Hlý nótt

Síðastliðin nótt (aðfaranótt 26.ágúst 2025) var óvenjuhlý víða um land - þar á meðal í Reykjavík. Næturlágmarkið sem var skráð kl.9 í morgun var 14,4 stig. Við vitum ekki enn hvert sólarhringslágmarkið verður. Það kemur í ljós eftir að mælt hefur verið kl.18. Líklega heldur þó þetta lágmark - og verður þar með að sólarhringslágmarki, sem kemst á lista yfir hæstu lágmörk í Reykjavík.

Samfelldar lágmarksmælingar hófust í Reykjavík í maí 1920 og hefur sólarhringslágmarkið aðeins fjórum sinnum verið hærra en nú, og þrisvar jafnhátt. Langhæst var lágmarkið að morgni 31.júlí 1980, 18,2 stig - eiginlega „út úr kortinu“ - eins og sagt er.

Næsthæst var lágmarkið þann 8.júní 1929, 15,5 stig og 15,4 stig þann 11.ágúst 2004. Þann 28.júlí 1936 var það 14,5 stig.

Jafnt lágmarkinu nú (14,4 stig) var það 25.júlí og 3.september 1939 sem og 8.júlí 1991.

Það flækir málið að á sjálfvirkum veðurstöðvum er farið að miða við „réttan“ almanakssólarhring (kl.0 til 24). Það þýðir að á sjálfvirku stöðinni þurfum við að bíða til kl.24 til að sjá sólarhringslágmarkið. Hiti hefur reyndar ekki enn farið niður fyrir 14,5 stig - en spár segja að hann geri það fyrir kl.24 í kvöld. Meðan sólarhringslágmark mönnuðu stöðvarinnar verður meðal þeirra hæstu gæti svo farið að sólarhringslágmark þeirrar sjálfvirku verði það ekki, mælirinn er þó sá sami.

Þetta ætti að sýna vel að met þurfa að „hitta í“ - við gætum sífellt verið að finna met með því að hringla til með viðmiðunartíma og þess háttar. Við gætum hugsanlega náð hærra sólarhringslágmarki með því að skipta sólarhringnum á annan hátt. Þótt það gangi reyndar ekki í þessu tilviki gæti það hafa gerst í fyrri tilvikum. Að þessu sinni hafa „klukkumet“ - hæsti hiti á athugunartíma - ekki verið sett í Reykjavík (eitt féll reyndar í apríl og tvö í maí). Best við höggi liggur nú hæsti hiti sem mælst hefur kl.21 í Reykjavík. Núgildandi met er frá 8. ágúst 1964. Þá mældist hitinn 18,1 stig (ekki man ritstjórinn þann dag - og skilur ekkert í því) - það er enn rétt hugsanlegt (ólíklegt þó) að hiti kl.21 í kvöld nái þessari tölu. Önnur klukkumet eru líklega alveg utan seilingar.


Bloggfærslur 26. ágúst 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg250825ib
  • w-blogg250825ia
  • sjor-og-loft bjarni-saem 1919-skyringarmynd-18
  • sjor-og-loft bjarni-saem 1919
  • w-blogg240825a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.8.): 381
  • Sl. sólarhring: 443
  • Sl. viku: 1864
  • Frá upphafi: 2493708

Annað

  • Innlit í dag: 345
  • Innlit sl. viku: 1655
  • Gestir í dag: 320
  • IP-tölur í dag: 314

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband