Vindhraði og stormar (fleiri línurit)

Enn eru línurit á dagskrá, enn fleiri tímaraðir úr fórum ritstjóra hungurdiska. Í þetta sinn er sjónum beint að vindhraða og illviðratíðni. Illviðratíðnin er það atriði veðursögunnar sem ritstjórinn hefur lengst sinnt (ekki endilega þó best), eða allt frá árinu 1969.

Vindhraðaraðir eru erfiðar vegna fjölþættra samfelluvandamála sem koma upp. Vindathuganir hafa mjög breyst, mælum hefur fjölgað mjög mikið og þeir orðið mun betri heldur en þeir voru. Auk þess hafa orðið mjög miklar breytingar á stöðvakerfinu sem kunna að trufla samfelluna. En raðirnar eru þó settar hér fram í góðri trú og sömuleiðis von um að í framtíðinni megi leysa að minnsta kosti verstu samfelluvandamálin.  

w-blogg200125a

Fyrsta myndin sýnir einfalt meðaltal vindhraða í byggðum landsins. Fram til 2012 voru eingöngu notaðar athuganir á mönnuðum stöðum, en eftir það eingöngu á sjálfvirkum. Ekki er mikill munur á kerfunum tveimur fyrr en núna allra síðustu árin þegar mönnuðu stöðvarnar eru orðnar sárafáar. Súlurnar sýna meðalvindhraða einstakra ára, en ferillinn sýnir 10-árakeðju. Nokkur áraskipti eru greinileg. Vindhraði var t.d. áberandi meiri árin 2020 og 2015 heldur en annars hefur lengst af verið á þessari öld. Að sama skapi var hægviðrasamt árið 2010. Sé farið lengra aftur í tímann sjáum við að mjög illviðrasamt var á árunum í kringum 1990 og sömuleiðis stundum á áttunda og níunda áratugnum. Mjög hægviðrasamt var aftur á móti á árunum 1960 til 1965. Það er örugglega rétt að þau ár voru hægviðrasöm, en ritstjórinn hefur þó í huga ákveðið samfelluvandamál sem kann að hafa eitthvað að segja. Ætti þó ekki að muna nema einum til þremur tíunduhlutum í átt til vanmats vindhraðans.

w-blogg200125b

Við höfum áður litið á þrýstióróavísi. Hann hefur þann kost að vera algjörlega óháður vindhraðamælingum, og er ekki mjög margt sem getur skapað alvarleg samfelluvandamál í tímaröðum hans. Við litum á dögunum á breytileika hans síðustu 200 ár, en einbeitum okkur hér að tímabili vindhraðameðalatala, frá og með 1949. Árið 2015 og 2020 skera sig nokkuð úr - meðalvindhraði var þá líka mikill - og óróinn var sérlega lítill árið 2010, en þá var mjög hægviðrasamt. Einhver líkindi eru með þessum tveimur línuritum. 

w-blogg200125c

Þetta línurit ber þessa tvo ólíku veðurþætti saman. Þrýstióróann má lesa af lárétta ásnum, en meðalvindhraða af þeim lóðrétta. Við sjáum að samband virðist vera á milli. Fylgnistuðullinn er að vísu ekki mjög hár (0,51) en tengslin teljast hins vegar vel marktæk. Við tökum eftir því að árið 1949 liggur nokkuð út úr. Þrýstiórói var þá allmikill (enda mjög umhleypingasamt ár, en meðalvindhraði var hins vegar ekki mikill). Mjög mikil breyting var gerð á skeytalykli um áramótin 1948 til 1949 - rétt hugsanlegt er að hún eigi hér sök á. Tíma hafi tekið fyrir athugunarmenn að venjast nýja lyklinum (en þetta er auðvitað bara ágiskun út í loftið). Ár á þessari öld eru merkt með rauðu, vindhraðinn er fremur mikill miðað við þrýstióróann. 

w-blogg200125d

Til að sannfæra okkur betur um að eitthvað samband sé hér á milli lítum við einnig á sértaka mynd sem sýnir 10-árakeðjur þessara tveggja veðurþátta. Meðalvindhraðaferillinn er blár, en þrýstióróaferillinn er rauður. Við sjáum að þeir eru furðulíkir í forminu. Lágmark beggja ferla er á sama tíma, sömuleiðis hámarkið, minni lágmörk og hámörk eru einnig samtíma. Þess má geta að ritstjóri hungurdiska hefur (ásamt fleirum) ritað um þrýstióróann í svokölluð ritrýnd tímarit. Vitnað hefur verið í þær 87 sinnum - sem þykir sæmilegt. 

w-blogg200125e

Ritsjórinn reiknar einnig það sem hann kallar stundum stormdagavísi. Reiknar alla daga hlutfall þeirra stöðva þar sem 10-mínútna vindhraði hafur náð 20 m/s einhvern tíma dagsins. Fjöldi stöðva skiptir því litlu máli, að öðru leyti en því að þegar þær verða mjög margar  (í kerfinu) aukast líkur á því að einhver þeirra nái þessu marki. Þegar lagt er saman fyrir alla daga ársins getur munað um þessar stöku tölur - miðað við fyrri tíma þegar stöðvar voru miklu færri. Hér er því allra lægstu tölurnar skornar burt. Við skulum ekki hafa áhyggjur af tölum lóðrétta kvarðans, en trúa því að súpan sé samt nokkuð einsleit allan tímann þannig að breytileiki frá ári til árs og áratug til áratugar sé raunverulegur. 

Gerum við það kemur enn í ljós að stormar voru fáir í kringum 1960 og að miklir toppar komu um miðjan áttunda áratuginn og í kringum 1990. Síðustu árin hafa hins vegar sýnt mjög mikinn breytileika frá ári til árs - rétt eins og fram hefur komið á línuritunum hér að ofan. 

w-blogg200125f

Hér er hins vegar skorið meira. Taldir eru dagar þar sem hlutfallið áðurnefnda nær 25 prósentum allra veðurstöðva. Þetta eru þá hinir eiginlegu stormdagar. Sem fyrr var skipt um úr mönnuðum í sjálfvirkar athuganir 2013. Árið 2020 var sérlega illviðrasamt, virðist meira að segja hafa slegið út árið 1975, en árið eftir var hins vegar mjög rólegt. Samt erum við nú ekki fjarri þriðja toppi tímabilsins alls. 

w-blogg200125g

Á síðustu myndinni skerum við allt burt nema allra verstu dagana, það eru þeir dagar sem skarta 45 prósentum stöðva með 20 m/s eða meira. Enginn slíkur dagur kom allt árið í fyrra (2024), en það hefur svosem gerst alloft áður. Hér fer 2022 vel fram úr 2020 - ásamt 2015. Verstu árin eru í kringum 1990, árið 1993 á toppnum, síðan 1991, 1989 og 1975. Árið 1956 er einnig ofarlega á þessum kvarða. 

Við höfum séð að ekki er hægt að tala um einhverja langtímaleitni í vindhraða og ekki heldur í illviðratíðni. Sé um slíka leitni að ræða er hún að minnsta kosti minni en óvissa mæliraðanna. Við sjáum hins vegar bæði mikinn breytileika frá ári til árs sem og breytileika á milli lengri tímabila. Árið 2003 tók ritstjóri hungurdiska saman langa ritgerð um illviðri og illviðratíðni og birti í ritgerðaröð Veðurstofunnar. Var þar mun ítarlegri umfjöllun en hér er boðið upp á. Kannski er kominn tími á að uppfæra ritgerðina - eða kasta henni á haugana? 


Fyrstu tuttugu dagar janúar 2025

Fyrstu 20 dagar janúar 2025. Meðalhiti í Reykjavík er -0,2 stig, -0,7 stigum undir meðallagi sömu daga árin 1991-2020 og -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 18. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2002, meðalhiti þá ´4,1 stig, en kaldastir voru þeir árið 2023, meðalhiti -3,5 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 76. sæti (af 153). Hlýjastir voru dagarnir 20 árið 1972, meðalhiti þá +4,7 stig, kaldastir voru þeir 1918, meðalhiti þá -10,6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -2,6 stig, -1,8 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 og -1,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára, í 58. hlýjasta sæti síðustu 90 ára.
 
Að tiltölu hefur verið kaldast á Austfjörðum, þar raðast hitinn í 22. hlýjasta sæti aldarinnar (fjórða kaldasta), en mildast aftur á móti á Vestfjörðum þar sem hitinn raðast í 16. hlýjasta sætið.
 
Á einstökum veðurstöðvum er hefur verið hlýjast að tiltölu á Steinum undir Eyjafjöllum, +0,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Kaldast hefur verið á Egilsstaðaflugvelli, -1,8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 41,4 mm og er það um 70 prósent meðalúrkomu. Á Akureyri hafa mælst 44,0 mm og er það í meðallagi. Á Dalatanga hafa mælst 158,5 mm og er það um 40 prósent umfram meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 15,0 í Reykjavík, og er það í meðallagi, Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 1,6 og er það líka í meðallagi.

Bloggfærslur 21. janúar 2025

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 4
  • Sl. sólarhring: 266
  • Sl. viku: 2383
  • Frá upphafi: 2434825

Annað

  • Innlit í dag: 4
  • Innlit sl. viku: 2114
  • Gestir í dag: 4
  • IP-tölur í dag: 4

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband