Hret?

Kuldakast er nú komið inn í spár Veðurstofunnar. Við látum vaktina auðvitað sjá um hinar formlegu spár - enda fylgist ritstjórn hungurdiska ekki með stöðunni í þeim smáatriðum sem hún gerir. En spurt er um það hversu algeng norðanhret af þessu tagi eru eiginlega á þessum árstíma. Það er ekki alveg létt að svara því fyrirfram (spár geta brugðist). Við rifjum þó upp að mikið hret gerði 6. til 8. júní árið 2011 - var nokkuð ítarlega fjallað um það á hungurdiskum á sínum tíma. Snjó festi þá stutta stund í námunda við Selfoss.

Árið áður, 2010 gerði mikið hret með verulegri ófærð seint í maí. Árið 2002 gerði gríðarlegt norðaustanillviðri 17. og 18. júní - en það var talsvert ólíkt stöðunni nú. Svo er það hretið mikla snemma í júní 1997 - hungurdiskar hafa minnst á þessi hret 2002 og 1997 áður, en til stendur að gera þeim aðeins betri skil síðar (ef þrek endist). Jónsmessuhretið 1992 er nokkuð sér á parti. Einnig verður að nefna hretið mikla í kringum 10.júní 1983 - og stóru hretin 1975 og 1973 - það síðarnefnda fékk umfjöllun í pistli hungurdiska um það ár. Sömuleiðis mikið hret seint í júní 1968 og hretviðrin miklu í júní 1959. Sömuleiðis má nefna stórhretið síðast í maí 1952 og hið óvenjulega fannkyngi síðast í maí 1949. Fleira mætti telja.

En af þessari löngu upptalningu má sjá að hret eru ekki beinlínis sjaldgæf á þessum árstíma (síðustu dagana í maí og svo í júní). Í einum af pistlum hungurdiska um hretið 2011 segir að það sé eitthvað sem búast megi við um það bil einu sinni á áratug.

Það er ekki fyrr en eftirá sem við getum metið „hlutfallslegan alvarleika“ þess hrets sem nú er í spánum - en við skulum taka mark á þeim.

Viðbót 5.júní:

Tvö landsvindhraðamet júnímánaðar hafa verið slegin á vegagerðarstöðvum. Engin landsmet hafa verið slegin á öðrum stöðvum. 

Meðalvindur mældist 38,3 m/s á stöðinni á Öxi kl.17 þann 4.júní. Þetta er meiri meðalvindhraði en áður hefur mælst á vegagerðarstöð í júní. Næst koma 34,1 m/s sem mældust í Vatnsskarði eystra 19.júní 2001. Mælingar á Öxi hafa verið gerðar síðan 2006. 

Mesta vindhviða mældist nú 56,9 m/s, í Hamarsfirði þann 4. kl.4. Gamla metið var sett á Hraunsmúla í Staðarsveit þann 18.júní 2002, 55,8 m/s. Byrjað var að mæla í Hamarsfirði 2010. 

Meðalvindhraðamet júnímánaðar fyrir landið allt stendur, það er 41,9 m/s sem mældust á Skálafelli í hretinu mikla 4. júní 1997. Hviðan í Hamarsfirði er hins vegar meiri en mælst hefur hingað til á landinu í júní - sjá þó athugasemd hér að neðan:

Vindhraðamælingar á þeim stöðvum eru ekki alveg sambærilegar hefðbundnum stöðvum Veðurstofunnar. Sérstaklega á þetta við um hviðumælingar. Á hefðbundnum stöðvum eru hviður að sögn miðaðar við 3 sekúndur, en 1 sekúndu á vegagerðarstöðvunum. Ekki er fullljóst hverju munar í reynd á aðferðunum tveimur en alla vega eru þær ekki fullsambærilegar. Á báðum gerðum er meðalvindhraði miðaður við 10-mínútur, en að jafnaði eru möstur vegagerðarstöðvanna lægri heldur en hin hefðbundnu 10 metra möstur. 


Bloggfærslur 1. júní 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 708
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband