Leki milli kvía

Blogg ritstjóra hungurdiska annars vegar og virkni hans á fjasbókinni hins vegar eru tvær ólíkar kvíar, efni þeirra fellur lítið saman og það er mjög fátt í fjasbókarkví sem kemst í gegnum efnisritskoðun bloggsins. Það hefur örfáum sinnum gerst að leki hefur orðið á milli. Það sem hér fer á eftir er efnislega það sama og birst hefur áður í tveimur fjasbókarpistlum. Segja má að fyrri færslan geti fallið undir hefðbundið efni hungurdiska þar sem hún á uppruna sinn í veðurtengdri spurningu sem stöðugt er verið að leggja fyrir ritstjórann - en hann getur, þannig séð, ekki svarað. Umrædd færsla er ekki ný. Sú síðari er hins vegar nýleg. Ástæða þess að hún fær að leka hér inn er skjálftahrina dagsins á Mýraafréttum. Vonandi umbera lesendur lekann. 

Oft sést og heyrist talað um eitthvað sem kallað er „jarðskjálfta- eða eldgosaveður“. Eftir þessari „þjóðtrú“ er um að ræða mikil hægviðri - jafnvel hita líka. Góðviðri séu undanfari eldgosa og jarðhræringa. Þegar farið er að grafast fyrir um rætur þessarar trúar kemur í ljós að hún er ævagömul - og reyndar að utan komin, allt frá rómverjum eða grikkjum hinum fornu. Í þeirra bókum er þessu haldið fram - og síðan tuggið aftur og aftur allar miðaldir - og jafnvel inn í huga íslendinga - nýleg dæmi meira að segja nefnd.

Sé farið í saumana koma saman tilvitnanir í „Náttúrusögu“ rómverjans Plíníusar eldri. Hann fórst í Vesúvíusargoninu í ágúst árið 79, en hafði áður skrifað gríðarmikið um náttúru- og landafræði.

w-blogg120425a

Í 81. kafla annarrar bókar verksins og næstu köflum á eftir segir af jarðskjálftum. Getið er þeirrar hugmyndar Babýloníumanna að gangur himintungla valdi skjálftunum. - Síðan er sagt frá tveimur frægum grískum jarðskjálftaspám, annars vegar leist Anaximander frá Míletos ekki á ástandið í Spörtu, varaði menn þar við yfirvofandi skjálfta og skriðu, en hins vegar spáði Pherecydes kennari Pýþagórasar skjálfta eftir að hafa litið á vatn úr brunni, ekki getur Plíníus þess hvar þetta var, en það er sjálfsagt auðfundið í öðrum heimildum.

Þetta er athyglisverður lestur - nokkuð skrýtinn samt og við hraðan yfirlestur finnst manni flest vera vitleysa ein. Byggt er á hugmynd grikkja (frægust hjá Aristótelesi) að jarðskjálftar séu vindgangur í jörð. - Og fljótlega er minnst á að jarðskjálftar eigi sér aldrei stað nema þegar sjór er hægur og himinn svo kyrr að fuglar geti ekki svifið - vegna þess (skilji ég rétt) að sá andi sem ber þá venjulega hafi lokast inni í jörðinni og valdi þar síðan vindgangi (skjálfta). Skjálftarnir hætti þegar jarðvindarnir hafi fengið greiða útrás - séu skjálftar fleiri en einn haldi þeir áfram í 40 daga eða meira - eins til tveggja ára jarðskjálftahrinur séu jafnvel þekktar.

Ekki er allt dellukennt sem kemur á eftir, langt í frá. Sagt er frá mismunandi skjálftum og fjölbreyttum afleiðingum þeirra. Þess er getið að borgir þar sem mikið er um neðanjarðarmannvirki, skemmist síður í skjálftum heldur en þær sem slíkt er ekki. Bogagöng eyðileggist síður heldur en annað, og svo framvegis.

Í framhaldinu eru fyrirboðar ræddir [s.387 lxxxiv]. og getur þar sama merkis og áður var nefnt, það þegar vatn í brunnum er gruggaðra en venja er og lykt af því er fúl sé von á skjálftum. Jarðskjálftar boði síðan oft eitthvað meira - Rómaborg hafi aldrei skolfið án þess að skjálftinn væri fyrirboði.

Nútímatölfræði sýnir ekkert samhengi milli veðurs og jarðskjálfta. Hugmyndir Plíníusar um mismundandi tíðni jarðskjálfta eftir tíma dags og árstíma eru einnig vafasamar - en við skulum þó geta þess að þeir stóru skjálftar sem við þekkjum hér á landi hafa ekki raðast jafnt á árið. Eru menn í alvöru að klóra sér í höfðinu yfir því.

Þess má geta í framhjáhlaupi að í 77. kafla sömu bókar er hin fræga tilvitnun í Pytheas frá Marseilles um eyjuna Thule. Þar er verið að fjalla um mismunandi lengd sólargangs (lengsta dags ársins) eftir breiddarstigum. Er þessi breiddarstigaumfjöllun öll hin athyglisverðasta. Bókin er aðgengileg á netinu (víðar en á einum stað - en aðallega í þeirri útgáfu sem myndin vísar í).

Maður hrekkur dálítið við að lesa þetta um grugg í vatni sem fyrirboða skjálfta. Í raun og veru hafa verið endurtekin vandræði með (lítilsháttar) grugg í vatni í vatnsveitunni í Borgarnesi - vatnið er komið ofan úr Grábrókarhrauni. Rétt er þó að taka fram að einhverjar aðrar skýringar eru taldar fundnar á þessum vandræðum - og ekki veit ritstjóri hungurdiska um það.

En það er samt með þessar jarðskjálftahrinur á sama sprungusvæði. Þær urðu tilefni annars pistils á dögunum. Fer hann hér á eftir - efnislega óbreyttur.

Undanfarin ár hefur jarðskjálftavirkni færst í aukana í múlunum norður af Mýrum - og það svo að líkur á eldgosi eru þar taldar meiri en verið hefur lengi. Ekkert skal hér um það sagt.

Þótt eldgos á þessu svæði sé ekki líklegt til að verða stórt eða langvinnt - og að mestu falið bakvið fjöll getur (óheppileg) staðsetning valdið furðumikilli röskun. Hægt er að setja upp margskonar sviðsmyndir þar að lútandi - jafnvel væri hægt að búa til einskonar hugmyndaleik um eldgosasviðsmyndir - líklegar og ólíklegar. En hér er ein - og ekki sú ólíklegasta.

w-blogg120425b

Kortið sem hér fylgir er úr safni Landmælinga. Við sjáum Hraundal neðarlega og rétt sést í Langavatn lengst til hægri, ofarlega. Langá rennur úr Langavatni meðfram Staðartungu - aðþrengd af hraunrennsli, sveigir fyrir hana og stefnir síðan suður Grenjadal - en áður en hún fellur inn í dalinn rennur Gljúfurá til austsuðausturs úr Langá - trúlega ein fárra straumvatna landsins sem á upptök í öðru straumvatni.

Þarna er löng saga að baki - ekki þekkir ritstjórinn hana í réttri röð. Líklegt er að meginafrennsli Langavatns hafi í fyrndinni farið um Hraundal, hann er mestur og breiðastur dala á þessum slóðum. Síðan tekur eldvirkni sig upp á svæðinu, kannski fyrir um hálfri milljón ára. Hún er smám saman að færast í aukana (segja kenningar „jarðveðurfræðinnar“) eftir því sem sigdalurinn sem liggur um Múlasvæðið breikkar og sígur. Einhvern tíma komu upp gos í Hraundal, þar eru móbergsfell. Hvort eða hvernig þau hafa stíflað dalinn og breytt farvegi Langár er hér ekki á lausu. En á nútíma hafa að minnsta kosti tvö eldgos orðið á svæðinu. Í öðru þeirra rann hraun niður Kvígindisdal (efst á kortinu) og að Langavatni, en hitt varð í eldstöðvum í Hraundal, Rauðhálsum og Rauðukúlu. Samtals voru þessi gos nægilega afgerandi til að lyfta Langá svo að eina leið hennar lá um núverandi farveg - og þar með varð hin núverandi Gljúfurá til.

Það sem ekki sést á þessu korti, en mun betur á loftmyndum er að allur farvegur Gljúfurár, frá upptökum og í gegnum múlana er alsettur einkennilegum vinkilbeygjum sem ráðast af brotum á svæðinu - allur sigdalurinn er þverbrotinn. Við sjáum líka dæmi um slíkar vinkilbeygjur á farvegi Langár á kortinu.

Nú kemur að sviðsmyndinni. Hún er ekki einföld - býður upp á annað hvort gos - eða sigvirkni - eða hvort tveggja. Með sigvirkni eingöngu er átt við að eldgosið verði annars staðar, t.d. í næsta dal fyrir vestan, Grjótárdal, eða fyrir austan, þá t.d. í Norðurárdal en að spilda í sigdalnum sigi um kannski hálfan til einn metra. Sig sem þetta getur þurrkað annað hvort Langá eða Gljúfurá - en kannski væri hægt að bæta úr slíkum skaða eftir á - með skurðgreftri, því skaði yrði að missa vatn úr hvorri ánni.

Eldgos í dalnum sjálfum er líklegri breytingavaldur - þá gæti stíflan í dalnum styrkst, jafnvel hækkað umtalsvert í Langavatni, varla þó þá 15 til 18 metra sem þarf til að koma öllu afrennslinu suður eftir Seldal - og í Gljúfurá þar suður af. Myndi sannarlega muna um alla Langá í farvegi Gljúfurár. Um upptök Gljúfurár (eða Langár) er það að segja að þau standa mjög glöggt. Litla breytingu þarf á landslagi þar í kring til að þetta óvenjulega fyrirkomulag verði fyrir bí. Hættulegast er auðvitað ef stíflur myndast og bresta síðan.

Velti þessu fyrir mér í þeim tilgangi að fleiri gefi mögulegum afleiðingum eldvirkni á svæðinu gaum, hún þarf ekki að vera stórbrotin í sjálfu sér til að geta valdið umtalsverðum breytingum á vatnafari - og breytingar á vatnafari eru ætíð afskaplega varasamar. Vatnsveitan sem liggur til Borgarness er þannig ekki alveg stikkfrí og laus við að lenda inn í hamfarasviðsmyndum. Alla vega ættum við ekki að láta þann möguleika koma okkur algjörlega í opna skjöldu.

Á nútíma hafa miklar breytingar orðið á vatnafari á svæðinu í öllum dölum þess. Skemmst er að minnast risaskriðunnar í Hítardal fyrir fáeinum árum - sem flutti Hítará á kafla yfir í Tálma - þeim ósköpum hefði maður seint trúað sem hluta af einhverri ruglaðri „sviðsmynd“.


Bloggfærslur 12. apríl 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg120425b
  • w-blogg120425a
  • w-blogg080425b
  • w-blogg080425a
  • w-blogg060425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (13.4.): 149
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1613
  • Frá upphafi: 2460467

Annað

  • Innlit í dag: 133
  • Innlit sl. viku: 1479
  • Gestir í dag: 131
  • IP-tölur í dag: 127

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband