okkar. Á hinn bóginn ætti að hafa í huga að ef hitinn hér á landi heldur áfram að stíga jafnhratt næstu 15 árin og hann hefur gert þau síðustu 15 - þá er eitthvað mikið að.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 115
  • Sl. sólarhring: 173
  • Sl. viku: 2036
  • Frá upphafi: 2412700

Annað

  • Innlit í dag: 109
  • Innlit sl. viku: 1783
  • Gestir í dag: 102
  • IP-tölur í dag: 96

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband