Lágskreitt vindhámark

Að marggefnu tilefni skal enn tekið fram að hungurdiskar eru ekki spáblogg. Þar er ekki samfelld vakt og engan veginn er hægt að ganga að ákveðnum upplýsingum svo sem aðvörunum og þess háttar. Hungurdiskar fjalla hins vegar stundum um veðurspár - en einnig veðurfar og margt annað tengt veðri - oftast óstaðlað.

Vegna núnings er vindur hægari niður við jörð heldur en ofar. Mjög er hins vegar misjafnt hvort vindur vex samfellt upp í veðrahvörf eða hvort vindhraði nær hámarki neðar.

Vestanstormurinn sem í dag hefur verið fyrir sunnan landið hefur nú náð inn á Reykjanes. Hann er af flokki veðra þar sem vindhámarkið er óvenju neðarlega. Í háloftathugun í Keflavík nú á miðnætti (3.2. 2011 kl. 00) er hámark vindsins (nærri 30 m/s) í innan við 1000 metra hæð. Við veðrahvörfin er nánast logn.

Lægðin sem gekk yfir síðastliðna nótt og í dag (miðvikudag) var það stór að spálíkön voru nokkurn veginn sammála um leið hennar og þróun. Vindstrengurinn lági er hins vegar minni um sig og spálíkön eru óþægilega ósammála um örlög hans og þeirra smálægða sem koma í kjölfarið.

Næstu daga verðum við innan við jaðar kuldapollsins mikla sem ég hef nefnt Stóra-Bola. Kalt loft verður yfir mjög stóru hafsvæði suður- og suðvestur af landinu. Í kalda loftinu munu myndast margar smálægðir (póllægðir) - væntanlega af fleiri en einni undirtegund. Meirihluti póllægða forðast land - en ekki allar.

Í suðurjaðri Stóra-Bola er gríðarlegur vestanstrengur sem stefnir frá Nýfundnalandi austur til Bretlandseyja. Hann er alinn af heimskautaröstinni en undir henni geta myndast mjög öflugar lægðir sem hreyfast með ofsahraða austur á bóginn. Spár eru ekki heldur sammála um þær, en svo virðist þó að veðurstofur nágrannalandanna búist ekki við fárviðrum.

Þess má geta að á mánudag og þriðjudag gekk mikið illviðri yfir miðvesturríki Bandaríkjanna, þegar er farið að kalla bylinn Groundhog Day Blizzard, en 2. febrúar er þar kenndur við múrmeldýrið og muna margir kvikmyndina frægu sem (marggerðist) þann dag. Af einhverjum dularfullum ástæðum er þessi dagur mjög tengdur veðri ekki aðeins í Bandaríkjunum heldur einnig hér á landi og víða í Evrópu norðan- og vestanverðri. Hann heitir hér Kyndilmessa, Candlemas á Bretlandseyjum, Kyndelmäss í Svíþjóð. Verst er að engum gömlum spám tengdum deginum ber saman. Ég hef nokkuð velt þessu fyrir mér - hvers vegna þessi dagur?

En Kyndilmessubylurinn vestra er „hin hliðin“ á Stóra-Bola. Gríðarleg framrás af köldu lofti vestan kuldapollsins kveikti illviðrislægðina þá. Sagt er að enn séu mikil kuldaköst og byljir í undirbúningi vestra.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Sigurður Þór Guðjónsson

Ég fer nú bara að verða skíthræddur við þennan voðalega Stóra-Bola!  

Sigurður Þór Guðjónsson, 3.2.2011 kl. 01:29

2 Smámynd: Sumarliði Einar Daðason

Alltaf fróðlegt að lesa pistlana þína. Það væri gaman að finna út af hverju 2. febrúar er svona sérstakur (eða gróflega þetta tímabil). Er þetta bara einhver hefð eða á þetta sér einhverja stoð í veðurfræði?

Sumarliði Einar Daðason, 3.2.2011 kl. 14:50

3 identicon

http://www.vedur.is/media/hafis/iskort_dmi/dmi_weekly_icechart_colour.pdf       Er ekki ísinn vestan við Grænland með minna móti þessa dagana?

Þorkell Guðbrandsson (IP-tala skráð) 3.2.2011 kl. 20:31

4 Smámynd: Trausti Jónsson

Stóri-Boli er nú að leggjast á meltuna. Ég veit ekki hvers vegna stendur á trúnni á 2. febrúar og hve gömul sú trú er vestanhafs. Ég veit hún er gömul austan atlantsála og um það má lesa í bók Árna Björnssonar Sögu daganna. Jú, Þorkell, óvenju lítill ís er Vestan-Grænlands. Samkvæmt tölum Cryosphere todayþekur ísinn undan Labrador, Baffinslandi og í Davíðssundi um hálfri milljón ferkílómetra minna svæði en var að meðaltali á þessum árstíma frá 1979-2008. Þetta hlýtur að valda verulegum vandræðum hjá veiðimönnum á Diskóflóasvæðinu á Grænlandi. Ég hef þó ekki séð margar kvartanir á fréttasíðu grænlenska útvarpsins eins og stundum undanfarin ár. Suður við Nuuk er nærri því alltaf íslaust allt árið og sunnar, við Eystribyggð, kemur ísinn að austan, fyrir Hvarf og er venjulega mjög lítill þar til vorar og hangir hann svo útifyrir mestallt sumarið. Það verður fróðlegt að fylgjast með því í vor.

Trausti Jónsson, 4.2.2011 kl. 00:14

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c
  • w-blogg151124b
  • w-blogg151124a
  • w-blogg141124ii

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.11.): 94
  • Sl. sólarhring: 157
  • Sl. viku: 2015
  • Frá upphafi: 2412679

Annað

  • Innlit í dag: 91
  • Innlit sl. viku: 1765
  • Gestir í dag: 85
  • IP-tölur í dag: 79

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband