Um gamla kennslubók

Um þessar mundir er blogg hungurdiska 15 ára. Fyrsti pistillinn (reyndar aðeins ein lína) féll af himnum ofan (nánast) þann 19. ágúst árið 2010. Fyrsti „alvörupistillinn“ birtist hins vegar þann 23.ágúst og fjallaði um fyrsta íslenska veðurfræðiritið, „Um meteora“ sem Magnús Stephensen tók saman og birti í þriðja árgangi rita Lærdómslistafélagsins 1782 (merkileg bók). Næstu daga var fjallað um fleiri gömul rit á íslensku og fjalla um veður og veðurfræði. 

Eitt þessara gömlu rita hafði reyndar þar til alveg nýlega farið framhjá ritstjóranum. Það ber nafnið „Sjór og loft, kaflar úr almennri jarðlýsingu“ eftir Bjarna Sæmundsson aðjúnkt (eins og hann kallar sig). Bókin kom út hjá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar 1919 og var - eins og segir á forsíðu, „til notkunar við kenslu í lærdómsdeils mentaskólans“. Bókin er 69 síður. 

sjor-og-loft_bjarni-saem_1919

Í formála segir Bjarni að allt frá því að lærdómsdeild Menntaskólans hafi verið sett á stofn hafi verið kennd þar undirstöðuatriði í eðlislýsingu sjávar og lofts af þeirri eðlilegu ástæðu að sjór og veðrátta hafa „svo afarmikil áhrif á öll kjör þjóðar vorrar, að það getur varla talist sæmandi að mentaður Íslendingur sje með öllu ófróður um þessi atriði ... “,

Síðan segir Bjarni það hafa verið sitt hlutskipti að kenna þetta og hafi hann gert það í tíu ár og stuðst við norska bók, sem hann segir ágæta en hún taki „lítið tillit“ til Íslands. Síðan segir Bjarni: „Hafði ég fyrir löngu hugsað mjer að semja svipaða bók“ - (heldur kunnugleg áform). Að lokum er þess getið að stjórnarráðið veitti nokkurn styrk til útgáfunnar. 

Eins og þeir sem kynnst hafa öðrum skrifum Bjarna, svosem ritum hans um Fugla og fiska, vita er texti hans mjög lipur og skýr og margt af því sem fram kemur í bókinni gæti alveg eins átt heima í nýrri bók um þetta efni. Það er þó ljóst að ýmislegt er hér líklega verið að segja í fyrsta sinn á prenti á íslensku - eða alla vega ekki komin festa í hugtakaheiti og þess háttar. 

Bókin skiptist í tvo meginkafla sá fyrri heitir „Eðlislýsing sjávarins (sjófræði)“ - bendir til þess að nafnið „haffræði“ hafi annað hvort ekki verið mönnum tamt - eða jafnvel ekki orðið til. 

Síðari meginkaflinn heitir „Eðlislýsing loftsins (Loftfræði eða veðurfræði)“. Orðið loftfræði er ritstjóra hungurdiska ókunnugt og sömuleiðis virðis sem að orðið „veðurfræði“ hafi e.t.v. ekki verið alveg tamt á þessum árum - þótt það sé hins vegar að minnsta kosti 40 árum eldra. 

Árið 1919 var þekking á bæði efri loftlögum sem og aflfræði lofthjúpsins mjög takmörkuð - en ekki svo langt í byltingarkenndar framfarir í þeim efnum. Texti bókarinnar líður auðvitað nokkuð fyrir þetta. Menn þekkja hér bæði lág- og háþrýstisvæði og hringrás loftsins í kringum þau, en orðin „lægð“ og „hæð“ eru ekki notuð hér - heldur „sveipir“ og „andsveipir“ - eða jafnvel „minim“ og „maxim“. Greinilegt er að ritstjórinn þarf eitthvað að athuga hvenær nútímaorðin komast í notkun - hvort það er Þorkell Þorkelsson fyrsti veðurstofustjórinn eða Jón Eyþórsson, fyrsti veðurfræðingur landsins nota þau fyrst. 

Eftir að hafa fjallað nokkuð um dæmigert veðurlag í lægðum og hæðum (minimum og maximum) er stuttlega minnst á veðurspár (s.53):

„Það liggur í augum uppi, að það mætti segja fyrir um veður með nokkurum fyrirvara, ef menn gætu reiknað nákvæmlega út göngur eða hreyfingar sveipanna, en það er ógerningur enn sem komið er“. Síðan bendir Bjarni á að fylgjast megi með hreyfingum sveipanna með hjálp veðurskeyta og þannig séu einhverjar veðurspár mögulegar. 

sjor-og-loft_bjarni-saem_1919-skyringarmynd-18

Mynd úr bókinni. Hún sýnir dæmigert skýjafar sem fylgir sveip (lægð). Hér má sjá jafnþrýstilínur dregnar í mm kvikasilfurs (750 = 1000 hPa). 

Þegar á allt er litið er bók þessi holl lesning fyrir veðuráhugamenn. 

Þess má að lokum geta að pistlar hungurdiska eru nú orðnir 3436 - ristjórinn nokkuð farinn að mæðast - og orðinn endurtekningasamur úr hófi.  


Bloggfærslur 25. ágúst 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • sjor-og-loft bjarni-saem 1919-skyringarmynd-18
  • sjor-og-loft bjarni-saem 1919
  • w-blogg240825a
  • w-blogg200825b
  • w-blogg200835a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.8.): 37
  • Sl. sólarhring: 436
  • Sl. viku: 1227
  • Frá upphafi: 2493002

Annað

  • Innlit í dag: 35
  • Innlit sl. viku: 1079
  • Gestir í dag: 33
  • IP-tölur í dag: 33

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband