Enn eitt gagnafylleríið?

Fyrir nokkrum dögum var á það minnst hér á hungurdiskum að hægt væri að bera fram spurningar eins og þessa: Hver er hlýjasti norðanáttardagur sem við þekkjum á landinu í febrúar? Það er meira að segja mjög auðvelt að finna svar - ef við miðum aðeins við síðustu 75 árin. Vandinn hefst hins vegar þegar kemur að nánari spurningum. Hvað er það sem við eigum við þegar við segjum „hlýjastur“? Hvað er norðanáttardagur? Þetta eru öllu þvælnari spurningar heldur en sú fyrsta. Svörin eru ætíð álitamál og þar með verður svarið við spurningunni um hlýjasta norðanáttardaginn einhvern veginn marklausari en áður, og jafnvel misjafnt eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar - örugglega misjafnt ætti frekar að segja.

Ritstjóri hungurdiska heldur úti þremur skrám þar sem giskað er á ríkjandi vindátt hvers dags á landinu langt aftur í tímann (auk tveggja sem aðeins ná til þessarar aldar - en eru nákvæmari). Sú sem hann notar mest reiknar meðalvigurvindátt hvers dags eftir athugunum á mönnuðum veðurstöðvum allt aftur til 1949. Hver dagur fær sína vindátt, meðalvindhraða og vigurvindhraða. Af hlutfalli vigur- og meðalvindhraða má reikna það sem ritstjórinn kallar festu eða festuhlutfall. Því nær sem það er einum, því fastari hefur hann verið á áttinni. Festan er að jafnaði marktækt meiri í miklum vindi heldur en hægum, og þar af leiðandi er hún að jafnaði meiri að vetri heldur en að sumri. Að sumarlagi þegar sólfarsvindar eru ríkjandi, eða vindur er mjög hægur er oft nánast tilviljun úr hvaða átt vigurvindurinn blæs, festan er þá lítil. Því má búast við því að á slíkum dögum sé áttin í raun illa ákvörðuð eða ónákvæm. Freistandi væri því að sleppa slíkum dögum þegar við leitum að hæsta eða lægsta hita hverrar áttar - eða telja þá sérstaklega. Um leið og við förum að gera slíkt getum við lent í miklum gagnaskógi og hætt að sjá skóginn fyrir trjám. Í því sem hér fer á eftir hefur vindáttunum 360 verið skipað á 8 höfuðáttir, hver átt fær 45 gráðu bil á hringnum.

Fyrsta verkefnið sem við leggjum upp með er einfalt. Við viljum vita hver hefur verið ríkjandi vindátt þá daga þegar landsdægurhámarksmet hafa verið sett. Byrjum á febrúarmánuði. Svo vill til að dægurmet hlaupársdagsins (29.febrúar) er frá því 1948, utan þess tímabils sem áðurnefnd skrá nær til, sama á við met þess 16. og 22. En hinir 26 dagarnir skila sér. Af þessum 26 dögum var sunnanátt ríkjandi 13 daga, en suðvestanátt 12 daga, einn dag segist austanátt hafa verið ríkjandi.

Þá spyrjum við um alla daga ársins (við náum áttgreiningu á 311 dögum) - 55 dægurmet eru eldri. Sunnan- og suðvestanáttin eiga langflesta metdagana, 225 samtals (72 prósent), austan- og suðaustanáttir eiga samtals 49 (16 prósent), vestan- og norðvestanáttir 17 (5 prósent) og norðan- og norðaustanáttir samtals 20 (7 prósent). Þetta með norðlægu áttirnar kemur dálítið á óvart, en þegar við athugum þessi tilvik hvert og eitt eiga þau sér sínar skýringar. Hrein norðanátt á 10 tilvik, í langflestum er vindur hægur og festuhlutfallið lágt, (innan við 0,4). Einstöku sinnum er líka hlýtt á Suðurlandi í norðansólskini að hásumri. Eitt tilvik sker sig úr, með bæði dágóða festu (0,9) og meðalvindhraða (9,8 m/s). Það tilvik þekkjum við vel, þetta er 4.júní 1997, í upphafi hretsins mikla sem þá gerði. Mettalan 24,0 stig á Akureyri tilheyrir leifum dagsins áður. Þetta met er því eitt þeirra bókahaldsmeta sem fylgir athugunarháttum - og við verðum að sætta okkur við - en truflar auðvitað athuganir eins og þær sem við stöndum hér í.

En spurningunni sem borin var fram í upphafi hefur ekki verið svarað. Til að geta gert það þurfum við líka að ákveða hvers konar hitaviðmið við eigum að nota þegar við tölum um hlýjasta daginn. Ekki er óeðlilegt að reikna meðalhita í byggðum landsins - ekki óskaplega umdeilanleg tala - en við sitjum þó uppi með hægviðrið - og tilviljanakennda átt. Í stað þess að leggja inn í sjálfan skóginn leitum við að þessu sinni aðeins að einu tré, þar sem við finnum hvaða dagur það er sem hefur verið hlýjastur norðanáttardaga í byggðum landsins á árunum 1949 til 2024, en við skulum líka leyfa okkur að finna hann fyrir bæði mannaðar og sjálfvirkar stöðvar.

Og dagurinn er 28. febrúar 2018, meðalhiti á landsvísu var 3,6 stig, hægur dagur og loftþrýstingur hár. Á sjálfvirku stöðvunum (1997 til 2024) lendir þessi dagur í öðru hlýjasta sæti norðanáttardaga, meðalhiti líka 3,6 stig. En 15. febrúar árið áður, 2017 nær rétt að toppa hann, nær 3,7 stigum - ómarktækur munur auðvitað.

Sannleikurinn er auðvitað sá að það ærir fljótt óstöðugan að halda utan um öll svona met, en maður sér nú ámóta gert í íþróttum þar sem farið er að halda utan um ótrúlegustu hluti. Við látum hér staðar numið - þótt freistandi sé að sitja áfram á millibarnum og fá sér góðan og sterkan gagnakokteil - rétt einu sinni.


Bloggfærslur 17. febrúar 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 152
  • Sl. viku: 1583
  • Frá upphafi: 2457243

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1436
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband