Sumarhiti á Akureyri - (það er alla vega fyrirsögnin hér)

Myndin sem sjá má hér að neðan sýnir sumarhita (júní til september) á Akureyri 1808 til 2024. Eins og sjá má eru ýmsar eyður í gögnunum. Samfelldar mælingar á vegum dönsku veðurstofunnar hófust haustið 1881 og síðan tók Veðurstofa Íslands við mælingunum 1920. Margt er þó óljóst í sögu stöðvarinnar. Það er einlæg ósk ritstjóra hungurdiska að einhver honum yngri taki að sér að rannsaka þessa sögu - og gera síðan tilraun til að laga mæliröðina og jafnvel fylla upp í eyður - eins og frekast er unnt. Ritstjórinn hefur - (kannski ekki með allrabestu samvisku) reynt að fylla eitthvað í, en ekki treyst sér til þess að ganga svo langt að gefa röðina út.

w-blogg230325a

Dagbækur um veðurfar í Eyjafirði eru til frá degi til dags aftur á miðja 18. öld, lengra heldur en í nokkru öðru héraði landsins. Framan af eru mælingar þó engar svo vitað sé. Það varð ekki fyrr en danskir landmælingamenn settu upp höfuðstöðvar á Akureyri síðsumars 1807 að það gerðist - og var mælt þar samfellt til síðsumars 1813. Eyða er í mælingar á svæðinu þar til 1826 en þá byrjaði Grímur Jónsson amtmaður að mæla á Möðruvöllum. Dagbækur voru enn haldnar - og jafnvel fleiri en á einum stað samtímis - en án mælinga. Eyður eru í athuganir Gríms, sem lögðust síðan alveg af um það leyti sem hann hvarf á braut 1833. Ljóst er að eftirmaður hans, Bjarni Thorarensen hafði yfir hitamæli að ráða, en ekki liggur fyrir hvort hann gerði reglulegar mælingar. Bjarni var mikill áhugamaður um veður en ekki er víst að hann hafi ritað reglulega hjá sér. Hafi svo verið hefur það ekki komið fram. 

En Bjarni varð bráðkvaddur (1841) og ekki er vitað um mæli þar í grennd næstu árin. En 1846 tók Eggert Jónsson (Johnsen) læknir og fékk tæki frá Vísindafélaginu danska. Hann gerði nokkuð ítarlegar athuganir næstu árin eða til ársins 1854. Líklega var hann hættur athugunum þegar hann lést af slysförum skömmu síðar - eða kannski komust síðustu athuganir hans ekki til skila. Árið 1854 hóf Séra Björn Halldórsson í Laufási athuganir, en af einhverjum óþekktum ástæðum voru það aðeins loftþrýstimælingar sem komust í veðurbók hans. Þó virðist hitamælir hafa verið á staðnum - en Björn hefur e.t.v. ekki treyst honum(?). 

Mikil eyða er í hitamælingar á Akureyri frá 1854 þar til 1881. Þó er vitað um mæla á svæðinu, og e.t.v. er hægt að tína þær saman úr dagbókum - og nota reglubundnar mælingar frá öðrum stöðum til eftirlits og inníbætinga. 

Árið 1873 tók Hendrik Schiöth að sér athuganir fyrir dönsku veðurstofuna. En las þó aðeins af loftvog (og þar með hita í stofu sinni). Á sama tíma var sett upp stöð í Grímsey, en þar var ekki loftvog. Loftþrýstiathuganir á Akureyri voru þá birtar í sömu töflu og athuganir úr Grímsey - eins og Akureyrarstöðin væri hluti hennar. 

Þessu einkennilega fyrirkomulagi lauk svo haustið 1881 að Schiöth fór líka að mæla hita og gera aðrar athuganir fyrir dönsku Veðurstofuna. Því hélt hann síðan áfram til ársins 1918. Að auki var sett upp stöð á Möðruvöllum 1889 þar sem Stefán skólameistari athugaði þar til 1905. Síðan tóku aðrir við þar og var athugað nær samfellt til ársins 1927. 

Síminn kom til Akureyrar haustið 1906 og var þá sett upp önnur stöð, skeytastöð á Akureyri. Það er hún sem hefur verið starfrækt síðan. Hún var lengst af við símstöðina, en nú skortir ritstjóra hungurdiska mjög staðkunnáttu til að fylgja hreyfingum stöðvarinnar allt fram til þess að lögreglan tók hana (höndum) 1943 og fór að athuga við Smáragötu. Mikið ólag var á athugunum símstöðvarinnar og óvissa er í hitamælingum, þótt þær hafi aldrei fallið niður á þeim tíma. Um tíma var reynt að athuga við Gróðrarstöðina, en það gekk ekki upp - hvað sem veldur. Báðar tilraunir (önnur um 1910 og hin um 1925) mistókust. 

Athugað var við Smáragötu til 1968. Þá var flutt í Þórunnarstræti. Þar hefur reyndar gengið á ýmsu í nágrenni stöðvarinnar. Að lokum var síðan farið að athuga samhliða með sjálfvirkum mælum við Krossanesbraut. Sólskinsmælingarnar hafa verið gerðar á víð og dreif um bæinn, á stöðum þar sem vel sést til sólar og nærumhverfi skyggir ekki á. 

Afskaplega ánægjulegt væri ef einhver áhugamaður um veður og veðurfar tæki nú að sér það mikla verk að fara í gagn um sögu veðurathugana á Akureyri og komast fyrir vafamál og villur. 

Ástæða þess að sumarhiti var valinn á línuritið er sú að aðeins fleiri sumur eru í gögnunum heldur en heil ár. Tölurnar eru í samræmi við aðrar mælingar, sýna nokkuð ákveðna hlýnun yfir allt tímabilið, en köld og hlý skeið skiptast á á óreglulegan hátt. 


Bloggfærslur 23. mars 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.3.): 100
  • Sl. sólarhring: 110
  • Sl. viku: 1410
  • Frá upphafi: 2455655

Annað

  • Innlit í dag: 92
  • Innlit sl. viku: 1266
  • Gestir í dag: 81
  • IP-tölur í dag: 75

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband