Djúp lægð?

Þótt skemmstu spár hafi staðið vel fyrir sínu þessa síðustu daga hefur hringl verið með mesta móti í 3 til 4 daga spám. Dæmi um það er lægðin sem á að koma að landinu á sunnudagskvöld. Í fyrradag (á fimmtudag) var hún að vísu talin verða nokkuð gerðarleg, en átti að fara yfir landið austanvert um 960 hPa í miðju - og ekki valda teljandi veðri að sögn evrópureiknimiðstövðarinnar. 

Síðan hafa ýmis afbrigði birst, eiga það þó sameiginlegt að gera lægðina mun dýpri heldur en áður hafði verið reiknað með. En enn er þó reiknað með að aðkoma hennar að landinu verði ekki af verstu gerð - miðað við dýptina sem í nýjustu spá reiknimiðstöðvarinnar á að vera 937 hPa í miðju. Þar með er komið niður í það sem verður að teljast óvenjulegt - og það er enn óvenjulegra að þessi lægsta tala á að vera í lægðinni norðan við land. 

w-blogg010225a

Við sjáum hér spákort sem gilda á um hádegi á morgun, sunnudag. Þá er sunnanátt á landinu, en mjög vaxandi lægðasvæði fyrir sunnan land. Fyrri lægðin virðist ekki ætla að ná sér verulega á strik - hefur eitthvað mistekist við stefnumót það sem myndaði hana. Þá er það spurning hvað gerist með aftari lægðina, dýpkunin mikla byggir á því að þessar lægðir geti á einhvern hátt sameinast. Það gerist þá helst þannig að aftari lægðin tekur fram úr þeirri fyrri - rétt austan við hana - þannig að hún nái að grípa hana með sér, en jafnframt hægir á - svo allt kerfið þýtur ekki langt norðaustur í haf - eins og vel gæti gerst. Fyrri lægðarmiðjan á nú að fara í stefnu á Suðvesturland, en sú síðari í stefnu yfir landið austanvert og dýpka verulega yfir landinu. Kannski þrýstingur komist niður fyrir 950 hPa á einhverri veðurstöð landsins. 

w-blogg010225b

Rúmum sólarhring síðar, kl.18 síðdegis á mánudag hafa lægðirnar sameinast og eru 937 hPa í miðju. Þótt spár séu ekki sérlega grimmar varðandi vind og úrkomu er samt allur varinn góður í stöðu sem þessari - ekki síst vegna þess hringls sem verið hefur í spánum. Það er furðuhlýtt í þessari lægð og sé það raunverulegt dregur það úr áhættu varðandi hana. 

En það er ekki oft sem 937 hPa lægðir sjást á þessum slóðum, þær eru algengari sunnan við land. Eitthvað óvenjulegt á ferð - og rétt að gefa gaum. 


Bloggfærslur 1. febrúar 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • w-blogg010225b
  • w-blogg010225a
  • w-blogg290125d
  • w-blogg290125c
  • w-blogg290125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (1.2.): 456
  • Sl. sólarhring: 586
  • Sl. viku: 1948
  • Frá upphafi: 2438472

Annað

  • Innlit í dag: 415
  • Innlit sl. viku: 1785
  • Gestir í dag: 381
  • IP-tölur í dag: 375

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband