Skemmtideildin með sýningu

Skemmtideild evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir nú (að kvöldi laugardags 22.júní) uppkast að veðri um næstu helgi. Það sýnir þetta kort hér að neðan:

w-blogg220624a

Kortið gildir síðdegis sunnudaginn 30.júní. Veðurkortavanir sjá strax hvað þetta þýðir - 20 til 25 stiga hita í innsveitum um mestallt land. Aðrir reikningar hafa ekki sýnt áform sem þessi - kannski er reiknimiðstöðin bara í einhverjum kosningaham - líkur á að þetta komist til framkvæmda eru sjálfsagt ámóta litlar og ýmsar skýjaborgir stjórnmálamanna. 

„Gervigreind“ reiknimiðstöðvarinnar viðurkennir þetta ekki (spáir sunnanstrekkingi og mígandi rigningu um stóran hluta landsins þennan sunnudag framtíðarinnar) - og sama má segja um bandarísku veðurstofuna - ekkert svona þar heldur. Við búumst því við því að í fyrramálið komi í ljós að hætt hafi verið við - 

En miði er möguleiki sagði einhvers staðar.

Viðbót - mánudaginn 24.júní. Það fór sem líklegast var - hætt var að spá þessum eðalhlýindum um leið og þau höfðu verið sýnd. Síðan eru tveir dagar. Nú ber svo við að aftur er lýst hlýindum þennan sama sunnudag (30.júní) - en það eru alls ekki þau sömu - bæði koma þau úr annarri átt, hægviðri ekki í boði - og þeim fylgir mígandi rigning sunnanlands (og þar með ekki teljandi hlýja). Aftur á móti er sagt að hlýindi heimsæki Norðaustur- og Austurland - örskamma stund - en svo um munar.

w-blogg220624v-a

Þetta er allt önnur staða en spáð var fyrir tveimur dögum. Sterk sunnanátt í lofti - en mikil hlýindi í mjórri tungu sunnanloftsins, þykktin meiri en 5640 metrar yfir Austurlandi - kannski 26 stig þar (ef til vill háskýjað). - Minnir nokkuð á stöðuna 23.júlí 1952 þegar óvenjuhlýtt loft „fauk hjá“ og sló mörg hitamet í háloftum yfir Keflavík (svo ótrúlega að varla getur verið rétt) - eða annan merkan dag 25.júní 1988 þegar hiti fór í 28,6 stig á Vopnafirði - þá „fauk“ líka óvenjuhlýtt loft hjá - en var farið áður en maður hafði snúið sér við. 

En þess virði að fylgjast aðeins með - þótt spárnar bregðist. 

Ennviðbót miðvikudag 26.júní:

Við einblínum enn á sama sunnudag, 30.júní. Nýjasta spáin (gerð eftir hádegi miðvikudag 26. júní) sýnir í megindráttum svipaða stöðu og við sáum í fyrradag - en þó er munur:

w-blogg220624v-aa

Sterkasti sunnanstrengurinn - og mesta rigningin er heldur vestar en á fyrra korti og háloftahlýindin ekki alveg jafnmikil og var. Þetta þýðir að helgarveðrið lítur heldur betur út hér á Suður- og Vesturlandi en það gerði í spánni fyrir tveimur dögum - ekki fari að rigna fyrr en eftir hádegi á sunnudag, og ekki er alveg sömu hlýinda von á Norður- og Austurlandi og reiknað var með - en samt ekki alveg búið að afskrifa þau. 

Loftið er þó mjög hlýtt. Þykkt yfir Suðvesturlandi er spáð 5610 m, sem er mikið - stundum er slík tala sú hæsta sem verður það árið. Hita í 850 hPa (um 1500 metra hæð) er spáð um +12 stig - það er líka mjög hátt - myndi ef vel hitti í háloftaathugun um það bil rétt nægja í topp fimm í júnímánuði, en þar sem þetta fýkur fljótt hjá er ekki víst að það hitti á athugun - þær eru aðeins gerðar tvisvar á sólarhring (þegar allt er í lagi). 

En - eins og áður er sagt standa „hitafleygar“ af þessu tagi stutt við og mjög tilviljanakennt er hvernig þeir „skila sér“ í hita á veðurstöðvum - það þarf að draga margar réttar tölur í veðurlottóinu.  


Bloggfærslur 22. júní 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 705
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband