Á miðvikudaginn

Við lítum, til gamans og fræðslu, á spákort sem gildir um hádegi á miðvikudaginn kemur, 8.október. Þetta er að vísu svo langt úti í framtíðinni að lítið vit er í því að fjalla um eiginlega veðurspá þess dags. Þó má segja að spár gera ráð fyrir því að allmikill vestanstrengur gangi yfir landið. Strengurinn á uppruna sinn í háloftunum. Dálítil kryppa á heimskautaröstinni sveigir til norðurs og yfir Suður-Grænland og þaðan austur til Íslands - og áfram.

Við að fara yfir Grænland verða til miklar flotbylgjur austan jökulsins, langt, langt upp fyrir hann. Þessar bylgjur ná að hrista veðrahvörfin svo að brot koma í þau. Raunar er nánast útilokað að reikna þessi brot nákvæmlega hvert fyrir sig, en það kemur hins vegar mjög vel fram í spám að um brotaástand er að ræða. 

w-blogg041025a

Kortið sýnir mættishita í Veðrahvörfunum. Mættishita gætum við líka kallað þrýstileiðréttan hita - því þetta er sá hiti sem væri í lofti væri það allt fært niður (eða upp) til 1000 hPa-þrýstings. Mættishiti rís (nær) allaf með hæð. Veðrahvörfin þekkjast á því að þar fer mættishitinn að stíga mun hraðar heldur en neðar (hiti hættir að falla með hæð). Það er þannig hægt að „finna“ veðrahvörfin með því að leita að þeirri hæð þar sem þessi breyting á hegðan mættishitans með hæð á sér stað. 

Litirnir á myndinni sýna mættishitann. Kann er mældur í Kelvinstigum (fyrst og fremst til að koma í veg fyrir rugling við hinn hefðbundna hita sem við mælum með hitamælum). Mjög háar tölur segja frá mjög háum veðrahvörfum - þau eru gul og brúnlituð á kortinu. Þar er loft mjög hlýtt og fyrirferðarmikið, veðrahvörfin eru hærri heldur en á blálituðu svæðunum þar sem veðrahvörfin eru miklu neðar. Þar sem snögg litaskil eru á kortinu er víðast hvar mikill vindur, veðrahvörfin eru brött. Kryppa rastarinnar sem minnst var á að ofan sést vel á kortinu. Sveigja liggur frá Labrador til norðausturs og síðan hvelfist hún austur um Grænland. Yfir Íslandi er svæði með lágum veðrahvörfum (blár litur), en stutt er í mun hærri veðrahvörf fyrir suðvestan land. Kröpp lægð er á hraðri ferð austur yfir landið. 

Bylgjubrotið, sem er ástæða þessara skrifa, kemur fram sem óreglulegir blettir milli Íslands og Grænlands. Þar bregst reiknireglan sem reynir að leita veðrahvörfin uppi - þau finnast ekki - leyst er úr því með því að setja einhverjar fastar ágiskanir inn. Þetta hefur þrátt fyrir allt þann kost að við sjáum þetta ólrólega svæði mjög vel. 

Eins og áður sagði er fullsnemmt að velta vöngum yfir veðrinu á landinu þennan dag, en spáð er nokkuð hvössum vindi af vestri. Við tökum þráðinn e.t.v. upp þegar nær dregur - ef tilefni gefst til. 


Bloggfærslur 4. október 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg041025a
  • w-blogg041025a
  • w-blogg021025a
  • w-blogg300925b
  • w-blogg300925a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.10.): 233
  • Sl. sólarhring: 246
  • Sl. viku: 1429
  • Frá upphafi: 2502786

Annað

  • Innlit í dag: 209
  • Innlit sl. viku: 1291
  • Gestir í dag: 197
  • IP-tölur í dag: 196

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband