Vetrarhiti 2023-24 í byggðum landsins

Við reynum nú (eins og stundum áður) að reikna meðalhita íslenska vetrarins, frá fyrsta vetrardegi til þess síðasta. Að vísu er einn dagur eftir þegar þetta er skrifað - en það munar engu í niðurstöðunni. Talan sem fæst út er -0,2 stig, -1,2 stig neðan meðallags síðustu tíu ára og sú lægsta síðan veturinn 1998-99. 

w-blogg230424

Til að geta reiknað þurfum við að vita landsmeðalhita (í byggð) á hverjum degi vegna þess að íslenski veturinn hrekkur til í dagsetningum. Hann byrjaði óvenju seint síðastliðið haust (rímspillir), en er samt 180 dagar eins og venjulega (íslenska sumarið er hins vegar mislangt vegna sumaraukans). Miklar breytingar hafa orðið á stöðvakerfinu í þessi rúmlega 70 ár og þess vegna er ekki hægt að gera ráð fyrir mjög mikilli nákvæmni í reikningunum - hægt væri að reikna á aðra vegu en hér er gert og fá út lítillega aðrar tölur. Sú er þó sannfæring ritstjórans að það skipti ekki miklu. Veturinn í vetur er t.d. greinilega kaldari heldur en allir aðrir allt frá 1998-99 - eins og áður sagði - og ekki munar miklu á honum og þeim vetri. Veturnir 1996-97 og 1994-95 voru greinilega kaldari. Á þessu tímabili var kaldast veturinn 1967-68. 

Reiknuð leitni er þrátt fyrir þetta um +1 stig á öld. Væri enn meiri ef við gætum teygt okkur öld eða meira til baka - eins og við höfum stundum gert fyrir bæði Reykjavík og Stykkishólm þar sem við eigum daglegar tölur lengra aftur en við eigum í þessu tilviki. Veturinn í vetur var mun jafnari heldur en sá í fyrra. Þá komu talsvert kaldari mánuðir, en hann reiknast samt hlýrri heldur en sá nýi - nóvember sá um það, hlýjasti nóvember allra tíma. Það kostar að vera með slíkan mánuð í farteskinu - ekki var þannig nú. Einnig var nokkuð hlýtt í febrúar í fyrra, en síður nú. 

Hvernig framtíðin verður vitum við auðvitað ekkert um - frekar en venjulega. Ekkert vitum við heldur neitt um sumarið þótt ekki skorti véfréttarlega spekina frá reiknimiðstöðum heimsins. En kannski skiljum við hana ekki - frekar en forngrikkir sínar véfréttir - þótt réttar væru. 


Bloggfærslur 23. apríl 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg010125i
  • w-blogg010125
  • w-blogg271224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (3.1.): 62
  • Sl. sólarhring: 1074
  • Sl. viku: 2733
  • Frá upphafi: 2426590

Annað

  • Innlit í dag: 59
  • Innlit sl. viku: 2436
  • Gestir í dag: 58
  • IP-tölur í dag: 58

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband