Haustmánuður

Síðasti sumarmánuður gamla íslenska tímatalsins nefnist haustmánuður. Hann er sjaldan nefndur á nafn - kannski þykir nafnið ekki nægilega sláandi - þótt því sé ekki að neita að lítill vafi er á merkingu þess. Við upphaf haustmánaðar eru þrjátíu dagar til fyrsta vetrardags og hefst hann ætíð á fimmtudegi, í ár (2025) er það fimmtudagurinn 25.september. 

Við lítum nú á meðalhita haustmánaðar í Reykjavík. Á viðmiðunartímabilinu 1991 til 2020 er hann 5,8 stig, síðustu tíu árin 6,0 stig. Á uppeldisviðmiðunarskeiði ritstjóra hungurdiska (1961 til 1990) var hann 5,2 stig og á „hlýja viðmiðunartímabilinu“ 1961 til 1990 var hann 5,9 stig. Síðustu 30 ár 19. aldar var hann ekki nema 4,3 stig. Þetta þýðir að við getum talað um leitni hitans. Hún reiknast +0,8 stig á öld - töluvert, en hefur lítið í breytileikann frá ári til árs að segja. 

w-blogg220925a

Kaldastur var haustmánuður árið 1981 - vel í minni ritstjórans og fleiri. Það var einnig óvenjukalt á haustmánuði árið áður, 1980. Var í báðum tilvikum búist við hinu versta því einnig var mjög kalt á haustmánuði bæði 1917 og 1873, miklir frostavetur fóru þá í hönd. En lítið varð úr. Haustmánuður í fyrra, 2024, var einnig óvenjukaldur miðað við það sem verið hefur síðustu áratugi. Þó var umtalsvert hlýrra heldur en í þessum köldu mánuðum sem við nefndum - og ekki varð veturinn kaldur. 

Hlýjastur varð haustmánuður árið 1959 - einnig nokkuð minnisstætt ritstjóranum þótt ekki hafi hann þá verið búinn að „fullnorma“ væntingar til mánaðarins. Slíkt tekur langan tíma þegar tölur eru ekki við höndina. Haustmánuður 1958 og 1965 voru líka hlýir og í minninu er auðvitað haustmánuðurinn hlýi árið 2016. 

Haustið (október til nóvember) hefur þá sérstöðu meðal árstíðanna fjögurra að hlýskeið og kuldaskeið þess eru ekki eins samstíga eins og dansleikur vetrar, sumars og vors. Sumarið var að vísu, rétt eins og haustið, nokkuð lengi að taka við sér í upphafi tuttugustualdarhlýskeiðsins mikla, og það entist betur í hlýindunum heldur en sumarið, toppaði ekki fyrr en mestu sumarhlýindunum var í raun lokið. Hlýskeiðið á þessari öld sker sig líka minna úr heildinni heldur en algengt er í öðrum mánuðum. 

Við vitum ekki - frekar en venjulega - hvernig haustmánuður 2025 kemur til með að standa sig.


Bloggfærslur 22. september 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg220925a
  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a
  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.9.): 14
  • Sl. sólarhring: 280
  • Sl. viku: 1395
  • Frá upphafi: 2500207

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 1236
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband