Veðurstofusumarið 2025 - í hópi hlýrra sumra

Veðurstofan hefur í hundrað ár skilgreint sumarið sem tímann frá júní til september ár hvert. Sumum finnst fjórir mánuðir of langur tími - alþjóðaveðurfræðistofnunin miðar við þrjá mánuði (júní til ágúst) - en misseristímatalið gamla miðar sem kunnugt er við sex mánuði - frá fyrsta sumardegi að vori - að fyrsta vetrardegi að hausti. Veðurstofan fer bil beggja. Hungurdiskar hafa nú í nokkur ár reynt að reikna meðalhita landsins alls. Aðferðin er að vísu umdeilanleg - og aðrir reiknimeistarar myndu efalítið fá út aðrar tölur.

En ritstjórinn ber sig samt vel - og eins og oftast undanfarin ár lítur hann á þetta meðaltal og setur á mynd.

w-blogg300925a

Meðalhiti veðurstofusumarsins 2025 reiknast 9,9 stig, 1,5 stigi hærra heldur en í fyrra, 2024. Það sumar var hið kaldasta það sem af er öldinni, en sumarið í ár er meðal þeirra 7 hlýjustu á öldinni. Sé litið lengra aftur voru aðeins fjögur sumur á allri 20. öld hlýrri heldur en þetta. Við bíðum þó enn sumars sem slær út 1933 og 1939 þegar litið er til landsins alls. Sumarið 1979 sker sig úr á köldu hliðinni, þá það kaldasta allt frá 1907 að telja. 

En fyrstu níu mánuðir ársins standa sig enn betur heldur en þetta.

w-blogg300925b

Myndin sýnir meðalhita á landsvísu fyrstu 9 mánuði hvers árs. Árið í ár, 2025 er alveg við toppinn, ómarktækur munur á því og fyrstu níu mánuðum áranna 2003 og 2014. Enn sker 1979 sig mjög úr, á köldu hliðinni. Fyrstu níu mánuðir þess árs voru þeir köldustu á landsvísu síðan 1892. Þótt meðalhiti fyrstu 9 mánaða ársins sé góður vísir um ársmeðaltalið er það samt þannig að stundum verða miklar breytingar um þetta leyti árs. Árið 1979 hlýnaði t.d. að mun þannig að þótt árið í heild yrði áfram það kaldasta varð munurinn á því og öðrum árum ekki alveg jafn sláandi og hér er sýnt. Árið 1880 var þessu öfugt farið. Fyrstu 9 mánuðir þess árs voru hlýir, sérstaklega ef miðað er við ástandið almennt á síðari hluta 19. aldar. Þá urðu mikil umskipti til hins verra og við tók mjög kalt haust og einstaklega kaldur vetur. Haustin 1881 og 1882 voru líka nokkuð úr takti við það sem áður hafði verið þau árin - eins og frægt er var október 1882 hlýjasti mánuður ársins í Grímsey (það gerðist líka þar 1915). 

Hvað gerist nú í haust og vetur vitum við ekki - það verður bara að sýna sig. 

Séu myndirnar tvær bornar saman sjáum við að 10-árakeðjurnar fylgjast nokkuð að í lögun. Þar eru flestar sömu dældir og hólar. Helsta undantekningin er sú að á neðri myndinni er hlýskeiðið á tuttugustu öld lengra heldur en á þeirri efri. Sumur kólnuðu fyrr heldur en vetur og vor. 

Reiknuð leitni er minni á efri heldur en neðri mynd. Hún segir ekkert um framtíðina (frekar en venjulega). Veðurstofan birtir fljótlega yfirlit yfir stöðuna á einstökum stöðvum. 


Bloggfærslur 30. september 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg300925b
  • w-blogg300925a
  • w-blogg240925b
  • w-blogg240925a
  • w-blogg220925a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.10.): 5
  • Sl. sólarhring: 154
  • Sl. viku: 895
  • Frá upphafi: 2501687

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 772
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband