Enginn friður

Það er lítill friður fyrir ásókn hlýinda. Ritstjóri hungurdiska man varla eftir því áður að hafa jafn ótt og títt þurft að vera á varðbergi gagnvart nýjum hitametum í háloftunum yfir landinu. Hingað stefnir nú mjög hlýtt loft langt úr suðvestri og verður yfir landinu á föstudag og laugardag - hugsanlega lengur. 

w-blogg130825a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins, hita og vind í fletinum á fimmtudagskvöld. Yfir Reykjanesi er blettur þar sem hitinn á að vera hærri en -10°C. Það er ekki mjög oft sem svo hlýtt loft heimsækir landið. Reyndar er furðumikill munur á tíðni -11 stiga og -9 stiga. Metið í 500 hPa er -7,6 stig, mjög vafasamt reyndar og sett 23.júlí 1952, en staðan var samt þannig að ritstjórinn treystir sér ekki til að þurrka það út án þess að hafa farið mjög nákvæmlega í saumana á því. Þennan dag fór hiti í Möðrudal í 25,7 stig - ljóst að mjög hlýtt loft var yfir landinu - þótt heldur stæði það stutt við. 

Svipað á við um næsthæstu töluna, -8,1 stig sem mældist 12.ágúst rigningasumarið mikla 1983, og er hún ágústmet. Þrjár tölur aðrar eigum við í safninu með hita hærri en -9 stig í 500 hPa. Í águst 2021 - hinum ofurhlýja mánuði - mældist hiti tvisvar -9,0 stig í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli, þann 15. og 23. 

Vísar sem við notum til að giska á hita í mannheimum eru einnig mjög háir á föstudag og laugardag. Þykktinni er spáð yfir 5640 metrum - og er það einnig nærri meti. Í era5 gagnasafninu er 5650 metrar hæsta ágústgildið, kemur fyrir fjóra daga á tímabilinu 1940 til 2022, 1.ágúst 1941, 26.ágúst 1947, 10.ágúst 2004 og 24.ágúst 2021. Hæsta ágústgildið í greiningarsafni reiknimiðstöðvarinnar 2011 til 2024 er 5660 metrar, 24. ágúst 2021. 

Keflavíkurflugvöllur er sunnar heldur en viðmiðunarpunktur sá sem notaður er í greiningartöflunum hér að ofan - og þar eru aðeins fleiri gildi yfir 5650 metrum, það hæsta 5676 metrar, sem mældist 9.ágúst 2004. 

Í öllum þessum öfgaþykktartilvikum varð mjög hlýtt á landinu. Árið 1941 var hámarkshiti ekki mældur mjög víða, mest fréttist af 23,3 stigum þann 1. á Akureyri, þann 22. ágúst 1947 mældist hiti á Sandi í Aðaldal 27,2 stig. 

Hiti á Austurlandi gæti nú hæglega farið yfir 25 stig annan hvorn daginn eða báða - en nær varla ágústlandsmetinu sem er 29,4 stig, sett á Hallormsstað 24.ágúst 2021. Þótt ýmsir hafi viljað efast um þá mælingu hefur ritstjórinn ekki mikið út á hana að setja - hún er alla vega jafngóð eða skárri heldur en margt það sem á metalistum er. Næsthæsta ágústtalan er einnig yfir 29 stig, 29,2 mæld á Egilsstöðum í hitabylgjunni miklu 2004 (11.ágúst). Þannig að alla vega verður við ramman reip að draga nú. 


Bloggfærslur 13. ágúst 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg130825a
  • w-blogg090825e
  • w-blogg090825d
  • w-blogg090825c
  • w-blogg090825b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.8.): 31
  • Sl. sólarhring: 427
  • Sl. viku: 1388
  • Frá upphafi: 2490731

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 1273
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 31

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband