Óvenjudjúp lægð

Í dag komst loftþrýstingur við sjávarmál niður í 940,9 hPa á Siglufirði (óstaðfest tala). Þetta er óvenjulág tala og virðist vera sú lægsta sem mælst hefur á spásvæðinu „Strandir og Norðurland vestra“ í febrúar. Við verðum þó að hafa í huga að þótt þrýstimælingar hafi staðið á landinu samfellt í rúm 200 ár var athugunarkerfið lengi vel mjög gisið - og þar að auki var ekki athugað þétt í tíma. Upplýsingar okkar um lágþrýstimet eru því ekki fullkomnar.

w-blogg030225a

Líkan dönsku veðurstofunnar segir þrýsting í lægðarmiðju hafa komist niður í 936 hPa. Það verður þó seint staðfest. 

Síðast fór þrýstingur lægra á landinu þann 15. febrúar 2020, þá var lægsta talan 932,9 hPa í Surtsey. Mikið illviðri gekk þá yfir landið og víða varð talsvert tjón. Veðrið varð reyndar einna verst þann 14. Lægðarmiðjan gekk ekki yfir landið, en greiningar giskuðu á að hún hafi verið á bilinu 919 til 922 hPa í miðju þegar verst lét. Tveir pistlar hungurdiska fjölluðu um þessa lægð.

Næst á undan mældist þrýstingur undir 940 hPa þann 30. desember 2015, sannkölluð ofurlægð sem gekk norður yfir landið, lægstur varð þrýstingurinn 930,2 hPa á Kirkjubæjarklaustri. Um þetta var fjallað á hungurdiskum. Eftirminnilegasta tjónið var e.t.v. af völdum sjávargangs á Austfjörðum. Sama ár, 2015, fór þrýstingur á Gufuskálum niður í 939,0 hPa þann 7. janúar, sömuleiðis getið á hungurdiskum.

Næstu fjögur tilvik á undan voru í janúar (1999, 1995, 1993 og 1990), mikil skaðaveður. Á aðfangadag 1989 fór þrýstingur á Stórhöfða niður í 929,5 hPa, og sama ár hafði hann farið niður í 931,9 hPa þann 5.febrúar. Vindur mun hafa haft töluverð áhrif til lækkunar þrýstings á stöðinni í þessum tilvikum báðum, slík vindhrif koma ekki fram í greiningum í líkönum. Í desembertilvikinu 1989 var vindhraði 48,9 m/s, en 46,8 m/s í febrúar (komst þá mest í 49,4 m/s).

Hér að neðan er einungis fjallað um febrúar. Næsta febrúartilvik á undan því 2020 var 8.febrúar 1982. Eftirminnilegt ritstjóranum, enda á vaktinni. Þrýstingur fór niður í 937,0 hPa á Keflavíkurflugvelli og var það þá lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu frá 1942 að telja. Mannskaði varð í þessu veðri er bifreið fauk af vegi, en annars varð tjón minna en útlit hafði verið fyrir.

Þótt þrýstingur hafi ekki komist niður í 937 hPa frá 1942 þar til 1982 fór hann samt nokkrum sinnum niður fyrir 940 hPa á tímabilinu. Í febrúar þarf hins vegar að leita allt aftur til þess 8. árið 1925, í Halaveðrið svokallaða. Þá fór þrýstingur í Stykkishólmi niður í 934,1 hPa. Í febrúar 1922 mældist þrýstingur í Grindavík 935,2 hPa þann 19. Ekki var mikið tjón í því veðri, en þó eitthvað.

Tvær mjög djúpar lægðir fóru yfir landið seint í febrúar 1903. Á veðurstöð varð þrýstingur lægstur í Vestmannaeyjum þann 24., 932,3 hPa, en hafði farið niður í 933,0 hPa í Reykjavík nokkrum dögum áður á hinni opinberu veðurstöð. Jónas Jónassen landlæknir fylgdist vel með loftvog sinni og segir að hún hafi komist niður í 931,3 hPa bæði þann 20. og þann 24.febrúar, ekki er sérstök ástæða til að efast um það - en um nákvæmni loftvogar Jónasar er ekki vitað. Eitthvað var um tjón í þessum veðrum, einkum fjárskaða, en svo virðist sem þessar lægðir hafi verið búnar að brenna það versta úr sér þegar þær komu að landinu. Kannski hafa þær verið enn dýpri.

Á árunum 1822 til 1826 mældi Jón Þorsteinsson fjórum sinnum afarlágan loftþrýsting, í öll skiptin í febrúar. Þrisvar var þrýstingurinn neðan við 930 hPa, 926,5 hPa þann 8. febrúar 1822, 923,8 hPa þann 4. febrúar 1824 og 920,4 hPa þann 13. febrúar 1826. Danska vísindafélagið taldi síðastnefndu töluna ranga, en viðurkenndi þá næstlægstu og stóð hún (og stendur víða enn sem lægsta tala sem mælst hefur á veðurstöð á landi við Norður-Atlantshaf) - þrjósk tala. Jón var ágætur veðurathugunarmaður, en við vitum ekki nákvæmlega hversu hátt yfir sjávarmáli mælir hans var - þannig að aldrei verður vitað hverjar þessar tölur eru nákvæmlega. En ástæðulaust er að taka ekkert mark á þeim, þrýstingur hefur vafalítið verið sérlega lágur þessa daga. Tvisvar síðar mældi Jón lægri þrýsting heldur en 940 hPa, það var 5. mars 1834 og 21. janúar 1852. Eftir það þurfti að bíða 28 ár eftir næstu 940 hPa - en höfum gisið net og gisinn athugunartíma í huga.

Nú er gert ráð fyrir erfiðri tíð næstu daga, bæði með skakviðrum og úrhelli. Kannski fjöllum við eitthvað um það - telji ritstjórinn ástæðu til. 


Bloggfærslur 3. febrúar 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • w-blogg030225b
  • w-blogg030225c
  • w-blogg030225a
  • w-blogg010225b
  • w-blogg010225a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.2.): 514
  • Sl. sólarhring: 549
  • Sl. viku: 2873
  • Frá upphafi: 2439808

Annað

  • Innlit í dag: 454
  • Innlit sl. viku: 2610
  • Gestir í dag: 424
  • IP-tölur í dag: 402

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband