Tuttugustigatíminn

Í dag (7.maí 2025) mældist hiti meiri en 20 stig í fyrsta sinn á þessu ári - fór í 20,6 stig í Miðfjarðarnesi. Á fleiri stöðvum komst hitinn yfir 20 stigin. Við höfum hér nokkrum sinnum áður velt vöngum yfir því hvenær þetta gerist á vorin. Síðasta umfjöllun var í fyrra - en „grunnpistillinn“ var þó skrifaður á vef Veðurstofunnar árið 2010. Þar er umfjöllunin ítarlegust - en ýmislegt hefur aftur á móti gerst síðan. Í pistlinum í fyrra var eingöngu litið á mælingar sjálfvirku stöðvanna (frá og með 1997). Að þessu sinni er uppfærslan þannig að við blöndum kerfunum saman og lítum aftur til 1949 - og reiknum meðaltöl. Að þessu sinni er sú tilbreyting viðhöfð að við lítum einnig á hinn endann - hvenær 20 stig mælast síðast á hverju ári á þessu tímabili. Þá getum við einnig reiknað lengd tuttugustigatímans á hverju ári. 

w-blogg070525a

Lárétti ásinn sýnir árin, 1949 til 2024, en sá lóðrétti daga ársins. Súluritin sýna síðan hvaða dag hiti nær 20 stigum fyrst (neðri ferill) og síðast (efri ferill) á hverju ári. Einnig má sjá 7-árakeðjur dagsetninga og aðfallslínur. Í fljótu bragði má túlka aðfallslínurnar sem leitni, en þá verður að hafa í huga að kerfið er nú orðið mun þéttara heldur en áður og líkur á að rekast á 20 stig aukast af þeim ástæðum. Hluti leitninnar kann því að vera óraunveruleg - en hún reiknast býsna mikil, 4 dagar á áratug. Það eru ekki síst fáein stök ár sem draga leitnilínurnar til - í sjónmati er leitnin ekki alveg svona mikil. 

Á þessu árabili var það ekki fyrr en 1984 að hiti náði 20 stigum í apríl, en það hefur alloft gerst á nýju öldinni. Reyndar er ein eldri 20 stiga mæling í apríl, frá 1908 - kann að vera vafasöm, en við látum vera að ýta við henni. Það gerðist síðan árið 2012 að 20 stig mældust í mars og enn var bætt um betur árið 2021. 

Ritstjórinn kann því betur að nota miðgildi fremur en hreint meðaltal dagsetninga. Þá ákveðum við fyrst hvaða tímabil er undir, en síðan er talið hvaða dagsetning hefur jafn mörg ár til hvorrar handar. 

Niðurstöður varðandi fyrstu 20 stigin er sú að á tímabilinu 1949 til 2000 voru 50 prósent líkur á að 20 stiga mörkum væri náð í fyrsta sinn á vori þann 3. júní (sem er reyndar nánast það sama og reiknað meðaltal fyrir þetta ákveðna tímabil). Frá 2001 til 2024 er þessi dagsetning hins vegar 26. maí, 8 dögum áður. Með þessu móti dettur leitnin niður í 1 dag á áratug. Reiknuð meðaldagsetning er hins vegar 15.maí. Eins og fram kom í upphafi var það í dag, 7.maí sem 20 stigin mældust fyrst í ár. Það er 19 dögum á undan meðallagi fyrstu 25 ára þessarar aldar, en 27 dögum á undan meðallagi fyrri tíma. 

Svipað á við um haustið, þar er ámóta reiknuð leitni, síðustu 20 stigum seinkar um 5 daga á hverjum áratug. Miðdagsetningin á árunum 1949 til 2000 var 11.september, en 2001 til 2024 17. september. Með þeirri reikniaðferð er leitnin minni, kannski um 1 dagur á áratug (eða því sem næst). Það var ekki fyrr en 1999 að 20 stiga hiti mældist í nóvember, en þó eru til óstaðfestar eldri mælingar - sem rætt hefur verið um á hungurdiskum - hefðu kannski mælst formlega í þéttara athugunarneti. Árið 2019 munaði sáralitlu (0,3 stigum) að 20 stig mældust í desember.

w-blogg070525b

Síðari myndin sýnir tímalengdina frá fyrstu til síðustu 20 stiga hvers árs. Hún var styst sumarið 1979 - við borð lá að 20 stig mældust ekki á landinu það sumar. Áberandi er hversu miklar sveiflur eru á síðari árum - benda kannski til þess sem við höfum þegar nefnt, að þétting kerfisins eigi sinn þátt í reiknaðri leitni. Lengst hafa liðið 213 dagar frá fyrstu að síðustu 20 stigum landsins, það var 2011, en 255 dagar eru á milli fyrstu og síðustu dagsetninga tímabilsins alls, 18.mars og 26.nóvember. 


Bloggfærslur 7. maí 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 188
  • Sl. sólarhring: 282
  • Sl. viku: 1371
  • Frá upphafi: 2464877

Annað

  • Innlit í dag: 177
  • Innlit sl. viku: 1185
  • Gestir í dag: 174
  • IP-tölur í dag: 171

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband