28.3.2025 | 23:01
Hlaupið yfir árið 2008
Veðurfar á árinu 2008 var lengst af hagstætt. Flestir veðurviðburðir eru þó fallnir í gleymskunnar dá. Helst að sumir muni hina óvenjulegu hitabylgju í júlílok. Af öðrum viðburðum í náttúrunni er Ölfussjarðskjálftinn mikli langminnisstæðastur. Tryggt tjón varð hátt á þriðja tug milljarða króna. Tjónið í efnahagshruninu um haustið varð þó miklu meira - en það er ekki veðurtengt.
Sumarhelmingur ársins, frá maí til og með september var óvenjuhlýr um landið sunnan- og vestanvert og sömuleiðis var þá þar bæði þurrt og sólríkt.
Veðurlag í janúar þótti nærri meðallagi á landinu. Umhleypingasamt var og þó hvergi væri mikill snjór var hann samt til trafala við samgöngur. Tíð í febrúar var víðast talin óhagstæð og jafnvel mjög óhagstæð til sjávarins. Illviðri voru tíð, einkum fyrir miðjan mánuð, og víða var talsverður snjór á jörðu. Mjög kalt var í upphafi mánaðarins. Mars var aftur á móti ekki fjarri meðallagi um stóran hluta landsins en úrkomusamt var sums staðar norðan- og austanlands. Apríl var lengst af hagstæður mánuður og fremur úrkomulítill. Hlýtt og góðviðrasamt var í maí, mjög ólíkt því sem var næstu ár á undan. Í júní var hlýtt var um sunnan- og vestanvert landið. Mjög þurrt var vestanlands og einnig víða um sunnanvert landið og tafði þar sprettu. Óvenjusólríkt var sunnanlands. Sláttur hófst óvenju snemma norðaustanlands, jafnvel í fyrstu viku mánaðarins. Mjög hlýtt var í júlímánuði, sérstaklega síðustu 10 dagana, og voru þá hitamet slegin víða um land. Góðviðrasamt var í mánuðinum. Í ágúst var tíð hlý og hagstæð um land allt. September var einnig hlýr, en þá var mjög úrkomusamt á Suður- og Vesturlandi. Metúrkoma við Breiðafjörð. Í október var hlýtt var í veðri í annarri viku mánaðarins, en annars var mánuðurinn kaldur og snjór heldur meiri og þrálátari en venjulegt er á þessum tíma árs. Sunnanlands snjóaði í fyrstu viku mánaðarins. Tíð var lengst af hagstæð í nóvember og desember, þótt snjór væri meiri á jörðu í desember en á sama tíma næstu ár á undan.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oft með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. Árið 2008 voru blaðamenn Morgunblaðsins og fréttaritarar drýgstir við að segja frá veðri, er þeim þakkað.
Fyrstu tveir mánuðir ársins rúmir voru mjög umhleypingasamir og veðurlag til vandræða. Tjón varð töluvert, en átti sér stað í mörgum veðrum og varla hægt að segja að hvert þeirra skeri sig sérstaklega úr. Desember 2007 hafði einnig verið illviðrasamur. Nokkur illviðri gengu yfir landið í janúar, verstu veðrin gerði á nýársnótt (af suðri) og síðan 22., 27. og 31. Minniháttar tjón varð í þessum veðrum en töluverðar samgöngutruflanir.
Morgunblaðið segir frá vandræðum 2.janúar:
Fyrsta beiðni ársins eftir aðstoð frá björgunarsveitum Landsbjargar var ekki lengi að berast. Björgunarsveitin Tindar í Hnífsdal var kölluð út þremur mínútum eftir miðnættið á nýársnótt. Þá höfðu sterkir svipti- eða hvirfilvindar, svonefnd Gjögraveður, gert vart við sig í Hnífsdal og valdið töluverðu eignatjóni. Þetta er fremur sjaldgæft en verður helst í sunnanátt þegar vindum slær fyrir svonefnt Leiti í fjallinu fyrir ofan þorpið. Múrhúð flettist af veggjum Að sögn Kristjáns Ívars Sigurðssonar, umsjónarmanns gömlu rækjuverksmiðjunnar á Bakka, sem nú er geymsluhúsnæði, fór vindur að aukast um hálftólf. Ég verð fljótt var við að húsið hjá mér nötrar og skelfur. Þá hafði losnað múrhúð utan af húsinu hjá mér. Maður gapir bara yfir þessu, það eru nokkrir fermetrar farnir af húsinu, segir Kristján. Þegar hann varð var við þakplötur og fleira lauslegt sem fauk til og frá ákvað hann að huga að húsunum á Bakka. Um tólfleytið fer ég yfir ásamt 15 ára gömlum syni mínum, þetta eru varla nema 150 metrar þarna á milli. Á miðri leið kemur vindstrókur og feykir okkur um það bil þrjátíu metra. Við kýldumst í jörðina og fukum eftir henni á fleygiferð út í snjóruðning. Maður réði ekki neitt við neitt. Þeir feðgar sluppu til allrar lukku við meiðsli. Í rækjuverksmiðjunni hafði bílskúrshurð fokið inn í húsið og hafnað ofan á vélsleða. Við þetta stóð vindurinn inn í húsið og járnplötur þeyttust af stórum hluta þaksins. Einangrun í lofti 150 fermetra kæliklefa hrundi einnig niður, og ljóst þykir að milljónatjón hefur orðið á húsinu. Þó hefði getað farið verr, enda bílar, fellihýsi, bátar og fleira verðmætt í geymslu þar innandyra.
200 metrum innar í Hnífsdal var Torfi Einarsson að fagna áramótunum. Þar var hæglætisveður og brenna í gangi. Ég stóð úti í blankalogni og var að skjóta upp flugeldum með krökkunum mínum. Þá heyrði ég þennan rosalega hávaða og sá hvar bárujárnsplötur þeyttust hátt upp í loftið. Torfi, sem búið hefur í Hnífsdal í 30 ár, segist líklega hafa upplifað þetta veðurfyrirbrigði þrisvar til fjórum sinnum áður. Töluverðar skemmdir urðu einnig á öðru íbúðarhúsi þar sem þakplötur losnuðu og mikið rigningarvatn flæddi inn í stofu og svefnherbergi. Veðrinu slotaði fljótt og var orðið skaplegt klukkan þrjú um nóttina.
Morgunblaðið segir 5.janúar frá vandræðaveðri rétt fyrir áramótin:
Mikið brim gekk yfir bryggjurnar á Hólmavík í sjóveðri sem skall á sl. sunnudag [30.desember]. Skemmdir urðu einkum á malbiki á bryggjum en vindur var að sunnan og fór í 33 metra á sekúndu í hviðum á Hólmavík. Einnig urðu skemmdir á frárennslisrörum og varnargörðum auk þess sem brim skall á hjólhýsi á gámasvæðinu og gjöreyðilagði það. Þá eyðilagðist dekk á stórskipabryggjunni endanlega og þar kom gat í gegnum enda bryggjunnar. Kristín Einarsdóttir fréttaritari
Aðalillviðrasyrpan hófst þann 22. Þá kom mjög djúp lægð hratt hefðbundna leið suðvestan úr hafi og fór síðan norðvestur í Grænlandshaf. Mjög hvasst varð víða um land. Morgunblaðið segir frá 23.janúar:
Bátur sökk í Keflavíkurhöfn í gærmorgun [22.] vegna óveðurs og annar losnaði frá bryggju í Njarðvíkurhöfn og rak upp í fjöru. Tjón var auk þess víða um land og fólk var varað við að vera á ferðinni á vegum landsins. Víðir Reynisson, deildarstjóri almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir að spáð hafi verið suðaustanátt en veðrið hafi verið austlægara og það hafi breytt miklu, tjónið hafi ekki verið eins mikið. Talið er að mesta tjónið hafi verið í Reykjanesbæ í morgunsárið, þegar báturinn Tjaldanes, sem er um 180 tonn, losnaði frá bryggju í Njarðvíkurhöfn og rúmlega 11 tonna báturinn Sunna Líf sökk í Keflavíkurhöfn. Víðir segir að þegar veðrið hafi verið sem verst hafi verið um 40 til 50 sm sjór yfir bryggjunum. Víða var tilkynnt um tjón vegna foks. Til dæmis í Vestmannaeyjum, í Mýrdal, upp með Vesturlandi og á Ísafirði. Víðir segir að þó margar tilkynningar hafi borist hafi ekkert meiriháttar tjón orðið.Hins vegar hafi björgunarsveitir staðið í erfiðum verkefnum við erfið skilyrði í marga klukkutíma.
Mjög hvasst var víða um land. Á Stórhöfða í Vestmannaeyjum mældist vindhraði til dæmis 38 metrar á sekúndu klukkan sex í gærmorgun. Vegagerðin varaði við stórhríð og óveðri víðs vegar um landið. Auk þess var varað við flughálku, snjóþekju og skafrenningi. Skólahald í uppsveitum Borgarfjarðar og Árnessýslu féll niður eða var frestað. Ferðum Herjólfs var aflýst. Röskun varð á innanlandsflugi og mikið var um umferðaróhöpp en engin alvarleg slys, að sögn Víðis. Byrjað var að kalla út björgunarsveitir um klukkan þrjú í fyrrinótt og mikil læti voru í veðrinu næstu klukkutíma, en um hádegi var samhæfingarstöðinni í björgunarmiðstöðinni Skógarhlíð í Reykjavík lokað.
Þann 24.fór kröpp lægð mjög hratt til austurs fyrir sunnan land (sjá kortið). Í kjölfar hennar gengu miklir éljabakkar úr suðvestri inn yfir suðvestavert landið. Mikla ófærð gerði þá suðvestanlands.
Hitamyndin hér að ofan er tekin þegar lægðin hraðfara var komin alla leið til Noregs, en éljaflókar ganga inn á vesturland að kvöldi 25.janúar. Morgunblaðið segir frá 26.janúar:
Suðvestanhríð og skafrenningur ollu því að samgöngur fóru úr skorðum sunnanlands í gær og var annríki hjá björgunarsveitum í gærmorgun vegna ófærðar. Ökumenn lentu víða í vandræðum og þurfti að ganga svo langt að loka Reykjanesbraut um tíma. Björgunarsveitir frá Borgarnesi og Akranesi voru einnig kallaðar út til aðstoðar ökumönnum undir Hafnarfjalli og í Melasveit. Í Árnessýslu voru björgunarsveitir einnig kallaðar út vegna ófærðar á Selfossi, í Þrengslunum og á Hellisheiði. Að sögn lögreglunnar á Selfossi var lögð áhersla á að halda Suðurlandsvegi opnum á láglendinu, þ.e. í Þrengslunum, en Hellisheiðin höfð lokuð. Fjölmargir ökumenn voru þar fastir á bílum sínum og þáðu aðstoð björgunarsveitarmanna á sérútbúnum ökutækjum við að komast niður af heiðinni. Ekki var mikið um að menn þyrftu að skilja bíla sína eftir á heiðinni. Erfitt færi við Þingvallaafleggjarann Þá sinntu björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu hjálparbeiðnum, mest í Mosfellsbæ og á Vesturlandsvegi við vegamót Þingvallaafleggjara þar sem töluverð snjóþyngsli voru.
Mesta álagið var þó hjá björgunarsveitum á Suðurnesjum en í Sandgerðishöfn losnaði skip frá bryggju og vandræðaástand skapaðist á Reykjanesbrautinni þegar mikill fjöldi bíla festist þar á kaflanum frá Grindavíkurafleggjara, sem einnig var lokaður, að Keflavík. Var Reykjanesbrautinni lokað fram að hádegi. Að sögn Gunnars Stefánssonar hjá björgunarsveitinni Suðurnesjum skapaðist versta ástandið í kringum vinnusvæðin þar sem unnið er að breikkun Reykjanesbrautarinnar. Segir hann að björgunarsveitarmenn hafi vart orðið vitni að eins mikilli snjósöfnun á vegum eins og þarna var. Allt að 100 bílar voru fastir þvers og kruss á veginum og kom að litlu haldi að vera jeppum nema þeir væru mikið breyttir. Mjög blint var á veginum og þegar fólksbílar óku fyrirvaralaust út í snjóskafla, skóf samstundis að þeim og þannig hertist hnúturinn sífellt. Urðu að skapa pláss fyrir ruðningstækin. Um 50 björgunarsveitamenn voru að aðstoða ökumenn og notuðu til þess 15 björgunarsveitabíla. Lauk aðgerðum ekki fyrr en um kl.16. Aðgerðir snerust aðallega um að losa bíla af brautinni til að skapa pláss fyrir snjóruðningstæki, segir Gunnar Stefánsson. Stærsta vandamálið snerist um staðina þar sem unnið er að breikkun brautarinnar. Við þrengingar, þar sem skipt er yfir á einfaldan veg, eru snjógildrur og ef þær hefðu ekki verið, þá hefði vandinn ekki verið nærri eins mikill og raunin var í [gær]morgun. Það skóf að hindrunum við skiptingarnar og um leið og einn bíll stöðvast í skafli þar skefur að honum og fleiri skaflar myndast. Hann tekur þó fram að þetta verði úr sögunni þegar vegavinnumannvirki verða fjarlægð.
Veðrið setti ekki síður strik í reikninginn í flugsamgöngum og neyddust flugvélar í millilandaflugi til að lenda á Reykjavíkurflugvelli og Egilsstaðaflugvelli vegna óveðursins. Tveim Boeing 757-þotum á leið frá Bandaríkjunum var snúið til Reykjavíkur og lenti sú fyrri kl. 6:42 og sú seinni kl. 6:48 í gærmorgun. Slæm bremsuskilyrði voru á Keflavíkurflugvelli auk óhagstæðra hliðarvinda en á Reykjavíkurflugvelli voru hins vegar mun hagstæðari skilyrði og tókust lendingar flugvélanna án vandkvæða. Þriðju vélinni sem einnig var af sömu gerð og á leið frá Bandaríkjunum var hins vegar snúið til Egilsstaða og komst til Keflavíkur eftir hádegið. Vegfarendur á höfuðborgarsvæðinu fóru heldur ekki varhluta af ástandinu þegar morgunumferðin hófst og urðu miklar tafir á umferð. Sögur gengu af því ofan úr Borgarfirði að 10 mínútna akstur frá Borg niður í Borgarnes hefði tekið hátt í klukkutíma á stórum og breyttum jeppum. Flugfarþegar á leið til Keflavíkurflugvallar urðu margir hverjir veðurtepptir á Reykjanesbrautinni. Björgunarsveitarmenn á jeppum voru margar klukkustundir að greiða úr flækjunni við mjög erfiðar aðstæður.
Þann 27. fór kröpp og djúp lægð hratt norðaustur skammt fyrir vestan land og olli illviðri um mikinn hluta landsins. Morgunblaðið segir frá 28.janúar:
Þótt hver lægðin annarri krappari hafi gengið yfir landið þennan vetur, með tilheyrandi viðvörunum um óveður, virðist sem Íslendingum sé ekki tamt að binda niður lausamuni.
Í hvert skipti hefur þurft að kalla út hundruð björgunarsveitarmanna til að elta uppi ruslafötur og útigrill en aðallega lausamuni af nýbyggingarsvæðum. Um 170 björgunarsveitarmenn glímdu í gær við á milli sjötíu og áttatíu miserfið verkefni og segir upplýsinga- og kynningarfulltrúi Landsbjargar gagnrýnivert að verktakar hugi ekki að lausum munum. Engin stórtjón hlutust af í óveðrinu í gær og engin meiðsl á fólki sem vitað er um. Fremur lítið var um útköll á höfuðborgarsvæðinu en þó þurftu björgunarsveitarmenn nánast að vera með vakt í Vallahverfi í Hafnarfirði þar sem byggingarefni, flekamót og fleiri hlutir fuku til. Af því hlutust skemmdir á nýbyggingum. Þetta gerist í hvert einasta skipti að hlutir fara af stað og það er einfaldlega vegna þess að ekki er nægilega gengið frá, segir Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsinga- og kynningarfulltrúi Landsbjargar, og bætir við að mildi sé að enginn hafi slasast alvarlega. Það skapast mikil hætta af þessu foki, meiri en margan grunar. Fjúkandi þakplata t.a.m. getur þess vegna klippt mann í sundur. Þrátt fyrir að hægt sé að koma í veg fyrir mörg útköll er það ekki ávallt tilfellið. Á Suðurnesjum voru útköllin í gær flest hátt í þrjátíu og fuku m.a. tengivagnar, gámar og þakplötur til. Á Keflavíkurflugvelli mældist vindur um þrjátíu metrar á sekúndu um hádegisbil og fór yfir fjörutíu m/s í hviðum. Þar fauk m.a. fjörutíu feta gámur í gegnum girðingu og mátti litlu muna að hann færi á röð af bílaleigubílum.
Veðrið náði hámarki á Suðurlandi upp úr hádegi og gekk yfir Vesturland. Á Akranesi losnuðu klæðningar og þakkantar af húsum og unnu björgunarsveitir að því að festa niður. Þegar líða tók á dag færðist óveðrið yfir Vestfirði og skemmdist m.a. krani við höfnina á Ísafirði þegar flutningaskipi var siglt á hafnarbakkann. Afar hvasst var í höfninni og bar skipstjóri við að af þeim sökum hefði ekki tekist að stýra skipinu sem skyldi. Þegar degi hallaði fór að hvessa á Norðurlandi og Norðausturlandi en lítið var um skemmdir á þeim slóðum. Veðrið átti svo að ganga niður í nótt og samkvæmt spá Veðurstofu Íslands verður það hið skaplegasta í dag.
Fjöldi fólks beið lengi vel á flugvöllum um land allt í gærdag en innanlandsflugi var framan af degi frestað og síðdegis fellt niður vegna óveðurs. Töluverðar tafir urðu einnig á millilandaflugi. Mikill vindur var á Suðurnesjum framan af degi og þurfti Boeing 757 farþegaþota að hætta við lendingu á Keflavíkurflugvelli. Henni var þess í stað lent á Reykjavíkurflugvelli þar sem veður var töluert skaplegra. Lendingin gekk vel. Veðrið hafði ekki aðeins áhrif á samgöngur í lofti því Herjólfur lét aldrei úr höfn í gær, né Breiðafjarðarferjan Baldur. Innanlandsflug fellt niður. Veðurofsinn í gær hafði töluverð áhrif á raforkukerfi Landsnets. Á ellefta tímanum í gærmorgun varð bilun í 220 kV tengivirkinu í Sigöldu með þeim afleiðingum að allir aflrofar leystu út. Bilunin hafði m.a. áhrif á stóriðju á Suðvesturlandi sem fór út með álag. Tengivirkið var komið í rekstur að nýju eftir 20 mínútur, en stóriðjan komst ekki í eðlilegan rekstur fyrr en um miðjan dag. Jafnframt leysti út hjá Alcoa Fjarðaáli og fór kerskáli út með álag. Töluverðar truflanir urðu þá í afhendingu rafmagns á Vestfjörðum og Vesturlandi fram eftir degi og síðdegis leysti Norðurálslína 2 út í tengivirki Norðuráls. Í kjölfarið leysti út þéttir á Brennimel.
Hellisheiði var lokað með valdi um stund í gærdag eftir að bílar fuku út af veginum. Mælir Vegagerðarinnar sýndi þá vindhraða á milli 25 og 29 m/s og gaf til kynna að heiðin væri lokuð. Engu að síður héldu ökumenn áfram. Þurfti lögregla því að halda úti vakt til að koma í veg fyrir að lokunarskiltið yrði virt að vettugi. Þá höfðu í það minnsta þrír bílar fokið út af, og einn þeirra m.a. hafnað á hliðinni. Engin alvarleg meiðsli urðu á fólki. Upp úr hádegi í gær var vindhraði á milli 30 og 35 m/s á Holtavörðuheiði en eftir því sem næst verður komist fóru þó engir bílar út af veginum. Í gærkvöldi voru vegir víða um land enn flughálir og búast má við áframhaldandi hálku í dag.
Þann 30. dýpkaði lægð fyrir sunnan land og fór austur. Vindur snerist þá til norðurs og það kólnaði verulega - enda var norðanloftið með kaldasta móti.
Kortið sýnir mikinn kuldapoll sem kom úr norðri og fór til suðurs skammt fyrir austan land. Þykktin í honum miðjum var minni en 4920 metrar (fjólublár litur á kortinu). Það er ekki mjög algengt að aá litur snerti landið - og þá ekki lengi. Kortið gildir síðdegis þann 1.febrúar. Morgunblaðið segir frá þann dag:
Brunagaddi er spáð víða á landinu um helgina [2. og 3.]. Mest verður frostið í dag og á morgun, allt að fimmtán stig á Suðvesturlandi, en að líkindum mun kaldara inn til landsins. Þessu fylgir mikil tjónahætta og því ástæða til að vara fólk við. Um tíu vatnstjónstilfelli urðu vegna frosts hér á landi í janúarmánuði, að sögn Einars Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Forvarnahúss Sjóvár, mörg hver ansi slæm. Því er ástæða til að taka aðvaranir alvarlega, enda fyrsti alvöru kuldakaflinn að hefjast.
Morgunblaðið heldur áfram 2.febrúar:
Hann stendur undir nafni þorrinn um þessar mundir, þótt blóðið frjósi reyndar ekki í æðum eins og segir í alþekktu kvæði Kristjáns Fjallaskálds. Engu að síður er frost á Fróni nú í fyrstu viku þorra og sáust ýmis nýstárleg merki þess í nútímasamfélagi í gær. Einna mest vakti athygli sú staðreynd að met var sett í heitavatnsnotkun á höfuðborgarsvæðinu, en í gærmorgun fór rennsli á heitu vatni eftir dreifikerfi Orkuveitu Reykjavíkur í 15.200 tonn á klukkustund. Hefur rennslið aldrei verið meira og má rekja þetta til mikillar uppbyggingar og frostsins sem fór í 13 stig í Reykjavík. Samkvæmt upplýsingum OR svara 15.200 tonn af vatni á klukkustund til liðlega fjögurra rúmmetra á sekúndu. Þá er straumurinn um heitavatnsleiðslurnar farinn að slaga upp í rennsli Elliðaánna, en meðalrennsli þeirra er um 4,7 rúmmetrar á sekúndu. Gera má fastlega ráð fyrir því að kuldinn hefði orðið margfalt meiri ef vind hefði hreyft að ráði í gær, en til þess var tekið hversu stillt var í veðri og minnti veðrið á það sem gengur og gerist að vetri til í löndum með meginlandsloftslag. En það var ekki alls staðar fallegt vetrarveður í gær.
Norðanlands var hvorki stillt né bjart og fóru Akureyringar síst varhluta af norðanáttinni. Átta árekstrar urðu í umdæmi lögreglunnar og fór dagurinn hjá lögregluþjónunum í að sinna þeim. Ekki urðu slys á fólki en slæm færð var í bænum, mikil ofankoma og slæmt skyggni. Nokkru vestar, í Skagafirðinum, var síst betra veður, þreifandi dimmur éljagangur og 8-10 stiga frost. Lögreglan sagði að milli élja hefði þó verið bjart. Húsvíkingar sáu vart eitt einasta snjókorn falla í gær en fengu samt rækilegan skammt af skafrenningi svo æði dimmt varð á meðan. Í Húnavatnssýslu var svolítill éljagangur og hálka á vegum. Ísfirðingar voru í 10-11 stiga frosti og skafrenningi en ekki var samt neinni ofankomu fyrir að fara. Á Höfn í Hornafirði sagði lögreglan að veður hefði verið stillt og fallegt og frostið um níu stig. Sérstaka athygli vakti stórt og mikið glitský í vestri. Þótt ýmsum gæti þótt um og yfir 10 stiga frost mikið telst það saklaust miðað við kuldann á hálendinu í gær. Í Sandbúðum á Sprengisandi mældist frostið 21 stig og sömu sögu var að segja af Hágöngum. Þá var 20 stiga frost í Veiðivatnahrauni. Sjaldan gerist það að eitt helsta aðalsmerki og sérkenni Íslands, þ.e. heitar og notalegar sundlaugarnar hérlendis, mæti ofurefli Frosta gamla. Það gerðist samt í gær þegar laugunum á Akranesi og Borgarnesi var lokað vegna heitavatnsskorts. Sömu sögu var að segja um Sundhöll Selfoss og Sundlaug Stokkseyrar. Það voru því nokkrar áhyggjur sem sóttu að heimildamanni Morgunblaðsins er hann brá sér í Árbæjarlaug í Reykjavík, vitandi af heitavatnsskorti í nágrannabyggðunum. En skortur var ekki á heitu vatni þar, enda heitir vatnið ekki heitavatnið fyrir neitt, vatnið. Spáð er minnkandi frosti frá og með morgundeginum.
Sundlaugarnar á Akranesi og Borgarnesi eru lokaðar og verða ekki opnaðar fyrr en eftir helgi þegar kuldakastinu er lokið. Ákvörðun um að loka var tekin í öryggisskyni eftir að vatnsborð í heitavatnsgeymum hafði lækkað mjög í kjölfar rekstrartruflana um síðustu helgi. Ekki er útilokað að til frekari skerðinga komi næstu daga.
Morgunblaðið segir enn af frostum 4.febrúar. Einnig er sagt af fannkomu eystra, en lægð fór þá til norðvesturs skammt fyrir austan og norðaustan land.
Ekki virðist hafa orðið mikið tjón vegna frostskemmda á leiðslum sumarbústaða eða annarra húsa í frostinu um helgina. Í Grímsnesi stíflaðist afrennsli þriggja til fjögurra bústaða en það tókst að laga áður en verulegt tjón varð. Hugsanlegt er að það fari að leka úr frosnum leiðslum nú þegar frostið minnkar og mun það koma í ljós næstu daga. Mikið álag var á kerfi hitaveitna þegar frostið var sem mest en þau virðast hafa staðist álagið. Frostið fór í 22 til 24 stig í stórum sumarhúsabyggðum á Suður- og Vesturlandi á föstudagskvöldið.
Morgunblaðið segir 5.febrúar frá krapaflóði í Elliðaám - afleiðingum frostanna:
Loka þurfti Rafstöðvarvegi í Elliðaárdal um tíma í gærmorgun [4.] vegna krapaflóða í Elliðaám. Töluvert af vatni flæddi yfir veginn og tók lögreglan á höfuðborgarsvæðinu ákvörðun um lokun af þeim sökum. Kallaðir voru til starfsmenn Orkuveitu Reykjavíkur og tók um eina og hálfa klukkustund að opna veginn að nýju.
Nokkuð hefur borið á því í kuldanum að undanförnu að neysluvatnslagnir, hvort heldur fyrir heitt eða kalt, hafi frosið.
Vetur konungur sýndi Austfirðingum í tvo heimana í gærdag. Færð var víða erfið og fjallvegir ófærir. Vegfarendur í á fjórða tug bíla sátu m.a. fastir á Fagradal, milli Fljótsdalshéraðs og Reyðarfjarðar um miðbik dagsins, í lausamjöll og 20 m/sek. vindi. Snjóflóð féllu á vegi og ökutæki. Snjóflóð féll í Mjósundum, á veginn milli Fáskrúðsfjarðar og Stöðvarfjarðar, um hádegisbilið. Var snjóflóðið um 60 m breitt og lenti á 20 tonna vörubíl með snjótönn og henti honum þversum á veginn. Þykir mildi að flóðið hreif hann ekki tugi metra ofan í stórgrýtta fjöru neðan vegarins. Ökumann sakaði ekki en vörubíllinn skemmdist nokkuð. Þá féll snjóflóð á svipuðum tíma úr Grænafelli ofan þjóðvegarins í Reyðarfirði en það var minni háttar. Snjóflóð á þessum stað eru fremur tíð.
Enn ein lægðin kom sunnan úr hafi þann 7. og fór til norðurs rétt austan við land. Lægðin var kröpp og í kjölfar hennar gekk enn í suðvestanátt með snjókomu suðvestanlands.
Strax daginn eftir [8.] kom önnur lægð sunnan úr hafi. Lægðin varð sérlega djúp, innan við 930 hPa í miðju. Landsynningsveðrið á undan lægðinni varð ákafast, því fylgdi rigning og leysingar ofan í talsverðan snjó. Síðan snerist vindur í útsuður og varð einnig mjög hvasst af þeirri átt, en skaðar urðu þó minni. Sjór ókyrrðist mjög og gekk sums staðar á land, enda var nýtt tungl þann 6.
Morgunblaðið segir frá 8.febrúar:
Það er vetur og fékkst það rækilega staðfest í gær er ófært var víða um land vegna mikilla snjóa. Síðdegis bætti í vind og á skall mikill skafrenningur svo varla sást út úr augum. Vegum var lokað, snjóflóð féllu og flug lá niðri fram eftir degi. Hálka, éljagangur og snjókoma varð til þess að víða var alls ekkert ferðaveður, m.a. á Vestfjörðum, en þrjú snjóflóð féllu í Súðavíkurhlíð í gærmorgun. Jóhanna Ólöf Rúnarsdóttir, sem búsett er í Súðavík, slapp ómeidd er hún keyrði utan í fyrsta snjóflóðið um kl.10:30 í gærmorgun. Hún var á leið í skólann á Ísafirði er hún sá í gegnum hríðina að snjóflóð hafði fallið á veginn. Ég sá snjóflóðið svo seint að ég náði ekki að stoppa bílinn nógu snemma og rann inn í það, segir Jóhanna. Hún segist ekki hafa óttast að annað flóð félli, enda langt síðan færðin var svona slæm. Ég var bara ofboðslega róleg, hafði ekki miklar áhyggjur. Hringdi á hjálp við að losa bílinn. Fannst þetta ekki alvarlegra en það. Innan skamms kom sjúkrabíll á staðinn og fékk Jóhanna far með honum inn á Ísafjörð. Ég gerði mér ekki grein fyrir að það væri svona mikið að koma niður, segir hún en tvö önnur snjóflóð féllu á veginn skömmu síðar. Það er eins með mig og marga aðra, ég mun bara halda áfram að fara í mína vinnu. Þetta stoppar mig ekkert af. Hins vegar myndi þetta kannski horfa öðruvísi við ef flóðið hefði lent á bílnum, þá hefði þetta haft meiri áhrif á mig. Hún segist hins vegar ætla að kanna færð betur í framtíðinni áður en hún ekur Súðavíkurhlíðina. Ég hefði samt ekkert á móti því að það kæmu þarna göng, segir Jóhanna. Það er þessi vegur sem stoppar af allar eðlilegar samgöngur. Það hlýtur að verða næsta forgangsmál að gera jarðgöng þarna á milli.
Færð var slæm jafnt innanbæjar sem utan í gær. Fram eftir degi voru margir þjóðvegir lokaðir og lenti fólk m.a. í vandræðum á Hellisheiði og í Þrengslum. Þurfti fólk að bíða fast í bílum sínum, sumt í marga klukkutíma, þar til björgunarsveitarmenn komu því til aðstoðar. Þó nokkuð margir ökumenn ákváðu að hundsa lokun Vegagerðarinnar á Hellisheiði, sem tilkynnt var á ljósaskiltum við heiðina snemma í gærmorgun, og sátu síðan pikkfastir í Kömbunum þar til aðstoð barst. Þá sátu á annað hundrað bílar fastir á Reykjanesi en ökumenn nutu aðstoðar björgunarsveitarmanna við að komast leiðar sinnar. Björgunarsveitir á Suðurlandi tóku daginn snemma og voru komnar á Hellisheiðina og í Þrengslin á áttunda tímanum í gærmorgun. Höfðu sveitirnar yfir tólf sérútbúnum jeppum að ráða og á þriðja tug björgunarsveitarmanna. Byrjað var á því að ferja fólk ofan af heiðinni en síðdegis tók við að losa fasta bíla til að hægt væri að ryðja heiðina. Losa þurfti fleiri tugi bíla úr snjósköflum. Hefur hann áhyggjur af ákveðnu athæfi þegar færðin er slæm líkt og í gær. Það sem er verst er að þó að það hafi staðið lokað á upplýsingaskiltum Vegagerðarinnar snemma virti fólk það ekki. Segir hann slíka hegðun reglu frekar en undantekningu. Það er okkar stóra vandamál í dag að fólk virðir ekki lokanir. Ekki dugi einu sinni að leggja björgunarsveitarbílum þvert yfir vegi, bílstjórar troði sér bara framhjá. Fólk virðist halda að það sé bara vitleysa í okkur að það sé ófært, en kemst svo yfirleitt að raun um annað. Á Holtavörðuheiði lenti sementsflutningabíll útaf kl. 19:30 en ekki urðu slys á fólki. Þá ók vörubíll aftan á jeppa og urðu minniháttar meiðsl. Þá var Grindavíkurafleggjara lokað í gær.
DV segir 11.febrúar frá atviki sem varð eystra í kjölfar þessarar kröppu lægðar þann 7.:
Það er fyrir mestu að engin slys urðu á fólki," segir Jónas Jónasson, bifvélavirki frá Egilsstöðum, er veðurofsi splundraði sumarhúsi hans við Bakkavör í Borgafirði eystra í
síðustu viku. Veðrahamurinn var slíkur á fimmtudaginn [7.] að vindurinn feykti sumarhúsi Jónasar í næstu fjöru. Það eina sem var heillegt eftir veðrið var eitt klósett. Jónas segir missinn þó nokkurn. Aðallega vegna þess að hann hafði hug á að dvelja meira í Borgarfirðinum. Hann vill þó ekki gefast upp, heldur stefnir á að reisa nýtt sumarhús. Sjálfur segist Jónas ekki gráta missinn enda lítið hægt að gera. Það var í veðurhamnum á fimmtudaginn sem sumarhús Jónasar fauk. Upp úr hádeginu virðist vindurinn hafa komist inn í húsið. Ein vindhviðan splundraði húsinu og feykti brakinu ofan í fjöru þar nálægt. Inni í húsinu voru persónulegar eigur fjölskyldu Jónasar sem lágu eins og hráviði. Mönnum til nokkurrar furðu, varð klósettið eitt eftir. Svo virðist sem það hafi verið fest á traustum grunni. Húsið hafði þá staðið á sama stað í tæpt ár. Fjölskylda Jónasar dvaldi þar síðasta sumar og hafði gaman af, enda fallegt um að litast í Borgarfirðinum.
Versta veðrið gerði þann 8. Sérlega djúp lægð fór norður Grænlandshaf. Það hlýnaði um stund og rigndi mikið. Sömuleiðis varð mjög hvasst. Morgunblaðið segir frá 9.febrúar:
Stórtjón varð í aðstöðu sjö listamanna á Korpúlfsstöðum í gærkvöldi [8.] vegna vatnsleka og skemmdust þar tugir listaverka af ólíkum toga. Mittisdjúpt vatn komst inn í kjallarann þar sem auk listaverkanna eru brennsluofnar, rennibekkir og óunnið efni til listmunagerðar. Óveðrið setti allar samgöngur úr skorðum í gær. Flugsamgöngur innanlands og milli landa lömuðust. Þjóðvegum á Vestfjörðum, undir Hafnarfjalli og um Kjalarnes var lokað sem og Hvalfjarðargöngum og þá urðu rafmagnstruflanir víða um land.
Björgunarsveitir voru kallaðar út vegna óveðursins í Vestmannaeyjum, Hnífsdal, Hveragerði, Þorlákshöfn, Grímsnesi, á Ísafirði, Hellissandi, Holtavörðuheiði, Hvanneyri, Blönduósi, Seyðisfirði, Eyrarbakka og Hvolsvelli, auk þeirra sem voru að störfum á suðvesturhorninu. Samkvæmt upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg voru um 300 félagar björgunarsveita að störfum víða um land í gærkvöldi. Þá voru liðsmenn slökkviliða og lögreglu og starfsmenn sveitarfélaga við störf. Mest hafði þá verið að gera á höfuðborgarsvæðinu. Foktjón af ýmsu tagi varð: Tré rifnuðu upp með rótum, fjögur strætóskýli fuku, rúður brotnuðu, hurðir fuku upp og klæðning og þakplötur losnuðu af húsum. Þá urðu rafmagnstruflanir víða um landið. Samgöngur á landi fóru víða úr skorðum. Í gærkvöldi varaði lögreglan á Suðurnesjum við miklu hvassviðri á Reykjanesbraut og sagði litla flutningabíla eiga þar í miklum vandræðum. Þeir voru við það að takast á loft og gekk umferðin því mjög hægt. Mörgum áætlunarferðum á landi var frestað til morguns.
Slökkviliðið á höfuðborgarsvæðinu annaði engan veginn mikilli hrinu vatnsleka á starfssvæði sínu í gærkvöldi og höfðu um 40 slík útköll borist á aðeins örfáum klukkustundum Sjö dælubílar voru í notkun og fóru bæði í útköll í íbúðarhús og atvinnuhús, m.a. í Egilshöll þar sem mikill leki varð. Að sögn varðstjóra hjá SHS voru íbúðir við sjávarsíðuna nokkuð berskjaldaðar fyrir vatnsleka, ekki síst vegna hárrar sjávarstöðu, sem átti sér skýringar í því að sjór stöðvaði útfall frá íbúðum og flæddi því upp úr klósettum og niðurföllum.
Að sögn Víðis Reynissonar í Samhæfingarmiðstöð almannavarna hafði aðallega orðið vatnstjón á höfuðborgarsvæðinu en einnig talsvert foktjón bæði þar og á Suðurnesjum. Við fáum tilkynningar um kjallaraíbúðir þar sem komið er hnédjúpt vatn, sagði Víðir.
Enginn meiddist þegar rúta, sem í voru sextán liðsmenn 3. flokks karla í Knattspyrnufélagi Fjarðabyggðar, auk þjálfara og bílstjóra, fauk út af veginum um kl.14 í gær. Atvikið átti sér stað á Jökuldal við bæinn Hvanná, um 36 km frá Egilsstöðum. Lögregla og sjúkralið komu á staðinn og voru piltarnir sextán fluttir til skoðunar á Heilbrigðisstofnun Austurlands á Egilsstöðum. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Egilsstöðum var mikil hálka og hvass hliðarvindur þar sem óhappið varð.
Morgunblaðið segir af sama veðri 10.febrúar:
Dælubílar Slökkviliðs höfuðborgarsvæðisins (SHS) fóru í 51 útkall á föstudag og aðfaranótt laugardags. Útköllin voru langflest vegna leysingavatns sem flæddi inn í hús, að sögn aðstoðarvarðstjóra hjá SHS. Dagvaktin, sem var frá klukkan 7:30 til kl. 19:30 á föstudag, fór í 21 slíkt útkall og næturvaktin sem stóð til kl. 7:30 á laugardagsmorgun sinnti 30 útköllum dælubíla. Langstærstu verkefnin voru að dæla burt vatni sem flætt hafði inn í Egilshöll og Korpúlfsstaði. Samkvæmt upplýsingum Almannavarna höfðu myndast stíflur í frárennsliskerfi Egilshallar. Þar safnaðist mikið vatn sem flæddi inn í húsið. Slökkvilið og björgunarsveitir lögðu áherslu á að finna og losa stíflurnar, auk þess sem dælubílar voru notaðir við að koma vatninu úr húsinu. Slökkviliðið fór aftur í Egilshöll og á Korpúlfsstaði í gærmorgun til að kanna ástandið og sækja ýmsan búnað sem skilinn var eftir aðfaranótt laugardags.
Óveðrið olli engu meiri háttar tjóni á Akranesi en þar þurfti að hefta svolítið fok á nokkrum stöðum. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar þar fékk björgunarsveitin 22 útköll og lögreglan 16 útköll vegna óveðursins. Fólksbíll sem skilinn hafði verið eftir síðdegis á föstudag undir Hafnarfjalli fauk niður fyrir veg og valt á föstudagskvöld. Hann skemmdist nokkuð mikið, að sögn lögreglunnar í Borgarnesi. Að öðru leyti var nóttin róleg, enda fáir á ferli. Mjög hvasst var í Húnavatnssýslum fram eftir nóttu. Lítilsháttar foktjón varð á stóru verksmiðjuhúsi á Blönduósi þar sem járnplötur fuku af eldvarnarvegg. Lögreglan á Akureyri fékk fá út köll vegna óveðursins í fyrrinótt. Aðstoða þurfti fólk sem hafði farið útaf veginum á bíl undir miðnætti og var veðrið þá mjög vont, að sögn lögreglu. Á Húsavík var mjög hvasst og fuku vörubretti við höfnina hjá afgreiðslu Eimskips. Þau ollu talsverðu tjóni á tveimur flutningabílum sem stóðu þar. Þá flæddi vatn inn í geymslu í Hvalasafninu en þar tókst að koma í veg fyrir alvarlegt tjón. Í Vestmannaeyjum var mikið hvassviðri en aðeins lítils háttar foktjón á nokkrum stöðum. Björgunarfélag Vestmannaeyja sinnti útköllum fram eftir nóttu ásamt lögreglunni. Ekki varð þar [á Suðurnesjum] umtalsvert tjón vegna óveðursins að sögn lögreglunnar.
Morgunblaðið segir frá atviki á Keflavíkurflugvelli í pistli 11.febrúar - og heldur áfram að lýsa tjóni í veðrinu dagana áður, þar á meðal ágangi sjávar í Reykjavík:
BOEING-737 flugvél snerist fjórðung úr hring í snarpri vindhviðu þar sem hún stóð á stæði upp við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í fyrrakvöld [9]. Vélin er í eigu flugfélagsins JetX og var nýkomin frá Salzburg fyrir Primera Air um kl.18:45 er hún snerist, þegar aka átti landgöngubrú upp að henni en hálka hafði myndast á flugvélastæðinu. Samkvæmt vefsíðu Flugmálastjórnar á Keflavíkurflugvelli var óskað eftir aðstoð þar sem afgreiðsluaðili treysti sér ekki til þess að snúa vélinni aftur vegna vinds. Flugvallarþjónustudeild Keflavíkurflugvallar hreinsaði snjó og bar sand á flughlaðið svo að hægt væri að ná farþegum frá borði. Slökkvilið myndaði skjól með slökkvibifreiðum upp við vélina og farþegar voru leiddir inn í flugstöðina um farangursflokkunarsal á fyrstu hæð. Samkvæmt Flugmálastjórn gekk landgangan vel og voru allir 169 farþegarnir og 7 manna áhöfn komin frá borði um kl.20.
Um helmingur af þaki kaldavatnstanksins á Blönduósi fauk af í veðurofsanum á föstudagskvöldið. Að sögn er hér um nokkurra milljóna króna tjón að ræða. Vatnstankurinn stendur rétt við veðurmæli Vegagerðarinnar, skammt austan við Blönduós, en þar fór vindur í 43 metra á sekúndu í hviðum þannig að mikið hefur gengið á. Brakið af tankinum, sem er úr trefjaplasti, dreifðist um nágrennið en ekki er vitað til að það hafi valdið tjóni. Starfsmenn frá Krák á Blönduósi hófu viðgerð á þakinu á laugardagsmorgun því mikilvægt var að loka tankinum fyrir veðri og vindum. Viðgerðarmenn höfðu allan vara á við viðgerðina og höfðu björgunarhring til taks því vatnsdýptin er um 4 metrar. Ekki er vitað um annað meiri háttar tjón á Blönduósi í óveðrinu á föstudag.
Gífurlega mikil stífla myndaðist á mótum Eiðsgranda og Hringbrautar í gærmorgun [10.] eftir að sjór hafði gengið linnulaust yfir grjótgarðinn í fyrrinótt og bæði skemmt malbik á göngustíg og þeytt þara og grjóti út á miðjar götur. Hættuástand skapaðist á meðan lætin gengu yfir og voru starfsmenn Reykjavíkurborgar kallaðir út til að losa stífluna og moka burt þara og grjóti. Stórstraumsflóð var á laugardagskvöld og hafði það sitt að segja um hvernig fór, að ógleymdum hvössum vindinum. Loka þurfti Eiðsgranda og hringtorginu við JL húsið á meðan þriggja manna vinnuhópur tæmdi hnédjúpt lónið og tók verkið á fjórðu klukkustund. Borgarstarfsmenn voru í viðbragðsstöðu í gærkvöldi gagnvart frekari flóði. Grjótgarðurinn við Eiðsgranda hefur í áranna rás margoft fengið yfir sig holskeflur með óskemmtilegum afleiðingum en hann stenst ekki mikinn ágang og var því fyrir nokkrum misserum tekin ákvörðun um að hækka hann. Þari og grjót hafa margsinnis þeyst út á göngustíginn meðfram sjávarsíðunni og skemmt stíginn.
Morgunblaðið segir 12.febrúar fréttir af tryggingum og tjóni:
Tjón sem orðið hefur á eignum af völdum óveðurs frá því í desember í fyrra hleypur á mörgum hundruðum milljóna króna. Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá og Vátryggingafélagi Íslands (VÍS) munu bótagreiðslur vegna tjónanna væntanlega nema um 250 milljónum króna. Ef miðað er við að samanlögð markaðshlutdeild félaganna tveggja sé 70% má ætla að alls nemi bætur tryggingafélaga tæplega 360 milljónum. Þá er ótalinn annar kostnaður vegna ótíðarinnar, s.s. hjá opinberum aðilum sem oft eru ekki tryggðir fyrir tjónum af völdum óveðurs auk þess sem fjölmörg tjón hjá einstaklingum eru óbótaskyld. Samkvæmt upplýsingum frá Sjóvá mun félagið greiða um 100 milljónir í bætur vegna tjóna sem orðið hafa á þessu ári vegna veðurs. Bótagreiðslur VÍS verða væntanlega upp undir 150 milljónir vegna óveðurs í desember og fram í febrúar. Ekki verra frá því í febrúar 1991 Þetta er miklu verra en hefur verið undanfarna vetur. Svona mikið ofsaveðurstjón hefur eiginlega ekki orðið síðan 1991, segir Pétur Már Jónsson, forstöðumaður tjónaþjónustu VÍS. Tjón eftir hverja einstaka hrotu sé ekki jafnmikið og varð í fárviðrinu sem reið yfir 3. febrúar 1991 en þegar allt sé tekið saman gæti tjónið í vetur slagað upp í að vera meira en þá. Að sögn Auðar Daníelsdóttur, deildarstjóra tjónadeildar Sjóvár, var algengasta ástæðan fyrir tjónum í desember og janúar sú að hlutir fuku á vinnusvæðum, þakplötur sviptust af og lausir munir fóru á flug. Frá áramótum hafa alls verið skráð 60 tilfelli tjóns af völdum asahláku.
Nú tók við mildara veður í nokkra daga. Úrkoma var mjög mikil þann 18. og 19. þegar snörp skil voru við Vesturland og gengu síðar austur um. Þann 20. fór allkröpp lægð norðaustur yfir landið.
Morgunblaðið segir frá 18.febrúar:
Gífurlegt flóð varð við bæinn Kvíar í Þverárhlíð í Borgarfirði þegar Litla-Þverá ruddist í gær yfir bakka sína og lágu klakastykkin eftir á túnum og girðingar meira eða minna ónýtar. Fyrir fjórum til fimm vikum hafði myndast þykk klakastífla í ánni hér rétt fyrir neðan húsið. Með öllum þeim hlýindum og vætu sem hafa verið undanfarna daga hefur vaxið í ánni, en Litla-Þverá er bara lítil á, segir Gunnar Ingimundarson, sem var viðstaddur og náði myndum af flóðinu. Gunnar, sem stundar helgarbúskap í Kvíum, segir þannig hafa hlaðist upp mikið vatnsmagn sem ekki komst burt fyrir klakanum. Vatnið stoppaði á klakafyrirstöðu við bæinn og vegna hennar flæddi til beggja átta, bæði yfir nytjaland öðrum megin og hins vegar yfir heimatún. Flóðið hafi tekið með sér girðingar við túnið og ýmislegt fleira Erfitt sé þó að meta tjónið, hvort heldur er á girðingum og túnum eða á vegunum, að svo stöddu þar sem enn er allt á floti. Það hljóti þó að hlaupa á hundruðum þúsunda króna. Þetta er ekkert venjulegt og það þarf stórvirkar vinnuvélar til að koma og taka til hendinni. Sjálfur er Gunnar, sem búsettur er á höfuðborgarsvæðinu, nú fastur í Kvíum, en vonast til að heyra frá Vegagerðinni ekki síðar en á morgun. Þótt iðulega flæði eitthvað í ánni skilst Gunnari að svona hafi ekki átt sér stað í slíku magni í nokkra áratugi.
Skessuhorn segir af sama flóði 20.febrúar:
Aðfararnótt síðastliðins mánudags [18.] olli vatnsflaumur því að skarð myndaðist í hringveginn við Svignaskarð [Skarðslæk] og lokaðist vegurinn af þeim sökum. Lögreglan vaktaði svæðið og var umferð beint um Borgarfjarðarbraut, um Kleppjárnsreyki og inn á hringveginn aftur við Bauluna á meðan. Engin óhöpp urðu af þessum völdum. Viðgerð hófst um morguninn og upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir að henni lyki um kvöldið. Skemmdirnar reyndust þó það miklar að ekki var unnt að ljúka viðgerð fyrr en í gærkvöldi. Í vatnavöxtunum flæddu fleiri ár yfir bakka sína og skemmdu vegi, meðal annars við Hvítárvelli. Þá flæddi Litla-Þverá í Þverárhlíð yfir bakka sína við bæinn Kvía og olli talsverðum skemmdum á girðingum. Strax á mánudagskvöld kom í ljós að vegurinn sem umferðinni var beint um meðan Svignaskarðið lokaðist þoldi engan veginn þessa miklu og þungu umferð sem um hann fór. Vegkantar fóru að gefa sig m.a. í Litla-Kroppsflóa og við Hamra í Reykholtsdal þar sem malbik gaf sig og skvompur komu í veginn. Bjarni Johansen, þjónustustjóri hjá Vegagerðinni sagði í samtali við Skessuhorn í gær að ljóst væri að tjón á Borgarfjarðarbraut væri nokkuð. Vegirnir eru gegnblautir eftir miklar leysingar og þola illa þá þungaflutninga sem um þá fara. Borgarfjarðarbrautin er þar að auki mjór vegur sem til stendur að breikka og bæta og til þess hefur nú fengist fjárveiting. Engu að síður hefur orðið tjón á veginum vegna þessarar skyndilegu viðbótarumferð sem um hann fór, sagði Bjarni. mm
Morgunblaðið segir frá sama atviki og fleiru 19.febrúar:
Skarð myndaðist í þjóðveg 1 við Svignaskarð í Borgarfirði í fyrrinótt og lokaðist vegurinn af þeim sökum. Umferð var beint um Borgarfjarðarbraut á meðan. Viðgerð hófst strax í gærmorgun en ekki tókst að ljúka henni í gær. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar grófst vegurinn í sundur við ræsi nálægt Daníelslundi. Ræsið var talið hafa stíflast af klaka og safnaðist mikið leysingavatn norðan við veginn og flæddi alveg upp að fjögurra metra hárri vegarbrúninni. Um 200 til 300 m3 af fyllingarefni runnu úr veginum og myndaðist nærri tveggja metra djúp geil í veginn. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar í Borgarnesi átti að setja stærra ræsi í stað þess sem stíflaðist og fylla aftur í vegarstæðið. Tjónið var talið hlaupa á nokkrum milljónum króna. Víðar um Borgarfjarðarhérað urðu vatnavextir en flestar ár höfðu rutt sig með miklum látum. Þannig stíflaðist brúin á Litlafljótinu neðan við Fljótstungu vegna íss og fór að flæða þar yfir veginn. Þá hækkaði mikið í Hvítá og fór að renna yfir tún og engjar við Hvítárvelli.
Eysteinn Bergþórsson, bóndi á Högnastöðum, fór að bænum Kvíum í Þverárhlíð í gær til að ryðja íshröngli af heimreiðinni. Litla-Þverá ruddi sig með miklum látum á sunnudaginn var og fóru klakastykkin yfir tún og veg og eyðilögðu girðingar. Einnig hafði flætt yfir túnin á Högnastöðum en Eysteinn gerði lítið úr því, sagði það alvanalegt og það hefði oft verið verra en þetta. Jakarnir bera með sér grjót sem verður eftir á túnunum. Eysteinn sagðist vera vanur því. Hann sagði að allt væri farið að sjatna eftir flóðið á sunnudag. Hann taldi þetta hlaup lítið miðað við þau sem gætu orðið og hefðu orðið í gegnum tíðina. Þorsteinn Eggertsson, bóndi í Kvíum II, sagði í gær að áin væri að sjatna og farin að renna í farvegi sínum. Hann sagði hlaupið einkum hafa valdið skemmdum á girðingum. Hann sagði að það yrði ekki vitað fyrr en færi að vora hvort túnin hefðu beðið varanlegan skaða. Íshrönnin gæti enst fram eftir vetri. Þorsteinn sagði að síðast hefði áin farið svona líklega árið 1968. Það sem gerðist var að Litla-Þverá ruddi sig að hluta á milli jóla og nýárs og stíflaðist rétt við bæinn. Sú stífla er búin að frjósa vel saman. Á sunnudag kom flóð í ána í tveimur gusum. Sú fyrri stoppaði í gömlu stíflunni en sú seinni æddi yfir allt þar til gamla stíflan brast.
Mars var ívið kaldari og snjóasamari en marsmánuðir síðustu ára. Snarpt en skammvinnt norðanskot gerði á skírdag (þann 20.) en að öðru leyti var veður meinlítið lengst af.
Þann 1. og 2. mars gekk sérkennileg, köld lægð til austurs fyrir sunnan land. Mjór úrkomubakki lá meðfram suðurströndinni meðan lægðin fór framhjá. Óvenjumikið snjóaði í Vestmannaeyjum, talið minna á snjókomuna miklu í mars 1968 (en um hana má lesa nokkuð ítarlega í pistli hungurdiska um það ár). Alla nóttina var blindhríð á Stórhöfða og skyggni innan við 100 metrar. Svipað var á Vatnsskarðshólum.
Kortið sýnir lægðakerfið að morgni þess 2, en upp úr því fór að draga úr snjókomunni. Kuldapollur, með lægð í miðju er við Hvarf og fer austur. Ívið hlýrra loft barst úr austri meðfram suðurströndinni og varð þar að hægfara snjókomubakka. Morgunblaðið segir frá 3.mars:
Stórhríð gekk yfir Vestmannaeyjar í fyrrinótt og í gær [2.] og hefur ekki verið meiri snjór í Eyjum í áratugi. Flestar götur voru ófærar og var fólki ráðlagt að halda sig heima við. Lögregla og Björgunarfélag Vestmannaeyja höfðu í nógu að snúast við að koma fólki úr og í vinnu og í Herjólf. Tíðindum sætir að dæmi voru um að fólk sem ætlaði með Herjólfi komst hvergi því ekki var hægt að koma bílunum um borð. Undantekning var að sjá bíla á ferðinni og þeir sem hættu sér út óðu snjóinn í geirvörtur þar sem ófærðin var mest. Ekki var lögreglu kunnugt um slys á fólki en bíll lenti út af í ófærðinni án þess að nokkur meiddist.
Þetta er mesti snjór sem ég man eftir frá því ég byrjaði í lögreglunni fyrir 25 árum, sagði Jóhannes Ólafsson, yfirlögregluþjónn í Vestmannaeyjum, þegar Morgunblaðið ræddi við hann í gær. Þá var hann nýkominn til vinnu. Þeir sem lengst muna segja að ekki hafi jafnmikill snjór komið hér síðan í lok mars 1968, eða fyrir sléttum 40 árum. Þá féll hér einhver mesti snjór sem menn muna eftir, bætti hann við. Ég þurfti aðstoð Björgunarfélagsins til að komast til vinnu og tók ferðin um 40 mínútur, sagði Jóhannes, sem býr í um kílómetra fjarlægð frá lögreglustöðinni. Stendur hún við Faxastíg og er neðarlega í bænum. Þetta er ótrúlega mikill snjór og skaflar sem eru vel á fjórða metra. Björgunarfélagið og við höfum verið að aðstoða fólk við að komast í og úr vinnu enda ekki fært nema fyrir öflugustu bíla að fara um bæinn. Höfum við ráðlagt fólki að vera ekki á ferðinni. Ljóst að ekki komast allir með Herjólfi sem ætluðu sér að fara í dag. Þeir komast einfaldlega ekki um borð með bíla sína. Okkur er ekki kunnugt um slys en einn bíll fór út af klukkan átta í morgun án þess að nokkur meiddist. Guðmundur Þ.B. Ólafsson, forstöðumaður Þjónustumiðstöðvar Vestmannaeyjabæjar, sagði að öll tiltæk snjóruðningstæki hefðu verið kölluð út í gærmorgun en fljótlega hefði verið hætt. Við höfðum hreinlega ekki undan og fennti jafnóðum í slóðina. Við höfum reynt að halda Strandveginum opnum þannig að hægt sé að koma loðnu milli húsa. Nú bíðum við bara eftir að það stytti upp og lægi. Fyrr er ekkert hægt að gera, sagði Guðmundur. Guðjón Sigtryggson hjá Björgunarfélaginu sagði að þeir hefðu verið kallaðir út um klukkan þrjú í fyrrinótt og fyrsta verkefnið var að koma fólki heim af skemmtistöðum. Við erum tíu og með tvo bíla. Þetta hefur gengið vel fyrir sig og núna erum við að skutla fólki um borð í Herjólf sem fer klukkan fjögur. Við vitum dæmi þess að fólk hefur ekki komist heiman að frá sér. Fréttum við af einum sem braust í gegnum snjóinn til að koma mat heim til vinar síns, sagði Guðjón að lokum. Enn gekk á með éljum í Vestmannaeyjum síðdegis í gær. Ekki er útlit fyrir að snjórinn fari alveg á næstunni þó spáð sé þíðu á miðvikudaginn. Á morgun er spáð áframhaldandi frosti og á miðvikudaginn er gert ráð fyrir meiri snjókomu.
Vonska var frá Jökulsá á Sólheimasandi austur að Mýrdalssandi í gær og var Suðurlandsvegi lokað frá Vík vestur að Skógum vegna veðurs auk þess sem ekkert ferðaveður var frá Eyjafjöllum austur að Kirkjubæjarklaustri. Margir ökumenn virtu lokunina að vettugi og höfðu björgunarmenn og lögregla nóg að gera við að koma fólki í öruggt skjól. Bryndís F. Harðardóttir, formaður svæðisstjórnar Landsbjargar á svæði 16, sem er í umdæmi lögreglunnar á Hvolsvelli, segir að gengið hafi á með miklu hvassviðri og ofankomu. Lögregla og björgunarsveitarmenn hafi verið á fimm bílum, þremur frá Hvolsvelli og tveimur frá Vík, við að bjarga fólki og koma því til byggða. Umferð hafi verið mikil og fólk hafi ekki látið sér segjast fyrr en lögreglan hafi komið sér fyrir á veginum og sagt hingað og ekki lengra. Enginn hafi samt verið hætt kominn, en ekkert hafi þýtt að ryðja því fannfergið hafi verið það mikið. Einhverja bíla hafi þurft að skilja eftir en reynt hafi verið að draga sem flesta til byggða. Að sögn Bryndísar var allt kolófært í Vík enda þorpið á kafi í snjó. Veðrið hefur verið alveg glórulaust. Ég hef oft verið í byl en sjaldan séð það jafn svart. Maður sá ekki húddið á bílnum. það var bara veggur. Hún bætir við að í stuttu máli sagt hafi ekki verið neitt ferðaveður og fólk ætti að taka mark á því.
Á árinu var nokkuð fjallað um merkilega jarðskjálftahrinu við Upptyppinga. Fréttin sem hér fylgir er ein af mörgum. Morgunblaðið 4.mars (einnig segir af tíðarfari í Meðallandi):
Jarðskjálftahrinan sem hófst á sunnudag [2.] austnorðaustur af Upptyppingum sýnir að jarðskjálftavirkni sem hófst á þessum slóðum fyrir um ári er í fullum gangi og sennilega frekar að aukast en hitt, að mati Páls Einarssonar, jarðeðlisfræðings við Háskóla Íslands. Páll sagði að virknin hefði smám saman færst austar og væri nú undir Álftadalsdyngju, um 8 km ANA af Upptyppingum. Þá hafa upptök jarðskjálftanna færst ofar í jarðskorpunni. Virknin byrjaði á 15-20 km dýpi undir Upptyppingum en meginþungi jarðskjálftanna nú hefur átt upptök á 12-14 km dýpi. Páll sagði ekki hægt segja fyrir hvert framhaldið yrði. Næsta víst þykir að þessir skjálftar stafi af kvikuhreyfingum í neðri hluta jarðskorpunnar. Leiti hún upp á yfirborðið verður eldgos, en hins vegar er vitað að mikill hluti af jarðskorpunni verður til úr kviku sem ekki nær til yfirborðs. Taldi Páll um helmingslíkur á því að þessi atburðarás nú leiddi til eldgoss. Það gæti þá orðið svonefnt dyngjugos sem ekki hefði orðið hér á landi frá því skömmu eftir síðustu ísöld.
Hnausar í Meðallandi. Þessi vetur hefur verið nokkuð illviðrasamur og þetta er fyrsti slæmi veturinn síðan aldamótaveturinn að það hafa ekki verið miklir snjóar. En það hafa verið vond veður og frost komst niður undir 20 gráður.
Veður batnaði nú og þurrkar og sólskin tóku við um landið sunnan- og vestanvert. Tíð þótti einnig hagstæð í öðrum landshlutum. Aprílmánuður var lengst af hagstæður. Hann var fremur úrkomulítill og vindáttin var yfirleitt austan- eða norðaustanstæð. Hlýtt og góðviðrasamt var í maí, mjög ólíkt því sem verið hefur á undanförnum árum. Vorkoman varð óvenjusnögg að þessu sinni.
Í apríl, maí og júní birti fréttablaðið Skessuhorn allmargar fréttir af sinubrunum við rennum lauslega yfir þær. Fyrsta fréttin var 23.apríl:
Slökkviliðið í Búðardal var kallað út vegna mikils sinubruna sem kviknaði hafði hjá bænum Krossi á Skarðsströnd í liðinni viku. Þar var mikill eldsmatur, en ekki hefur verið beitt á landið í tugi ára. Slökkviliðinu tókst þó að slökkva eldinn og lauk störfum rétt um miðnætti. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu voru engin hús í hættu. Þó var á tímabili óttast um mikla trjárækt sem er í næsta nágrenni. Þónokkuð svæði brann í gær þótt betur hafi farið en á horfðist um tíma. Miklir sinubrunar hafa einnig verið víða í Borgarfirði undanfarna daga og hefur oft stigið upp reykjarmökkur af nokkrum stöðum samtímis. Í fæstum tilfellum hefur þó orðið að kalla slökkvilið til aðstoðar við að slökkva eldana, enda ekki verið hætta á ferðum.
[30.apríl] Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út tuttugu mínútum fyrir ellefu í gærmorgun vegna sinuelds rétt við skógræktina Garðalund, Þjóðbrautarmegin. Eldurinn var á mjög afmörkuðu svæði á rima meðfram þjóðveginum og tók skamma stund að ráða niðurlögum hans. Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri segir heppilegt að sinueldurinn hafi ekki náð að komast yfir skurð þarna meðfram og í skógræktina sjálfa þar sem enn meiri eldsmatur er til staðar. Sina meðfram vegum er nú skraufþurr í þurrkatíð. Talið er að eldsupptök hafi verið vindlingsstubbur sem hent hafi verið út um bílglugga. þá
[25.júní] Glóð úr vindilsstubbi varð til þess að eldur kviknaði í gróðri við gönguleið upp að Glymi í Botnsdal síðdegis á þjóðhátíðardaginn. Slökkvilið Akraness og Hvalfjarðarsveitar var kallað út rétt fyrir klukkan fimm og fóru tíu slökkviliðsmenn á staðinn. Þeir þurftu að ganga með allan búnað nokkurra kílómetra leið upp bratta hlíðina en þar logaði í mosa og öðrum gróðri. Þráinn Ólafsson slökkviliðsstjóri segir að eina sem dugað hafi á eldinn hafi verið skóflur og klöppur. Það gekk nokkuð vel að slökkva þrátt fyrir erfiðar aðstæður.
Lítil sem engin úrkoma hefur verið í uppsveitum Borgarfjarðar það sem af er mánuðinum. Jafnvel eru dæmi um að áburður, sem dreift var á tún í efstu sveitum héraðsins í maí, sé enn óuppleystur. Þá er verulega farið að minnka í vatnsbólum og er þegar farið að gæta neysluvatnsskorts á bæjum, eins og t.d. í Reykholti. Samhliða hlýju veðri og miklum norðan blæstri undanfarna daga er jörð því orðin afar þurr. Meðfylgjandi mynd [ekki sýnd hér] sýnir eina afleiðingu þurrkanna. Myndin var tekin á melnum vestan við Kleppjárnsreyki sl. miðvikudag og horft til austurs inn dalinn. Mikið sandrok barst þá yfir hálsinn innan við Reykholt þannig að ekki sást til sólar. Þessi mökkur á upptök sín á Refsstöðum í Hálsasveit. Þar voru melar unnir í stórum stíl í vor og í þá sáð. Sökum hvassviðrisins er jarðvegur nú að fjúka úr opnum flögum á sendnu landi Refsstaðamelanna sem nú eru á hraðferð yfir í næstu sveit, ef marka má þessa mynd. mm/Ljósm. kg. [Ritstjóri hungurdiska furðaði sig einnig á þessu moldroki á þessum slóðum þegar hann átti leið um þessa sömu daga].
[2.júlí] Eldur kviknaði í mó á Akranesi í gær, þriðjudag. Var slökkviliðið kallað til, enda erfitt að eiga við slíkan eld. Það er svo ofsalega þurrt að það þarf ekkert til að kveikja bál, sagði slökkviliðsstjórinn á Akranesi, Þráinn Ólafsson í samtali við Skessuhorn. hög
Í Skessuhorni 2. júlí segir einnig frá atviki við Hvanneyri, þegar elding kveikti sinueld. Þetta mun vera óvenjulegt hér á landi, en erlendis eru slíkir viðburðir algeng orsök mikilla skógarelda:
Það er ekki á hverjum degi sem eldingu lýstur niður í Borgarfirði, enda náttúrufyrirbrigðið fremur sjaldgæft á svæðinu. Á þriðjudag í liðinni viku átti þetta sér þó stað um kvöldmatarleytið þegar eldingu laust niður í Prestsengið neðan við Báreksstaði rétt innan við Hvanneyri. Þar sem einmuna þurrkatíð hefur verið undanfarið blossaði upp eldur í sinu vegna leiftursins. Þó vildi til að þrumuveðrinu fylgdi mikil hitaskúr sem slökkti eldinn fljótlega eftir að hans varð vart. Slökkviliðsmenn Borgarbyggðar komu á staðinn fljótlega eftir að eldurinn kviknaði og voru tilbúnir að slökkva hann ef regnið sæi ekki um það. ... Þeir stikuðu blettinn sinubrunna og áætluðu að hann hefði verið um 400 fermetrar. hög
Þann 29.maí varð feykilega harður jarðskjálfti í Ölfusi og olli hann gríðarlegu tjóni. Hér er aðeins gripið niður í miklu lengri og ítarlegri fréttir af skjálftum, rétt til að minna á atburðinn - innan um allar veðurfregnirnar.
Morgunblaðið segir frá 30.maí:
Ekkert manntjón varð en mikið eignatjón í jarðhræringum sem áttu upptök sín undir Ingólfsfjalli vestanverðu og þar vestur af kl. 15:46 í gær. Talið er að samliggjandi skjálftarnir hafi verið allt að 6,3 á Richterkvarða. Margir eftirskjálftar fylgdu og færðist virknin í vesturátt. Þetta voru einhverjar ógurlegustu hamfarir sem ég hef upplifað, sagði Guðjón Kristinsson í Árbæ í Ölfusi. Hann sagði að skjálftinn hefði verið eins og metrahá alda sem gekk í bylgju eftir jörðinni. Ingólfsfjall hvarf í rykmekki og hávaðinn var ógurlegur. Alls slösuðust 28 í jarðskjálftunum, þar af 21 með minniháttar meiðsl. Sjö leituðu aðstoðar á slysadeild og fjöldi fólks leitaði í fjöldahjálparstöðvar Rauða krossins. Mikið tjón varð á innbúi víða og á húsum. Útihús hrundu og þurfti m.a. að lóga fé á Krossi í Ölfusi af þeim sökum. Nokkrar skemmdir urðu á Ölfusárbrú og Óseyrarbrú og einnig á vegum. Þær skemmdir ollu ekki verulegum samgöngutöfum. Samhæfingarstöð Almannavarna var virkjuð og lýst hæsta viðbúnaðarstigi á Selfossi og í Hveragerði. Á fjórða hundrað björgunarmanna auk lögreglu og slökkviliðs var við störf. Settar voru upp fjöldahjálparstöðvar í Hveragerði, Selfossi, Þorlákshöfn og Hellu. Þá var slegið upp tjöldum í Þorlákshöfn, Eyrarbakka, Stokkseyri og Hveragerði þar sem aðstoð var í boði. Í jarðskjálftanum myndaðist nýr leirhver rétt norður af Garðyrkjuskólanum í Hveragerði. Gosið í leirhvernum fór vaxandi í gær og urðu gosin allt að 10-12 metrar að hæð.
Mælingar Icearray netsins í Hveragerði sýndu að lárétt yfirborðshröðun af völdum jarðskjálftans í gær fór allt því upp í 60% af þyngdarhröðun jarðar og lóðrétt yfirborðshröðun var um 4050%. Í jarðskjálftaverkfræði er miðað við að þegar lárétt yfirborðshröðun nær 25% af þyngdarhröðun jarðar fari að sjást sprungur í húsum. Það er alveg ljóst að þegar hröðun yfirborðsins verður þetta mikil, 5060%, má búast við umtalsverðum skemmdum á mannvirkjum. Hversu miklum er erfitt að segja. Það fer eftir gerð bygginga, styrkleika þeirra og staðbundnum aðstæðum, sagði dr. Benedikt Halldórsson jarðskjálftaverkfræðingur og verkefnisstjóri hjá Rannsóknarmiðstöð Háskóla Íslands í jarðskjálftaverkfræði á Selfossi. Hann sagði að í ljósi þess hve Hveragerði og Selfoss liggja nálægt upptakasvæði skjálftans komi ekki á óvart að áhrifin hafi verið þessi, miðað við stærð skjálftans.
Jarðskjálftinn í gær olli ekki einungis titringi á jörðu niðri heldur skiluðu bylgjurnar frá skjálftanum sér hátt í loft upp eins og tveir menn sem voru á svifvængjum í um 500 metra hæð við vesturhlíð Ingólfsfjalls þegar skjálftinn reið yfir fengu að kynnast. Ekki var nóg með að bylgjurnar fyndust í loftinu heldur jókst einnig vindur strax í kjölfar skjálftans. Hans Kristján Guðmundsson varð fyrst var við titring í loftinu sem hann segir ólíkan nokkru sem hann hafi áður upplifað. Það var ekki fyrr en honum varð litið niður og sá stóreflis björg falla úr hlíðinni sem hann áttaði sig á því að meiriháttar jarðskjálfti hafði riðið yfir. Ég skildi ekki hvað var að gerast, hann hristist og titraði og nötraði vængurinn. Síðan sé ég að hlíðin fyrir neðan mig er að hrynja og þá reif ég upp myndavélina og smellti af myndum, segir Hans Kristján. Loftbylgjurnar sem mynduðu þennan titring voru mjög tíðar og Hans Kristján kveðst nánast hafa getað talið slögin í skjálftanum. Þetta byrjaði rólega en svo byrjaði vængurinn að titra ótt og títt, segir hann. Sá sem flýgur svifvæng hangir í línum sem eru tengdar við vænginn og því finnur hann betur fyrir loftstraumum, að sögn Hans Kristjáns. Flugmenn á flugvélum hefðu því ekki fundið eins mikið fyrir skjálftanum enda ekki eins beintengdir við náttúruöflin.
Morgunblaðið heldur áfram að segja frá skjálftunum í fréttum 2.júní:
Heldur hefur dregið úr eftirskjálftum í Ölfusi og nágrenni og í gær virtist virknin fara hægt dvínandi, að sögn Steinunnar S. Jakobsdóttur, sviðsstjóra eðlisfræðisviðs Veðurstofu Íslands. Komið hafa litlar hrinur inn á milli með jarðskjálftum um tvö stig og mest uppundir þrjú stig. Nú þykir nær fullvíst að atburðarásin s.l. fimmtudag hafi byrjað með jarðskjálfta undir Ingólfsfjalli um kl.15:45. Samkvæmt korti Veðurstofunnar voru upptök hans fremur grunnt eða á um 12 km dýpi. Ekki er hægt að fullyrða um stærð þess skjálfta en Steinunn taldi ekki ósennilegt að hann hefði verið af stærðargráðunni fimm á Richter eða þar um bil. Af verksummerkjum að dæma hefði greinilega verið þó nokkuð mikil hreyfing undir Ingólfsfjalli. Nánast samtímis, aðeins sekúndubrotum eða fáeinum sekúndum síðar, brast á stóri jarðskjálftinn upp á 6,3 á Richter. Upptök hans voru nokkrum kílómetrum vestar og nær Hveragerði. Steinunn sagði ekki vitað hvort S-bylgjur frá jarðskjálftanum undir Ingólfsfjalli hefðu hleypt þeim stóra af stað. Áætlað er að brotalengd meginjarðskjálftans, sem var 6,3 á Richter, sé 14 kílómetrar. Af korti Veðurstofunnar að dæma náðu jarðhræringarnar mun dýpra á misgenginu þar sem stóri skjálftinn varð en þar sem upphafsskjálftinn varð undir Ingólfsfjalli. Steinunn sagði að eftir fljótlega athugun sýndist sér að tilfærslan á upptakastað skjálftans niðri í jarðskorpunni, þar sem mesta færslan varð, hefði verið um hálfur metri.
Norðaustlæg átt var ríkjandi í júní og veðurlag eftir því. Hlýtt var um sunnan- og vestanvert landið. Mjög þurrt var vestanlands og einnig víða um sunnanvert landið og vatnsskortur sums staðar til ama. Óvenjusólríkt var sunnanlands.
Mjög hlýtt var í júlí, sérstaklega síðustu 10 dagana, og voru þá hitamet slegin víða um land. Góðviðrasamt var í mánuðinum að undanteknu óvenjusnörpu illviðri um landið sunnanvert þann 1.
Þann 1. júlí nálgaðist lægð úr suðri. Lægðin var djúp miðað við árstíma og þegar skil hennar nálguðust hvessti af norðaustri og síðar austri um landið sunnanvert.
Kortið sýnir stöðuna kl.18. Þá eru skilin að nálgast úr suðaustri og farið að hvessa. Óvenjuhvasst varð í þessari stöðu - og það af norðaustri þar sem hvassast varð. Langmest óþægindi urðu á Hellu á Rangárvöllum þar sem landsmót hestamanna var að hefjast. Verst varð verðrið um kl.21 þegar vindhraði komst í 23,3 m/s og hviður á í 29,3 m/s. Stormur var um stóran hluta Suðurlands, á hálendinu sunnanverðu og á stöku stað vestanlands. Vindhviða mældist 56,9 m/s á Steinum undir Eyjafjöllum. Trúum við þeirri mælingu er þetta mesta hviða sem mælst hefur á landinu í júlímánuði. Það hefur verið eitthvað sérstakt við þetta veður og mætti e.t.v. athuga það nánar.
Morgunblaðið segir frá 2.júlí:
Snarpar vindhviður voru á Landsmóti hestamanna á Hellu í gærkvöldi með þeim afleiðingum að fresta varð kynbótasýningum til morguns og tjöld losnuðu og fuku. Björgunarlið var ræst út til að aðstoða tjaldbúa og fólk í tjaldvögnum auk þess sem hópur flutningabílstjóra myndaði skjólveggi með bílum sínum. Veðurstofan sendi út viðvörun og sagði að búast mætti við stormi á Suðausturlandi og á miðhálendinu en síðan myndi lægja með kvöldinu og upp úr miðnætti. Það gekk eftir. Mjög hvassar hviður voru sunnan við Vatnajökul og við Sandfell í Öræfum fóru hviðurnar yfir 40 m/s. Að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli fóru hviðurnar á Hellu í 22-24 m/s. Lögreglan segir að björgunarsveitir frá Hellu, Hvolsvelli og Selfossi hafi aðstoðað við að fella tjöld og koma þannig í veg fyrir tjón. Sumir hafi pakkað saman og farið en aðrir komið sér fyrir eftir að lægði á ný. Hins vegar hafi ekki borist neinar upplýsingar um tjón vegna veðursins.
Fréttablaðið segir frá því sama 2.júlí:
Landsmót Veðrið er svakalegt. Hér er allt gjörsamlega á tjá og tundri, segir Daníel Ben Þorgeirsson, ritstjóri hestafrétta. Það er töluvert af fólki að yfirgefa svæðið enda varla stætt fyrir vindi. Ég hef farið á landsmót í fjórtán ár og aldrei kynnst öðru eins. Það sést varla á milli tjalda fyrir sandi og moldarroki. Stóra veitingatjaldið á svæðinu, sem er fjögur til fimm þúsund fermetrar var í stórhættu en slapp eins og reyndar öll sölutjöldin. Hópurinn er samheldinn og allir lögðust á eitt við að bjarga þessu. Daníel segir það vekja undrun sína að mótshaldarar skuli ekki hafa stöðvað keppnishald. Það er verið að keyra knapana áfram í óveðri á rándýrum hestum fyrir framan tómar stúkur. Þetta finnst mér vera til skammar. Árni Kristjánsson hjá Flugbjörgunarsveitinni Hellu tók í sama streng. Þetta var náttúrlega skelfilegt ástand um tíma. Við fórum í að reyna að bjarga tjöldum en þau fuku hægri vinstri og rifnuðu. Þarna voru tjaldvagnar sem höfðu rifnað í tvennt. Hann segir björgunarsveitirnar hafa verið fljótar á staðinn þegar veður tók að versna. Spáð var stormi á hálendinu og suðaustan til fram eftir nóttu í gær. - ges
Skessuhorn sagði 30.júlí frá heyskap á Vesturlandi:
Núna þegar komið er mitt sumar og á gamla dagatalinu er skráð að heyannir byrji, er ekki að fregna annað en heyskapur gangi vel á Vesturlandi, enda byrjaði hann víðast hvar hálfum mánuði fyrr en í meðalári. Fyrri sláttur er yfirleitt langt kominn eða búinn og sums staðar byrjað að slá hána. Þrátt fyrir góða sprettu framan af virðast langvarandi þurrkar og ónóg túnrekja vera annað árið í röð að stríða bændum víða um Vesturland, en samt lítur mun betur út með heyöflun en á síðasta sumri þegar uppskerubrestur varð vegna þurrka, einkum í seinni slætti.
Síðustu daga júlímánaðar og um mánaðamótin gerði óvenjulega hitabylgju. Áköfust var hún um landið suðvestanvert og hitamet féllu á fjölmörgum stöðvum og standa mörg þeirra enn (2025).
Kortið sýnir stöðuna þann 30. Mjög hlý austanátt berst vestur og norður yfir landið, trúlega er þar líka lítilsháttar niðurstreymi. Þykktin hefur áður verið meiri en er þó hér við 5600 metra en vindurinn sér til þess að halda sjávarlofti frá Suður- og Vesturlandi.
Alskýjað var við Húnaflóa og hiti talsvert lægri þar en annars staðar. Fleiri svöl svæði eru á útnesjum í öðrum landshlutum.
Eins og áður sagði standa enn allmörg hitamet, þau voru flest sett þennan hlýjasta dag syrpunnar, þann 30. Meðal annars mældist hiti á Þingvöllum 29,7 stig. Það er hæsti hiti sem mælst hefur á staðlaðri sjálfvirkri stöð hér á landi frá upphafi slíkra mælinga. Ný met voru einnig sett í Reykjavík sama dag þegar hitinn á mönnuðu stöðinni fór í 25,7 stig og 26,4 stig á þeirri sjálfvirku. Hvoru tveggja er hærri hiti en mest hefur mælst áður og síðan. Mönnuð stöð hefur verið í Reykjavík samfellt frá 1870, en hámarksmælingar eru ekki til frá öllum þeim tíma. Líklegt er þó að nýja talan sé hærri en annars hefur orðið á öllu þessu tímabili.
Línuritið sýnir hámarkshita hverrar klukkustundar í Reykjavík frá 27.júlí til 3.ágúst. Hiti fór yfir 20 stig þrjá daga og vantaði lítið upp á það þann fjórða (27.júlí).
Hámarksmetið á hámarksmælinum við aflestur þ.30.júlí 2008 kl.18. 25,7°C. Myndina tók Þórður Arason. Met sem sett voru í þessari syrpu standa enn á tæplega 50 veðurstöðvum á landinu, þar á meðal í Hjarðarlandi þar sem hitinn komst í 28,8 stig og á Skrauthólum á Kjalarnesi þar sem hann fór í 28,4 stig. Mun það vera hæsti hiti sem mælst hefur á Höfuðborgarsvæðinu.
Morgunblaðið sagði frá hitanum í pistli 31.júlí:
Hvert hitametið á fætur öðru var slegið á landinu í gær. Hitinn mældist mestur á Þingvöllum en ekki bar á öðru en fólk hvarvetna á landinu kynni vel að meta þessi óvenjumiklu hlýindi. Ströndin í Nauthólsvík og flestar sundlaugarnar voru þétt setnar. Fólk spókaði sig jafnt á grænum svæðum sem í miðbæjum og ruku köldu svaladrykkirnir og íspinnarnir út. Útiborð kaffihúsanna voru þétt setin sem og nálægir grasbalar þar sem fólk mætti með sínar eigin veitingar. Hvert sem litið var mátti sjá fólk í sínum sumarlegustu fötum, með sólgleraugu og bros á vör enda ekki nógu oft sem landsmenn fá að upplifa daga sem þennan.
Veðrátta í ágúst var hagstæð um land allt. Nokkuð hvasst var þó þann 29. Hlýtt var í september. Mjög úrkomusamt var um allt sunnan- og vestanvert landið og var um metúrkomu að ræða á fáeinum stöðvum, en mjög mikil úrkoma var einnig í september 2007. Aldrei hefur jafnmikil úrkoma mælst í september í Stykkishólmi frá því að úrkomumælingar hófust þar haustið 1856. Úrkoman varð áköfust 16. til 17., en þá gerði einnig skammvinnt hvassviðri.
Þann 29. ágúst kom lægð (í dýpra lagi miðað við árstíma) upp að landinu suðvestanverðu. Lentu tvö skip í vandræðum í vindi í Hvalfirði. Annað skipið rakst á bryggju á Grundartanga. Hitt skipið var í hlutverki hvalveiðibáts í kvikmynd og lá við að strandaði við Hvammsvík (Morgunblaðið 30.ágúst). Þá losnaði af húsi í Grafarholti og þak losnaði af húsi í Vogahverfi í Reykjavík, lausamunir fuku. Gámur fauk við Klébergsskóla á Kjalarnesi. Bílar skemmdust af áfoki í Bolungarvík.
Þann 16.september gerði nokkuð sérkennilegt veður, gríðarlegt úrfelli sem tengja mátti leifum fellibylsins Ike. Meginúrkoman virðist þó hafa borist úr kerfi sem var alveg austan leifanna, en barst til landsins samhliða eða alveg í kjölfarið. Um þetta ritaði ritstjóri hungurdiska pistil á vef Veðurstofunnar strax eftir að veðrið var liðið hjá. Verða þau skrif ekki endurtekin hér, en þó má geta þess að úrkoma mældist meiri en 140 mm á fimm veðurstöðvum (Ölkelduhálsi (201 mm), Ólafsvík (165 mm), Bláfjöllum (161 mm), Andakílsárvirkjun (155 mm) (mönnuð stöð) og Grundarfirði (144 mm)). Í áðurnefndum pistli segir: Þetta úrkomumagn er ekki met á neinni stöðinni en hvergi vantar þó mikið upp á það. Athyglisverðast er að þriðjungur úrkomunnar virðist hafa fallið á um eða innan við 3 klst., seint um kvöldið 16. september og þá var úrkomuákefðin á stöðvunum milli 15 og 20 mm á klukkustund. Það er ekki fjarri því mesta sem búast má við hér á landi í fjallastuddu uppstreymi í miklu hvassviðri. Stöðvarnar í Ólafsvík, Andakílsárvirkjun og Grundarfirði eru allar handan þeirra fjallshryggja sem valda uppstreyminu og Bláfjallastöðin líka, þó nær sé hún háhryggnum. Þessi hegðan úrkomuhámarks er kennd við fokhrif, úrkoman fýkur langa leið frá því að hún myndast þar til hún fellur.
Morgunblaðið segir frá illviðrinu í pistli 17.september:
Björgunarsveitir sinntu víða útköllum í gærkvöldi vegna óveðurs sem gekk yfir sunnan- og vestanvert landið. Því fylgdi mikill vindur og úrkoma. Slökkvilið höfuðborgarsvæðisins veitti í gærkvöldi aðstoð vegna vatnsleka og foks. Þá fauk óbundin lítil flugvél á girðingu á Reykjavíkurflugvelli. Veðrið hafði ekki truflandi áhrif á millilandaflug í gær. Snarvitlaus veður var komið í Ólafsvík í gærkvöldi, rok og úrhellisrigning. Þar var vindhraðinn talinn ná a.m.k. 30 m/s í verstu hviðunum. Á Hellissandi var beðið um aðstoð björgunarsveitar vegna þakplatna sem voru að fjúka. Þar var sunnanstormur og fóru vindhviðurnar í 31 m/s. Nokkrar beiðnir um aðstoð bárust á Suðurnesjum vegna foks á þakplötum og lausum munum. Á höfuðborgarsvæðinu bárust björgunarsveitum hjálparbeiðnir úr Hafnarfirði, Reykjavík og Kópavogi. Þar voru að fjúka m.a. þakplötur, vinnupallur, laust dót og tjald fornleifafræðinga í Aðalstræti, samkvæmt upplýsingum slysavarnafélagsins Landsbjargar. Veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands sagði að veðrið yrði harðast til að byrja með vestan til á landinu. Vindstrengurinn átti síðan að færast austur yfir landið. Lægðin sem olli óveðrinu var djúp og fylgdi henni mjög mikil úrkoma. Leifar fellibylsins Ike, sem gerði mikinn óskunda vestanhafs á dögunum, slógu sér saman við lægðina. Veðurfræðingurinn sagði viðbúið að meðalvindhraði næði 20-25 m/s nokkuð víða meðan versta veðrið gengi yfir. Þá mætti búast við úrhellisrigningu á Suður- og Vesturlandi. Vindur átti að snúast í SV 13-18 m/s með skúrum í dag vestan til. Austanlands átti að verða heldur hægara.
Morgunblaðið segir enn frá 18.september:
Miklar vegaskemmdir urðu víða á Vestfjörðum í vatnsveðrinu í fyrrinótt. Unnið var að viðgerð í gær og lögðu starfsmenn Vegagerðarinnar kapp á að opna vegina á ný fyrir umferð. Þorskafjarðarheiði var eini vegurinn sem ekki tókst að opna en aðrar leiðir sem skemmdust voru að minnsta kosti orðnar færar jeppum og stærri bílum í gærkvöldi. Þetta er með því verra sem komið hefur í fleiri, fleiri ár, sagði Eiður B. Thoroddsen rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Patreksfirði. Hann sagði að mörg hundruð rúmmetrar af vegfyllingu hefðu sópast úr nýjum vegi sem liggur upp á Kleifaheiði, í botni Patreksfjarðar. Við erum að reyna að gera fært fyrir vörubíla svo þeir komist í Baldur, sagði Eiður síðdegis í gær. Hann kvaðst ekki hafa átt von á að þessi vegur færi nær því í sundur. Þarna hvarf 6-7 metra há vegfylling undir bundnu slitlagi á löngum köflum. Eiður áætlaði að það tæki tvo til þrjá daga að laga veginn. Víða féllu skriður á vegina Mikil skriða féll í Patreksfirði, á veginn sem liggur út í Örlygshöfn við fjörðinn sunnanverðan. Skriðan var um 50 metra breið og allt að sjö metra þykk. Í Fossfirði, einum af innfjörðum Arnarfjarðar, rann vegfyllingin frá báðum endum brúarinnar við Foss og vöruflutningabíll fór á hliðina í Þernudal í firðinum. Þá féllu þrjár nokkuð stórar aurskriður á Hrafnskagahlíð í Fossfirði og að minnsta kosti aðrar þrjár á á Sunnhlíðinni, á leiðinni í Trostansfjörð. Unnið var að því að ryðja skriðunum burt í gærkvöldi. Einnig grófst vegurinn í sundur í Trostansfirði og tókst að gera hann jeppafæran í gærkvöldi. Á Dynjandisheiði fór vegurinn í sundur við Dynjandisá. Þar varð jeppafært í gærkvöldi. Vegurinn yfir Þorskafjarðarheiði fór í sundur og varð hún ófær. Vatnselgur rauf veginn á um 10 metra kafla og ruddi burt þremur metersvíðum hólkum undir veginum. Enn er lokað þar og verður ekki reynt að gera við skemmdirnar fyrr en elgurinn sjatnar, að sögn Jóns Harðar Elíassonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Hólmavík.
Í Mjóafirði í Ísafjarðardjúpi urðu rof og skemmdir víða á þjóðveginum í fyrrinótt. Eins höfðu ræsi undir veginum í Ísafirði í Djúpinu ekki undan vatnsflaumnum og þar urðu töluverðar vegarskemmdir á um hálfs kílómetra kafla, að sögn Geirs Sigurðssonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Ísafirði. Vegurinn um Djúp var opnaður í gær og bráðabirgðaviðgerðum lýkur í dag. Töluvert var kallað til af tækjum og mannskap til að laga þjóðveginn á þessum stöðum. Þetta virðist hafa verið óhemju vatnsmagn í nótt og ummerki um að það hafi gengið gríðarlega mikið á, sagði Geir síðdegis í gær.
Tjónið nemur hundruðum þúsunda, segir Sveinbjörn Guðjohnsen hjá Bílabúð H. Jónssonar á Smiðjuvegi í Kópavogi. Mikið vatn lak meðfram lofti bílabúðarinnar og skemmdust vörur, innréttingar, tölvur o.fl. Bílabúðin er á jarðhæð í tveggja hæða húsi. Á efri hæð er verkstæði en gengt er í það af götu hinum megin við innganginn í bílabúðina. Stórt bílaplan er þar sem og við húsið hinum megin við götuna frá verkstæðinu. Vatnið af þakinu þar rann niður á götuna, yfir hana og inn á planið hjá verkstæðinu á hæðinni fyrir ofan mig. Vatn rann af fleiri hundruð fermetrum af planinu hér fyrir ofan og inn í húsið, yfir gólfin á efri hæðinni og lak niður loftið. Settar voru upp viftur og annar búnaður til að þurrka upp mesta vatnið og rakann og var staðan seinnipartinn í gær flott að mati Sveinbjörns. Tjónið verður bætt af Sjóvá sem Sveinbjörn segir hafa brugðið skjótt við og staðið sig vel.
Tryggingafélögin höfðu í nógu að snúast í gær við að svara fyrirspurnum og skoða tjón hjá viðskiptavinum sínum. Afar hvasst var seint í fyrrakvöld og aðfaranótt miðvikudagsins og fylgdi óveðrinu mikil úrkoma. Hjá VÍS og Sjóvá fengust þær upplýsingar að tilkynningarnar vörðuðu allt frá brotnum rúðum og skemmdum á bílum til vatnstjóns á innbúi. Fæst síðastnefndu tjónanna fást hins vegar bætt, eða innan við 5% að mati Sjóvár. Vatnstjón algengust Þá höfðu nokkrir tugir tilkynninga borist Sjóvá en enn fleiri fyrirspurnir verið lagðar fram. Tilkynnt var um fá foktjón en engar skemmdir á húsum. Flest vörðuðu tjónin vatnsflóð þar sem niðurföll eða þakrennur voru stíflaðar en þau tjón þurfa húseigendur að bera sjálfir. Hjá Sjóvá fengust þær upplýsingar að innan við 5% þeirra húseigenda sem urðu fyrir vatnstjóni mættu eiga von á bótum þar sem í um 95% tilvika mætti rekja tjónið til vanhirðu. Síðla í gær höfðu yfir 100 símtöl borist VÍS. Yfirleitt var um fyrirspurnir að ræða en tilkynnt var um nálægt 40 tjón á höfuðborgarsvæðinu. Engar tilkynningar bárust um skaða á skipum eða öðru tengdu sjónum eða höfnum en talsvert var um tilkynningar vegna vatnsleka gegnum veggi og þök sem enginn bótaréttur er fyrir. Þak og gluggar haldi vatni Í tryggingarskilmálum VÍS og Sjóvá segir að félögin bæti tjón vegna vatns sem skyndilega og óvænt streymi úr leiðslum húsa og eigi upptök innan veggja þeirra. Félögin bæti hins vegar ekki tjón vegna úrkomu nema hún sé svo mikil að frárennslisleiðir hafi ekki undan og vatn flæði inn í húsnæði hins vátryggða eða það þrýstist upp um frárennslisleiðslur. Tjón vegna vatns frá þökum, þakrennum eða svölum er aldrei bætt. Þau svör fengust að reiknað væri með því að þak, veggir og gluggar héldu vatni og vindum. Gæta þarf að niðurföllum Í ofsaveðri líkt og því sem skall á í fyrrakvöld eru íbúðir á jarðhæð og í kjallara í mestri hættu á vatnstjóni. Leki inn í þær íbúðir þarf að meta hvort tjónið stafi af því að holræsi hafi ekki haft undan vatnsflaumnum eða illa hafi verið hirt um að hreinsa niðurföll. Í fyrrnefnda tilfellinu eiga húsráðendur rétt á bótum en ekki í því síðarnefnda. Sé sjálft húsið óþétt, drenlagnir lélegar eða stíflaðar sem og þak-, svala- og kjallaraniðurföll, situr fólk sjálft uppi með tjónið.
Fréttablaðið segir af foki í pistli 18.september:
Veður Við sáum þetta ekki fyrr en í morgun, segir Sandra Sveinsdóttir Nielsen, íbúi í Furugerði í Reykjavík, um tvö reynitré sem féllu í garðinum við hús hennar í óveðrinu sem gekk yfir landið í fyrrinótt. Hún segir mikið áfall að sjá stór og falleg tré fara með þessum hætti. Það sé þó mikil mildi að trén féllu inn í garðinn en ekki út á götu eða á bíla nágranna þeirra. Hún segir tryggingar ekki bæta tjónið. Þannig að þessi fallegu tré eru ekki metin til fjár en við eigum þá allavega nóg í arininn í vetur, segir Sandra. Nokkuð sá á gróðri á höfuðborgarsvæðinu eftir veðrið í fyrrinótt. Mest var um að greinar brotnuðu af trjám en eitthvað var um að tré rifnuðu upp með rótum.
Skessuhorn segir af fjárskaða í flóði og öðrum sköðum sem veðrið olli í pistli þann 24.:
Um hálft hundrað fullorðinna kinda og lamba drukknaði síðastliðinn miðvikudagsmorgun [17,] þegar Miðá í Dölum flæddi yfir bakka sína í kjölfar úrhellisrigningar. Féð, sem er frá Harrastöðum, lenti í sjálfheldu í girðingu við ána. Síðdegis á miðvikudag var búið að finna á fimmta tug dauðra kinda að sögn Sigríðar Skarphéðinsdóttur, húsfreyju á Harrastöðum. Hún segir að ekki sé vitað nákvæmlega hversu margar kindur voru í girðingunni sem flæddi yfir. Í vikunni áður hafi þær verið um 70, en túnhliðið stóð opið. Því er ekki hægt að slá föstu hversu margar kindur hafi drukknað, en hugsanlega eigi eftir að finnast fleiri hræ niður með ánni. Það er hræðilegt að horfa upp á svona skaða og engum datt í hug daginn áður að svona hratt myndi vaxa í ánni, sagði Sigríður. mm/ljósm. bae.
Hvassviðri og úrhellisrigning gekk yfir vestanvert landið á þriðjudagskvöld [16.] í liðinni viku og þá um nóttina. Vindur fór víða í yfir 30 m/s í hviðum. Töluvert var um smáskaða í þessari fyrstu alvöru haustlægð, en ekki stórtjón, eins og búast hefði mátt við. Mesta tjón sem vitað er um varð á varnargarði sem er í byggingu vegna snjóflóðavarna í Ólafsvík. Eitthvað var um vegaskemmdir vegna vatnsflaums. Þá losnuðu þakplötur af gömlum skúr á Hellissandi. Hið sama gerðist við heimili í Borgarnesi. Þá losnuðu tré upp með rótum við Borgarbraut í Borgarnesi. Þakefni úr pappa fauk af nokkrum nýlega byggðum sumarhúsum í Hafnarskógi. Björgunarsveitir veittu víða um Vesturland aðstoð við að fergja lausa hluti. Að sögn lögreglunnar í Borgarfirði og Dölum voru frameftir vikunni að berast tilkynningar um lítilsháttar foktjón. Segja má að hið mikla vatnsveður sem fylgdi þessari lægð hafi valdið meiri skaða en sjálft rokið. Á öðrum stað í blaðinu er til dæmis greint frá því þegar Miðá í Dölum flæddi yfir bakka sína og fé frá bænum Harrastöðum lenti í sjálfheldu og drukknaði. Þá skemmdist parket í einu af fjórum nýbyggðum sumarhúsum í Hafnarskógi þar sem þakefni fauk af og vatn flæddi inn í einangrun og niður á gólf. mm
Eitt mesta stórstreymi ársins var síðastliðinn fimmtudag [18.]. Samhliða því og miklum vindi færðu brimskaflar grjót yfir veginn austan við Ólafsvík þannig að ófært var um morguninn og þurfti gröfu til að hreinsa veginn og gera akfæran á ný. Víðar á Vesturlandi gekk sjór yfir varnargarða. Má þar nefna Faxabraut á Akranesi og á Borgarfjarðarbrúnni var töluverð ágjöf um morguninn. mm
Í kjölfar þessa illviðris kom stroka af köldu lofti vestan frá Kanada yfir landið og olli útsynningshryðjum og þrumuveðri. Skessuhorn segir frá 24.september:
Á laugardaginn síðasta [20.] var réttað í Vörðufellsrétt á Skógarströnd. Þegar verið var að reka safnið til réttar hófust þrumur og eldingar og síðan skiptist á sól, skúrir og haglél. Lætin voru þvílík að fólk mundi vart annað eins en meðan á þessu stóð voru leitarmenn í Eyjahreppi á fjalli og sögðu þeir við fréttaritara að það hefði verið mesta furða hvað hrossin hefðu haldið ró sinni þegar þrumurnar voru sem mestar og högl á stærð við jarðarber dundu á þeim.
Síðastliðin laugardag [20.] urðu bændur í Hallkelsstaðahlíð í Kolbeinstaðahreppi að hringja í björgunarsveitina Elliða og fá þaðan bát til að bjarga kindum í Hlíðarvatni. Þar voru sex kindur í tveimur hólmum komnar í hættu og var annar hólminn komin á kaf. Það voru þeir Ólafur á Brúarhrauni og Skúli í Hlíð sem fóru út á bát og tókst þeim björgunin vel. Að sögn Sigrúnar Ólafsdóttir í Hlíð er vatnið nú álíka vatnsmikið og í mestu vorleysingum. Vitað er að a.m.k. fjórar kindur frá bænum hafa drukknað í vatnavöxtunum. þsk
Í október varð hlaup í Skaftá. Fréttablaðið segir frá 13.október:
Hlaupið í Skaftá náði hámarki í gærkvöldi og er nú í rénun. Hlaupið er með þeim stærstu sem orðið hafa í ánni. Bændur í Skaftártungu búast við að gróðurskemmdir komi í ljós þegar sjatnar í ánni. Samkvæmt upplýsingum lögreglu lenti hvorki fólk né búfénaður í hættu eða vandræðum vegna hlaupsins í ánni.
Þetta skilur eftir sig heilmikla eyðileggingu. Menn tala oft um að það sé ekkert tjón en það er svo mikið land sem fer undir vatn. Áin flæðir upp úr öllum farvegum, brýtur bakka og göslast yfir gróið land og setur það í svartan sand. Þegar fjarar eru sandhaugarnir eftir og þeir fjúka um allt, útskýrir Gísli. Hann skoðaði aðstæður svolítið í gær og sagði greinilegt að vatnsmagnið væri meira en í hlaupinu 2006. Hér ofan við Ásavatnsbrúna hefur alltaf verið gróinn hólmi úti í vatni en nú er hann farinn. Hann hefur staðið af sér mörg hlaupin til þessa. Það hefur líka brotnað úr bökkum og hrunið úr berginu og varnargarðar eru víða farnir eða komnir á kaf.
Oddur Sigurðsson jarðfræðingur hjá Vatnamælingum flaug yfir svæðið í gær. Um hádegisbilið var minni kraftur á vatninu sem kom undan jökli og þar stóðu jakar á þurru, sagði Oddur. Samkvæmt mælingum á hálendinu fór rennslið upp í 1350 rúmmetra á sekúndu en Oddur taldi víst að rennslið hefði verið meira, jafnvel 1500 rúmmetrar á sekúndu þegar mest lét, þar sem nokkrar kvíslar runnu fram hjá mælinum. Þetta er með stærri hlaupum sem við höfum séð en þó ekki það stærsta. Það virðist takmarkast við Skaftá en oft hefur hlaupið í öðrum ám samtímis, segir Oddur sem býst við að rennsli í Skaftá verði áfram mikið fram eftir vikunni. Heimreiðin að Skaftárdal fór undir vatn í gær sem og hluti af Fjallabaksleið líkt og venja er í flóðum sem þessu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Hvolsvelli lenti enginn í vandræðum eða hættu vegna hlaupsins. thorgunnur@frettabladid.is
Bændablaðið gerir upp kornuppskeru sumarsins í pistli 21.október (mikið stytt hér):
Eins og fram kom í síðasta tölublaði Bændablaðsins þá voru þó horfur allvíða býsna slæmar í kornræktarlöndum um miðjan september vegna linnulausra rigninga, sérstaklega á Suður- og Vesturlandi. Var korn víða tekið að láta undan síga vegna hins mikla votviðris og bændur áttu sumir hverjir í erfiðleikum með að koma þreskivélum sínum út á akrana. Á Norðurlandi glímdu kornbændur hins vegar við mikið rok og varð þó nokkuð tjón af þeim sökum; ekki síst í Skagafirði þar sem talið er að um 100 tonn hafi tapast en einnig á Norðausturlandi. Sumarið nýliðna var öðrum sumrum betra og korn spratt með allra besta móti. En haustveðrin voru harðari, en við eigum að venjast, segir Jónatan Hermannsson, jarðræktarfræðingur hjá Landbúnaðarháskóla Íslands. Jónatan hefur unnið að kynbótum á byggi undanfarin ár. Foktjón varð mjög mikið á Norður- og Austurlandi, þar sem fyrst og fremst er ræktað sexraðabygg frá Skandinavíu. Sunnanlands og vestan er aðallega treyst á tvíraðabygg og það þolir hvassviðri nokkuð, en leggst og klessist í endalausum slagviðrum, segir Jónatan. ... Ingvar Björnsson, jarðræktarráðunautur hjá Búgarði, segir um kornræktina í Eyjafirði og Þingeyjarsýslum að hún hafi víðast gengið vel og uppskera verið með mesta móti. Þó seint væri sáð var sumarið mjög hagstætt, sólríkt og þurrt. Á bestu ökrum mældust yfir sex tonn af þurru korni og meðaltalið er jafngott á öllu Norðausturlandi. Eitthvað ódrýgðist vegna þurrka í sumar og síðan tapaðist nokkuð af korni í hvassviðrinu sem gerði upp úr miðjum september.
Rétt eins og vorið kom snögglega bar haustið einnig brátt að. Hlýtt var í veðri í annarri viku október, en annars var mánuðurinn kaldur og snjór heldur meiri og þrálátari en venjulegt er á þessum tíma árs. Meðal annars varð alhvítt víða sunnanlands í fyrstu vikunni. Seint í mánuðinum gerði mikið brim við norðurströndina.
Snemma í október varð bankahrun, einn eftirminnilegasti viðburður Íslandssögu síðari tíma. Veðrið þá dagana varð einnig nokkuð eftirminnilegt, því óvenjumikið snjóaði suðvestanlands. Hungurdiskar fjölluðu um það veður í sérstökum pistli á 10 ára afmæli hrunsins.
Upp úr þeim 20. gerði mikla illviðrasyrpu þegar sérlega djúpar lægðir komu að landinu norðanverðu. Segja má að betur hafi farið en á horfðist.
Fyrri lægðin kom úr suðaustri, fór vestur með Norðurlandi og dýpkaði, en gekk síðan til suðvesturs yfir landið vestanvert. Aðalvindstrengurinn var vestan lægðarmiðjunnar og slapp meginhluti landsins við hann. Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann 23. október.
Á Íslandskortinu á sama tíma má sjá lægðarmiðjuna við Hornstrandir. Hið sæmilegasta veður er um mikinn hluta landsins en norðanhríð á Vestfjörðum. Þrýstingur á Gjögri fór niður í 945,9 hPa.
Síðari lægðin fór aðeins fjær landi og náði hámarki áður en hún sveigði inn á það. Greiningin segir að lægsti þrýstingur í miðju hennar hefi verið um 937 hPa en það er afskaplega óvenjulegt á þessum árstíma - og á þessum slóðum. Kortið gildir um hádegi þann 24.
Um kvöldið var lægðarmiðjan komin nær og má sjá hana á hitamyndinni hér að ofan, en hún er tekin um kl.22 um kvöldið. Allvíða urðu vandræði vegna brims og hárrar sjávartöðu, en svo vel vildi þó til að smástreymt var (tungl var hálft þann 21. og ekki nýtt fyrr en 28.). Má sannarlega segja að hurð hafi skollið nærri hælum í þessari veðrasyrpu. En þó varð töluvert tjón.
Morgunblaðið segir frá 24.október:
Seint í gærkvöldi hafði veðrinu slotað nokkuð á Vestfjörðum og var reyndar ekki um það ofsaveður að ræða sem spáð hafði verið samkvæmt lögreglunni á Ísafirði. Hins vegar var farið að hvessa töluvert á suðvesturhorninu og á Suðurnesjum. Fjórum flugvélum Icelandair og Iceland Express á leið til Keflavíkur var í gærkvöldi snúið frá Keflavíkurflugvelli vegna veðurofsa og þess í stað lent á flugvellinum á Akureyri og á Egilsstöðum. Reynt var að útvega öllum 450 farþegunum gistingu á Akureyri og Egilsstöðum og var stefnt að því að fljúga vélunum til Keflavíkur nú í morgun eða um leið og veðrinu slotaði. Kl. 21 í gærkvöldi var meðalvindhraði í Keflavík 22 m/s. Lögreglan á Suðurnesjum hafði ásamt björgunarsveitum Slysavarnafélagsins Landsbjargar í nógu að snúast í gærkvöldi en þó nokkur útköll bárust vegna fjúkandi trampólína, grindverka, lausra þakkanta og bílskúrshurðar sem fauk upp. Þá voru björgunarsveitir kallaðar til aðstoðar á Snæfellsnesi, Hellisheiði, Skagaströnd og í Súðavík vegna báta sem voru að losna frá bryggju. Engin snjóflóð höfðu fallið í gær á Vestfjörðum svo vitað væri en nokkrum vegum var lokað vegna snjóflóðahættu. Samkvæmt snjóflóðafræðingi Veðurstofunnar mun koma í ljós þegar um hægist hvort snjóflóð hefur fallið á þá vegi. Þeim tilmælum var í gær beint til íbúa Vestfjarða að halda sig inni við nema brýna nauðsyn bæri til og samkvæmt lögreglunni á Ísafirði var þeim tilmælum að mestu leyti fylgt. Þar hafi eflaust spilað inn í rafmagnsleysið sem var á gjörvöllum Vestfjörðum en rafmagnið datt nokkrum sinnum út milli kl.17:50 og 20:21. Samkvæmt Orkubúi Vestfjarða má að öllum líkindum rekja rafmagnsleysið til seltu og ísingar á rafmagnslínum.
Morgunblaðið heldur áfram 25.október:
Vel gekk að bjarga togaranum Lómi II af strandstað við smábátahöfnina í Kópavogi í gær eftir að skipið hafði slitnað frá bryggju við Kópavogshöfn í veðurofsanum í fyrrinótt. Starfsmenn Köfunarþjónustunnar ehf voru kallaðir til bjargar og sagði Alexander Stefánsson, framkvæmdastjóri fyrirtækisins, að fyrri tilraun til að ná skipinu á flot á flóðinu aðfaranótt föstudags hefði ekki rúmast innan þess tímaramma sem árdegisflóðið gaf. Þá þegar hafði hann vaktað skipið drjúga stund og metið aðstæður frá fyrsta útkalli. Vindstrengurinn var þvert á skipið og bryggjuna með þeim afleiðingum að skipið sleit af sér alla spotta að aftan og hékk í tveimur að framan þegar hringt var í okkur, sagði hann. Þegar Alexander mætti á staðinn slitnuðu festarnar svo að framan og skipið fór á rek. Stöðvaðist það við smábátahöfnina í leðjubotni. Það var gengið strax í að koma taugum um borð og snúa stefni skipsins upp í vindinn, jafnvel að toga það aðeins af stað en það reyndist ekki tími til þess á flóðinu í [fyrri-]nótt. Reynt var aftur á síðdegisflóðinu í gær og þá gekk allt upp eins til var ætlast. Var sver kaðall tengdur úr skipinu í 50 tonna gröfu og 35 tonna jarðýtu klukkan 14:30. Losnaði skipið þá og var dregið að bryggju. Að sögn Alexanders tóku um 10 manns þátt í björguninni. Hugsanlega þarf að kafa niður með skipinu til að athuga með skemmdir. Alexander segir að menn hafi óttast aðeins að skipið færi á hliðina á strandstað á fjörunni. Þess vegna var settur spotti á stjórnborðssíðu skipsins til öryggis. Við hjá Köfunarþjónustunni þekkjum þessa höfn mjög vel og vissum að skipið sæti í leðju. Við vissum að það myndi ekki nást upp nema með rétta búnaðinum.
Fréttablaðið segir af sjávargangi mánudaginn 26.október:
Norðlendingar máttu þola flóð bæði úr fjalli og fjöru um helgina. Um klukkan hálffjögur keyrðu tveir bílar með stuttu millibili í snjóflóð sem fallið hafði á veginn við Sauðanes milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar. Blindbylur var svo mikill að ökumenn sáu ekki flóðið. Bílarnir voru svo kirfilega fastir að björgunarsveitarbíll dugði ekki til að losa þá svo þeir urðu ekki lausir fyrr en snjóblásari hafi farið í gegnum flóðið. Ekki urðu slys á fólki. Í fyrrinótt [aðfaranótt 25.] var sjávarstaða svo há að sjór flæddi yfir bryggjur í miklu rokviðri á Siglufirði og Húsavík. Að sögn Þóris Kristins Þórissonar, bæjarstjóra Fjallabyggðar, flæddi að minnsta kosti inn í eitt íbúðarhús á Siglufirði en þar sem og á Húsavík flæddi inn í atvinnuhúsnæði við höfnina. Sjálfur komst bæjarstjórinn í hann krappan um klukkan hálfátta í fyrrakvöld. Ég var niðri á höfn að athuga með skemmdir á hafnarvoginni og lagði bílnum rétt hjá meðan ég skaust út þeirra erinda, segir hann. Augnabliki síðar sé ég að sjórinn nær upp að hurðum bílsins. Mér leist náttúrlega ekkert á blikuna því konan og hundurinn voru inni í bílnum. Þetta er Land Cruiser-jeppi svo það þarf dánokkurn sjó svo hann fari upp að hurðum. Eftir að snjóflóðin féllu við Sauðanes var veginum milli Ólafsfjarðar og Dalvíkur lokað vegna hættu á fleiri flóðum.
Morgunblaðið segir af ófærð og sjávargangi í pistlum 27.október:
Mikill snjór er víða á Norður- og Austurlandi eftir stórhríðina sem þar gekk yfir um helgina. Enn snjóaði á Austurlandi í gær. Akureyringar voru að moka frá húsum sínum og bílum en þar hafði víða skafið að. Sérfræðingar Siglingastofnunar munu í dag meta skemmdir í höfnum. Björgunarsveitarmenn björguðu sama manninum tvisvar af ófærum fjallvegum á Austurlandi í gær, fyrst af Öxi og síðan af Hellisheiði, á leið til Vopnafjarðar. Maðurinn var á fólksbíl. Víkurskarð var opnað síðdegis í gær en þar hefur vegurinn verið lokaður mestalla helgina vegna veðurs og ófærðar. Björgunarsveitin Garðar á Húsavík var kölluð til aðstoðar í gærmorgun þegar koma þurfti tveimur sjúklingum frá Húsavík á Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Komust þeir yfir Víkurskarð með aðstoð snjóruðningstækja. Þungfært var á Grenivíkurvegi undir kvöld í gær og ófært um Hólasand. Á Austurlandi var þungfært og stórhríð í Vatnsskarði og snjór, hálka og skafrenningur á öðrum vegum á Norðausturlandi. Ófært var um Öxi. Áfram er spáð norðlægri átt í dag, 5 til 13 metrum á sekúndu og hvassast verður við austurströndina, allt að 18 metrar. Él verður á stöku stað norðaustan til, annars víða bjart.
Skemmdir urðu í nokkrum höfnum á norðanverðu landinu í sjógangi í norðanáttinni um helgina. Þetta er mesta öldurót sem ég hef séð síðan ég byrjaði í þessu starfi, eiginlegt hafrót, sagði Stefán Stefánsson, hafnarvörður við Húsavíkurhöfn í sextán ár. Aldan gekk yfir nýlegan sjóvarnargarð, Bökugarð, og gróf upp grjót og möl innan við. Stefán segir að grjót hafi hreyfst til ofarlega í grjótvarnargarðinum sem sýni hvað öldurnar hafi verið miklar. Akstursleiðin fram á garðinn grófst í sundur og vatnsleiðsla og grjót var um allt hafnarsvæðið. Ekki er fært út á viðlegukantinn við Bökugarð en Stefán telur það ekki koma að sök í bili þar sem ekki sé von á flutningaskipum. Von er á sérfræðingum frá Siglingastofnun til Húsavíkur í dag til að meta tjónið og athuga hvað sé til úrbóta. Skemmdir urðu einnig í höfnum á Kópaskeri, í Fjallabyggð og á Gjögri.
Bæjarins besta segir einnig af skemmdum 30.október:
Viðgerð á veginum um Óshlíð gengur vel að sögn Geirs Sigurðssonar, rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Ísafirði. Vegagerðin hefur keyrt efni í skarðið sem myndaðist í hlíðina undir Óshlíðarveg á föstudag [24.] vegna mikils öldugangs en umtalsvert magn þarf til að fylla upp í skarðið og áætlar Vegagerðin að uppfyllingarvinnan standi út þessa viku. Geir segir veginn sjálfan hafa verið í hættu vegna öldugangsins. Vegbrúnin sjálf rofnaði ekki en það mátti ekki tæpara standa og tel ég að þarna hafi farið betur en áhorfðist, segir Geir. Töluverðar skemmdir urðu á rafmagnskerfi vegarins er ljósastaur hrundi niður í fjöru en ljósleiðari sem liggur með veginum slapp óskemmdur eftir hamfarirnar. Að sögn Geirs voru töluverðar varnir undir veginum sem öldurnar brutu burt og kemur Vegagerðin til með að lagfæra þær varnir. birgir@bb.is
Nóvember var nokkuð umhleypingasamur en tíð þó lengst af hagstæð. Norðanillviðri gerði þann 27. Veður voru lengst af meinlítil í desember, þó gerði snarpt landsynningsveður þann 11. Víða var talsverður snjór, meiri en á sama árstíma um nokkurra ára skeið. Skömmu fyrir jól gerði mikla hláku og í henni tók snjó upp að mestu og var hlýtt til ársloka.
Talsvert illviðri gerði þann 11.desember. Morgunblaðið segir frá 12.desember:
Mikið flóð gerði í gær þegar Skaftá ruddi sig eftir óvenjulega mikið vatnsveður. Myndaðist stífla vestan við Systrastapa en þegar hún lét undan fyllti flóðið farveginn og meira til. Bíll og kerra sjást hálf á kafi í vatninu, sem gjálfraði við heyrúllur og nærliggjandi hesthús. Í gærkvöldi var Skaftá aftur í venjulegum ham.
Í þessu sama veðri urðu nokkrir fokskaðar urðu á Suðvestur- og Vesturlandi, járnplötur og lausamunir fuku og fáein hjólhýsi skemmdust.
Á Þorláksmessu og aðfangadag jóla gerði mikla sunnanátt með hlýindum. Víða varð hvasst, en tjóns er ekki getið.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um tíðarfar og veður á árinu 2008. Ýmsar tölulegar upplýsingar má finna í viðhenginu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Bloggfærslur 28. mars 2025
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (31.3.): 87
- Sl. sólarhring: 347
- Sl. viku: 1619
- Frá upphafi: 2457174
Annað
- Innlit í dag: 76
- Innlit sl. viku: 1480
- Gestir í dag: 71
- IP-tölur í dag: 69
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010