Sérviskulegt einkahugtak

Erfitt veður var víða um landið norðan- og austanvert í dag, páskadag. Færð spilltist og fjölmargir lentu í erfiðleikum á vegum úti og jafnvel innanbæjar í hvassviðri og blindu. Frést hefur af snjóflóðum á vegum. Full ástæða til aðgætni. Veðurstofan gaf út viðvaranir eins og vera ber. 

Fyrir fáeinum dögum gáfu spár til kynna að einmitt í dag, páskadag, myndi veðurkerfi fara yfir landið af því tagi sem ritstjóri hungurdiska hefur í sérvisku sinni kosið að nefna „þverskorinn kuldapoll“. Eftir því sem hann best veit kemur það hvergi fyrir í veðurfræðitextum öðrum, þó rétt hugsanlegt að einhverjir ámóta sérvitringar erlendir hafi nefnt þetta einhversstaðar - þá undir einhverju öðru nafni.

Í þessu tilviki er fyrirbrigðið í minna lagi og var ritstjórinn jafnvel vantrúaður á að einhver vandræði hlytust af framhjáhlaupi kuldapollsins, en svo vel fór sumsé ekki - þótt stórvandræði verði vonandi ekki. Ritstjórinn hefur lengi gefið þverskornum kuldapollum gaum (þótt aðrir geri það ekki) og hefur fengið framleitt sérstakt kort sem sýnir vel hvenær svona nokkuð er á ferðinni. 

w-blogg310324a

Svæðið er sérvalið - flestir leiðindavaldandi kuldapollar koma úr norðri eða norðvestri.  Heildregnar línur sýna sjávarmálsþrýsting. Hæð er yfir Grænlandi (yfir 1040 hPa), en mikið lægðasvæði rétt utan korts við Bretland. Litirnir sýna hæð 500 hPa-flatarins. Meginhæðin þar er við Vestur-Grænland (H). Meginkuldapollur er utan kortsins, en minni pollur hefur snarast út úr straumnum austan Grænlands og er á kortinu yfir Íslandi (L). Hér sést megineinkenni þverskorins kuldapolls mjög vel - vel skilgreind háloftalægð er þverskorin af jafnþrýstilínum sem lítið sem ekkert taka þátt í sveigju háloftastrauma. Mjög skýrt - ekki öflugt, en samt nóg til þess að valda umræddum leiðindum. 

w-blogg310324b

Næsta kort er alveg hefðbundið háloftakort úr 500 hPa-hæð. Jafnhæðarlínur þéttar dregnar en á hinu kortinu (þar sem litir voru notaðir). Vestan lægðarinnar er vindur stríður af norðri og norðaustri, en austan hennar er öllu hægari suðvestanátt. Lægðin kom hratt norðan úr hafi og fer hratt til suðvesturs til morguns og verður fljótt úr sögunni. 

Svo vill reyndar til að annar pollur, heldur minni þó, á enn að snarast út fyrir norðan land og gera spár ráð fyrir því að hann fari yfir landið aðra nótt (aðfaranótt þriðjudags). Hugsanlega versnar veður þá aftur - en kannski verður sú þróun kæfð í fæðingu.

w-blogg310324c

Síðasta myndin í dag sýnir annað sérviskukort ritstjóra hungurdiska (svona kort er hvergi annars staðar að finna). Hér sýna heildregnar línur sjávarmálsþrýsting, en litir sýna svokallaðan stöðugleikastuðul. Við förum ekki nánar út í hann, nema að við nefnum að hann er vísir á stöðugleika veðrahvolfs, milli 850 hPa-flatarins og veðrahvarfa. Á brúnu svæðunum er stöðugleikinn mjög lítill, loft á auðvelt með að velta - lóðrétt samskipti lofts eru auðveldari en ella. Við sjáum snúningsform kuldapollsins vel í sveigjum brúnu litanna. Þetta kerfi á nú að fara hratt til suðvesturs og á að vera ekki langt undan strönd Nýfundalands á þriðjudagskvöld og á miðvikudag - spár eru ekki sammála um hvort Ganderflugvelli verði lokað um stund - (trúlega verður það ekki). 

En þau eru mörg elliviðfangsefnin.  


Bloggfærslur 31. mars 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 85
  • Sl. sólarhring: 337
  • Sl. viku: 2852
  • Frá upphafi: 2427404

Annað

  • Innlit í dag: 67
  • Innlit sl. viku: 2555
  • Gestir í dag: 65
  • IP-tölur í dag: 65

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband