Óvenjuleg hlýindi

Óvenjulega hlýtt er víða um land þessa dagana. Eins og fram hefur komið í fréttum var sett nýtt maíhitamet fyrir landið allt í gær (15.maí 2025) þegar hiti komst í 26,6 stig á Egilsstöðum. Veðurstofan á að vísu eftir að staðfesta metið - nauðsynlegt er að kanna hvort stöðin sé í lagi. Staðbundin met hafa verið sett á fjölmörgum stöðvum - og auðvitað dægurmet í hrönnum. Ritstjóri hungurdiska mun þó bíða með að gera einhverja grein fyrir þessum metum - þar til mestu hlýindin eru liðin hjá. 

Í dag (16.maí) mældist hiti yfir 20 stig í Reykjavík. Er svo hár hiti sárasjaldgæfur í borginni. Aðeins er vitað um 3 eldri tilvik af hærri hita en 20 stigum frá upphafi mælinga. Það var árin 1901, 1905 og 1960. Árið 1901 stóðu hlýindin í nokkra daga og náðu til fleiri hluta landsins. Austri á Seyðisfirði segir að þar í bæ hafi hitinn farið í 26 stig - en við getum ekki tekið þá mælingu bókstaflega - fróðleg engu að síður. Árið 1905 og 1960 náðu hlýindin ekki jafnvíða um landið. Um þessi tilvik öll má lesa í eldri pistlum hungurdiska. Í öllum þessum tilvikum þremur vildi svo til að þessi maíhámörk urðu jafnframt hæsti hiti ársins í Reykjavík. Sumrin 1905 og 1960 voru þó hagstæð í heild, en 1901 varð aftur á móti rigningasumar um landið suðvestanvert. 

Árið 1972 mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík líka í maí, en var þó ekki nema 16,3 stig. Sýnir að ekki er á vísan að róa með hlýja daga þar á bæ. 

Á mjög mörgum stöðvum öðrum en Reykjavík hefur það gerst að hæsti hiti ársins hefur orðið í maímánuði. Þannig var t.d. 1987, en þá gerði langa „hitabylgju“ sem víða um land átti hæsta hita ársins. Sumarið 1987 var þó mjög hagstætt. Á Akureyri varð hiti hæstur í maí þetta ár. Hámarkshitamælingar hófust ekki á Akureyri fyrr en 1938. Hæsti hiti ársins hefur fjórum sinnum mælst í maí á þessu tímabili, 1987 - eins og áður sagði, en líka 1985, 1956 og 1951. 

Það er sjaldgæfara að hæsti hiti ársins á landinu öllu mælist í maí. Gögn sýna það aðeins þrisvar, en yngsta tilvikið, frá 1962 er almennt talið vafasamt (sjá pistil um það ár). Hin tilvikin tvö eru svo gömul að stöðvakerfið var svo gisið að við getum varla fullyrt að þetta sé marktækt. En þau gögn sem til eru segja það hafa gerst 1907 og 1890. 

Síðara árið var einmunatíð frá því um 20. mars og út maí, jörð greri óvenjuvel og allt í blóma. Þá gerði mikið áfelli snemma í júní, þann 5. var sagt frá ökklasnjó í Vestmannaeyjum. Eftir hretið var tíð bærileg - en hitinn náði samt aldrei sömu hæðum og um vorið. Árið 1907 var óvenjulegt á marga vegu. Hlýindin í maí mjög skammvinn, sumarið sérlega kalt - en jafnfram fádæma þurrt á Suðurlandi. 

En veðrið er aldrei eins frá ári til árs og hlýindin nú segja ekkert um sumarið að öðru leyti en því að sólin hitar landið og það geymir í sér hluta varmans og þannig séð verða líkur á hlýjum dögum því heldur meiri - ef ytri skilyrði önnur leyfa. 


Fyrri hluti maímánaðar 2025

Meðalhiti fyrstu 15 daga maímánaðar í Reykjavík er +7,4 stig, +1,6 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +1,8 stig um ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 7 hlýjasta sæti á öldinni (af 25). Hlýjastur var fyrri hluti maí árið 2008, meðalhiti þá +8,3 stig. Kaldast var 2015, meðalhiti +2,8 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 19. hlýjasta sætið af 151. Hlýjast var 1960, meðalhiti 9,4 stig, en kaldast 1979, meðalhiti 0,3 stig.
 
Staðan fyrir norðan er óvenjulegri. Meðalhiti fyrstu 15 daga mánaðarins á Akureyri er +9,5 stig, +4,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +4,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er næsthlýjasta maíbyrjun síðustu 90 ára á Akureyri, hlýrra var árið 2000 þegar meðalhiti þessara sömu daga var +10,2 stig (en þá kólnaði mjög síðari hluta mánaðarins).
 
Á spásvæðunum er þetta hlýjasti fyrri hluti maí á öldinni allt frá Vestfjörðum austur og suður um til Suðausturlands - og á Miðhálendinu. Við Faxaflóa er hitinn í 5 hlýjasta sæti og því 6. hlýjasta á Suðurlandi.
 
Vik miðað við síðustu 10 ár er mest við Upptyppinga. Þar hefur hiti verið +5,9 stigum ofan meðallags. Kaldast að tiltölu hefur verið á Önundarhorni undir Eyjafjöllum og á Sámsstöðum. Þar er hiti +1,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 33,4 mm, um 20 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur hún mælst 5,6 mm og er það um helmingur meðalúrkomu. Austur á Dalatanga hafa aðeins mælst 3,3 mm og er það aðeins 6 prósent meðalúrkomu. Þetta er með allra þurrasta móti - en þó ekki met - sýnist vera það þurrasta frá því sömu daga árið 2000.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 95,8 í Reykjavík, er það rétt í tæpu meðallagi. Sólskinsstundir hafa mælst 108,3 á Akureyri og er það um 30 stundum fleiri en í meðalári.
 
Auðvitað hafa hitamet síðustu daga vakið athygli, ekki síst nýtt Íslandsmet maíhita sem sett var á Egilsstaðaflugvelli í gær (15.maí). Vonandi mun ritstjóri hungurdiska gera eitthvað grein fyrir þessum hlýindum í sérstökum pistli/pistlum. Metið sjálft verður þó að bíða staðfestingar Veðurstofunnar - væntanlega í mánaðaruppgjörinu fyrir maímánuð.

Bloggfærslur 16. maí 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (17.5.): 17
  • Sl. sólarhring: 317
  • Sl. viku: 1696
  • Frá upphafi: 2467370

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1554
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband