Samhengi

Oftast er hollt að líta á tölur í einhverju samhengi. Jú, það var fremur kalt í apríl, en fyrst og fremst miðað við það sem algengast hefur verið að undanförnu. Þótt hiti fyrri hluta maímánaðar sé rétt ofan við meðallag er hafa umræður samt verið þannig að allt hafi verið með kaldara móti (á Austfjörðum er staðan þó þannig að fyrstu 14 dagar mánaðarins eru þeir næsthlýjustu á öldinni). 

w-blogg160524i

Þetta kort sýnir þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar (heildregnar línur) og spá um hita í 850 hPa-fletinum (litir) sem gildir á hádegi á morgun, fimmtudag 16.maí. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hér eru tölur í metrum, þykkt yfir landinu miðju 5340 metrar. Við Skotland er hún meiri en 5540 metrar, en innan við 5180 metrar við austurströnd Grænlands - munar um 18 stigum (sem er býsna mikið), en Ísland svona mitt á milli. 

Til að lesa úr korti sem þessu þarf helst að vita hvað er venjulegt og hvað ekki. Þykktin (og hiti) hækka ört í maímánuði - við lítum á þykktargreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar (era5-endurgreininguna) dagana 11. til 20.maí 1940 til 2022 og teljum tilvik. Til að gera lárétta ásinn (sem sýnir þykktina) skýrari notum við dekametra sem einingu, 530 dekametrar eru 5300 metrar. Tölurnar á lóðrétta ásnum sýna fjölda tilvika á hverju þykktarbili.

w-blogg160524a

Algengasta þykktin er 530 dekametrar (5300 metrar). Þykktin sem spáð er á morgun er aðeins meiri, en í flokki algengustu mælinga. Í um 75 prósent allra tilvika er þykktin á milli 5240 og 5420 metra. Um 12 prósent eru neðan við 5240 metra og um 13 prósent ofan við 5420 metra. Mjög kaldir og mjög hlýir dagar. 

Við skulum taka sérstaklega eftir tvennu. Annars vegar virðist teygjast meira úr „kalda“ halanum heldur en þeim hlýja. Sennilega er kuldinn snarpari heldur en hlýindin. Hitt atriðið - mjög mikilvægt - er að viðburðirnir sem er verið að telja eru ekki alveg óháðir hver öðrum - talið er á 6 klukkustunda fresti, en bæði einstök kuldaköst og hitabylgjur standa lengur við - þannig að hverju miklu kuldakasti fylgir slatti af lágum tölum - og öfugt. Helmingur þeirra talna sem eru 5100 metrar og lægri eru úr sama kuldakastinu, því sem einhvern tíma var kennt við Krossmessuna 1955 (og ritað var um í tímaritið Veðrið). 

Lítum nú aftur á tölurnar á kortinu. Talan yfir Skotlandi er hærri heldur en þykkt hefur nokkru sinni orðið yfir Íslandi dagana 11. til 20. maí - og við sjáum að allar tölur nærri 5500 og þar ofan við þessa daga yrðu að teljast mjög óvenjulegar. Lægsta talan 5180 væri líka óvenjuleg, en höfum séð slíkt hér yfir landinu í 70 tilvikum (ekki þó óháðum) á undanförnum 80 árum rúmum. Við föllumst á að telja það óvenjulegt líka. 

Eins og sagði í upphafi hækkar hiti mjög ört í maí. Algengasta þykkt yfir landinu 21. til 30.maí er 5410 metrar - (aðeins minna munar þó á meðalþykkt þessara tímabila). Hæsta þykkt er þá 5550 metrar. 

Svo má rifja upp að lítil þykkt er miskunnarlítil, hún sýnir sig sem kuldi í flestum landshlutum og mestallan sólarhringinn. Mikil þykkt getur hins vegar svikið, sjávarloft - eða úrkoma getur mjög spillt fyrir áhrifum hennar. Í hverjum landshluta fyrir sig þarf hún á ákveðnum vindaskilyrðum að halda - vindur þarf helst að standa af landi - best er að ský þá sem minnst að þvælast fyrir - að auki tefur hún ekki fyrir útgeislun - heiðrík nótt getur orðið furðuköld undir mikilli þykkt - eins gott að sólardagur hafi nýst vel. Allrabest nýtur mikillar þykktar sé glampandi sól að deginum, en hóflega skýjað yfir nóttina - og nægilegur þrýstivindur sé fyrir hendi til að halda hafgolu í skefjum. Vandasamt mál. 

Þrátt fyrir að veður hafi verið afskaplega tíðindalítið nú um hríð hafa spár verið fjörugar - það hefur bara ekkert orðið úr neinum öfgum þótt þær hafi birst hvað eftir annað innan sjóndeildarhrings spánna - allar verið einskonar hillingar. Í augnablikinu (eftir hádegisrunu reiknimiðstöðvarinnar) sjást hlýindahillingar seint í næstu viku - þykktinni er spáð vel yfir 5500 metrar - og hita þar með yfir 20 stigum á landinu. - En við skulum ekki trúa slíku að sinni. 

Á morgun lítum við vonandi á hitastöðu fyrri hluta maímánaðar.


Bloggfærslur 15. maí 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • w-blogg030924c
  • w-blogg030924b
  • w-blogg030924a
  • w-blogg020924a
  • w-blogg020924b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 2
  • Sl. sólarhring: 65
  • Sl. viku: 2640
  • Frá upphafi: 2389937

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 2250
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband