Beyglast teppið?

Eftir umhleypingana að undanförnu lítur út fyrir góðviðri víðast hvar á landinu næstu daga. Háþrýstisvæði hefur komið sér fyrir fyrir suðvestan land. Þetta háþrýstisvæði er þó ekkert sérstaklega öflugt og sætir engum tíðindum þannig séð - ekki enn að minnsta kosti. Það virðist bara hafa verið þannig að ekki hafi fleiri illviðri verið á lager - í bili. 

Það má þó alltaf sjá eitthvað athyglisvert ef vel er að gáð. Háþrýstisvæðið er af hlýju gerðinni, það nær í gegnum allt veðrahvolfið og yfir því eru veðrahvörfin hærri en umhverfis. Norðvestanátt er því yfir Grænlandi. Norðvestanátt liggur hins vegar þvert á bæði Grænlandsströnd og Grænlandssund - sem ekki gengur vel. Vindur nærri sjávarmáli vill heldur blása um sundið annað hvort úr suðvestri eða norðaustri - og það er eiginlega sama úr hvorri áttinni blæs í neðstu lögum að loftið sem á ferðinni er er kaldara heldur en það sem kemur niður af Grænlandi - eftir að hafa farið yfir háhrygginn - og hlýnað verulega í niðurstreyminu austan hans. Þetta hlýja loft á því ekki greiða leið niður til yfirborðs - og þar með til Íslands og á bágt með að ylja okkur. Það leggst því eins og teppi ofan á kalda loftið og verða til mjög öflug hitahvörf. Í þessu tilviki verður þó um einhverja blöndun að ræða þannig að hitahvörfin smyrjast út á nokkur hundruð metra bil. 

Ofan hitahvarfanna er mjög hlýtt loft, jafnvel 6 til 8 stiga hiti, en neðan við er hiti lægri og þar sem vindur er hægur yfir landi er frost, jafnvel mikið. Sé vindur hægur er varla nokkur von til þess að teppið beyglist og hitinn ofan við blandist niður. 

En við skulum líta á kort sem skýrir stöðuna betur.

w-blogg080325a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á mánudag, 10.mars 2025. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarlínan sem liggur yfir Ísland sýnir 5400 metra og enn meiri þykkt er undan austurströnd Grænlands, 5460 metrar - við erum hér á mörkum þess að tala um sumarhita. Meðalþykkt yfir landinu í mars er um 5240 metrar. Hún er því um 160 metrum hærri en meðaltalið á þessu korti. Það samsvarar því að hiti sé um það bil 8 stig yfir meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs. Við fáum alloft að sjá hærri tölur á þessum árstíma, en oftast standa þær stutt við, hluta úr degi eða þá kannski 1 til 2 sólarhringa. Trúum við spánum er nú reiknað með 4 til 5 daga dvalartíma hlýja loftsins á svæðinu, og í hádegisreiknirunu reiknimiðstöðvarinnar á hún að toppa yfir landinu á þriðjudag eða miðvikudag - í 5450 hPa - og hitavikið þá komið í 10 stig. 

Litirnir á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum, hann er þessa dagana í um 1500 metra hæð. Marsmetið yfir Keflavíkurflugvelli er 7,8 stig. Að þessu sinni er það met varla í hættu, en svo virðist sem næstu daga verði 3 til 5 stig viðloðandi yfir landinu í 1500 metra hæð. 

Það þýðir að komi einhverjir kaflar þar sem háloftavindur nær að slá sér niður - handan fjalla um norðan- og austanvert landið gætum við fengið að sjá býsna háum hitatölum bregða fyrir stund og stund. Líkurnar hvað mestar á suðaustanverðu landinu. Eins og sjá má á kortinu hér að ofan gætir niðurstreymis yfir Suðausturlandi - þar er áberandi, staðbundið hámark hita í 850 hPa, 5,8 stig - og enn hærri tölur eru í niðurstreyminu undan Grænlandsströndum. 

Til þess að hita að ofan gæti í mannheimum þarf teppið að beyglast. Við sjáum - eins og oft áður - að það má búa til töluverða spennu út úr því sem virðist vera harla óspennandi leikur - alla vega gerum við nördin það, feitustu og bestu bitarnir liggja oft á víðavangi þar sem enginn tekur eftir þeim. 


Bloggfærslur 8. mars 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg080325a
  • w-blogg030325ia
  • w-blogg030325b
  • w-blogg030325a
  • w-1975-07-04-500

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.3.): 444
  • Sl. sólarhring: 633
  • Sl. viku: 2595
  • Frá upphafi: 2451550

Annað

  • Innlit í dag: 423
  • Innlit sl. viku: 2338
  • Gestir í dag: 416
  • IP-tölur í dag: 409

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband