Hringrásarslef

Ritstjóri hungurdiska hefur alloft í gegnum árin slefað um „stað Íslands“ í hringrás lofthjúpsins. Rétt eins og landið er nærri 65°N og 20°V á það sér einnig stað í hringrás lofthjúpsins, í norðurjaðri háloftavestanvindabeltis norðurhvels, á milli háloftalægðardrags yfir austanverðri Norður-Ameríku (Baffinsdragið) og veiks háloftahryggjar fyrir suðaustan land (Golfstraumshryggurinn). Þetta þýðir að suðlægar áttir eru algengari í háloftunum heldur en norðlægar, gróflega helmingi fleiri sunnan- heldur en norðanáttardagar. 

Neðst í lofthjúpnum er landið hins vegar norðan vestanvindabeltisins, austlægar áttir eru ríkjandi á landinu. Landið mótar vind mjög í neðstu lögum og er tíðni vindátta umhverfis það einnig mjög mótað af hinu mikla hálendi Grænlands í vestri. Grænland er raunar svo hátt að  verulegra áhrifa þess gætir einnig hátt í lofthjúpnum. 

Í neðri hluta veðrahvolfs fellur hiti nærri Íslandi um um það bil 0,7 stig á breiddargráðu þegar horft er á árið í heild. 

w-blogg211224 

Myndin hér að ofan birtist áður í pistli hungurdiska fyrir rúmum þremur árum (26.október 2021). Hún sýnir ársmeðalhita sem fall af breiddarstigi (norðurhvels). Við skulum þó taka eftir því að ekki er farið langt suður í hitabeltið og að hiti við miðbaug er ekki yfir 40 stig - eins og mætti halda væri aðfallslínan framlengd að miðbaug. Umhverfis línuna er töluverð dreif. Punktarnir ofan línunnar eru stöðvar þar sem hiti er hærri en hann „ætti að vera“ miðað við breiddarstig. Reykjavík (og Ísland almennt) eru þar á meðal. Meðalhiti áranna 1961 til 1990 (en auðveldast var að finna gögn fyrir það tímabil við gerð myndarinnar) í Reykjavík er 4,3 stig. Aðfallslínan segir að hann ætti að vera -2,1 stig, munar 6,4 stigum. Við getum tekið eftir því að 4,5 stigin eiga frekar heima suður á 55. breiddargráðu. Einfalda skýringin á þessu ósamræmi fellst í tvennu, annars vegar yljar sjórinn okkur meginhluta ársins, en hins vegar er það hin ríkjandi suðlæga vindátt háloftanna og áður var minnst á.

Það að sunnanátt sé ríkjandi er auðvitað engin tilviljun heldur er það skipting jarðar í úthöf og meginlönd sem veldur. 

w-blogg211224b

Myndin sýnir meðalbreiddarstig 5400 metra jafnhæðarlínu 500 hPa-flatarins í janúar, gróflega norðurjaðar heimskautarastar norðurhvels. Lóðrétti ásinn sýnir landfræðilega breidd, en sá lárétti lengdarstig - vesturhvel til vinstri, (rúmt) austurhvel til hægri. Bláa strikalínan er sett nærri 20°V, lengdarstig Íslands (sem er reyndar alveg ofan við myndina). Lengst suður gengur kalda loftið við austurströnd Asíu. Þó hér sé aðeins um eina jafnhæðarlínu að ræða getum við samt ráðið í hvort ríkjandi vindstefna hvers lengdarstigs sé suðlæg eða norðlæg. Til að ráða í vindstyrkinn (og nákvæmari stefnu) þurfum við fleiri jafnhæðarlínur. Við sjáum alla vega að suðlæg átt er ríkjandi í veðrahvolfinu miðju á lengdarstigi Íslands - og raunar yfir mestöllu Atlantshafi norðanverðu. 

En nú má spyrja hversu læst þessi staða er. Við vitum að frá degi til dags bregður mjög frá henni, jafnvel getur hún raskast talsvert mánuðum saman, en þegar komið er ár eða meira er mesta furða (nánast kraftaverk) hvað hún heldur sér. Við vitum dæmi þess að sunnanáttin hafi brugðist í heilt ár, en það er alveg sárasjaldan og önnur merkileg staðreynd er sú að stefnan hefur aldrei - á ársgrundvelli komist suður fyrir suðvestur. Algengast er að hún sé af vestsuðvestri, nokkurn veginn í stefnu af Hvarfi syðst á Grænlandi. Bendir það til þess að Grænland sé líka eitt af því sem ræður mjög veðurfari á Íslandi. 

Menn hafa reynt að þátta ástæður hlýindanna hér á landi. Ekki er um það fullt samkomulag því flestir orsakavaldar hafa áhrif hver á annan og því erfitt að segja nákvæmlega hvað er hvað. Ef við teiknum ámóta dreifirit og ársritið hér að ofan fyrir janúar og júlí kemur í ljós að hlýja vikið hér við land er enn meira á vetrum heldur en að sumarlagi. Tækjum við þau dreifirit bókstaflega ætti meðalhiti janúar í Reykjavík að vera -13,8 stig (en ekki -0,6 stig - eins og var 1961-1990), munar meiru en 13 stigum. Meðalhiti í júlí ætti hins vegar að vera 11,5 stig, en er 10,5 stig. Að sumarlagi er hiti hér sum sé sjónarmun lægri en meðallag breiddarstigsins. 

Hér förum við að taka eftir öðru. Hitaspönn ársins (munur á hlýjasta og kaldasta mánuði) í Reykjavík var 11,1 stig (1961-1990). Meðalhitaspönn breiddarstigsins er hins vegar 24,3 stig. Ísland er umkringt sjó og hann (ásamt sunnanáttinni) bjargar vetrarhitanum. En hversu miklu máli skiptir hvort um sig? Og hvers vegna er sjórinn svona hlýr. Þegar við förum að hugsa um það flækjast málin. Áhrifum sjávarins má skipta í að minnsta kosti tvo þætti. Annars vegar er það sú staðreynd að hann geymir varma næstliðins sumars mun betur heldur en landið gerir. Hluti af vetrarvarmanum er því þannig til kominn. Annan hluta flytja straumar norður til okkar. Sá hluti er raunar tvískiptur líka. Annars vegar er sá hluti sem vindurinn knýr - sem er lægðaganginum og suðvestanátt háloftanna að þakka og hins vegar óljósari hluti sem lóðrétt streymi vekur (svokölluð veltuhringrás/varma-seltuveltihringrás heimshafanna). Sú hringrás er enn og aftur háð fjölmörgum þáttum (við rekjum þá ekki hér og nú - en á marga þeirra hafa hungurdiskar reyndar minnst á áður). 

Þegar veðurfar breytist hratt (eins og það virðist vera að gera þessi árin) vill verða erfitt að halda utan um alla þessa króka og útúrdúra. Það er fjölmargt sem getur hrokkið til. Við vitum þannig alls ekki hvort allir þessir hringrásarþættir eru stöðugir í hlýnandi heimi. Hringrás lofts og hafs er að gefa okkur 6 stig í forgjöf á ársgrundvelli. Það er rétt hugsanlegt að þessi forgjöf muni haldast í breyttu veðurfari. Með því er átt við að hlýni um tvö stig á heimsvísu, muni línuritið að ofan haldast óbreytt að öðru leyti en því að allar hitatölur hækki um 2 stig. Hér muni því líka hlýna um 2 stig. En - svo eru hinir möguleikarnir tveir auðvitað líka mögulegir: Að forgjöfin minnki - eða að hún aukist. Tilfinning ritstjórans er heldur sú að annað hvort muni forgjöfin haldast óbreytt - eða þá að hún minnki, frekar en að hún aukist. Vonin er þá sú að hún minnki ekki mikið. 

En sú hlýnun - á heimsvísu - sem er í kortunum af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa er nægilega mikil til þess að hún gæti valdið lítilsháttar stefnu- eða styrkbreytingum ríkjandi vindátta í háloftunum nærri Íslandi - slíkt hefði áhrif. Taka verður fram að ekkert bendir þó til þess að slíkar breytingar hafi átt sér stað - engin áreiðanleg merki um þær hafa enn fundist (sem útilokar þær þó ekki). Reikningar hafa sýnt að veltihringrásin áðurnefnda er viðkvæm fyrir truflunum. Ritstjóri hungurdiska hefur þó ekki tiltakanlegar áhyggjur af þeim orsakavöldum sem oftast eru nefndir, en hefur hins vegar áhyggjur af öðrum truflanaþáttum sem ekkert (eða lítið) hefur verið fjallað um. Það hefur ekki enn tekist að ná utan um allt kerfið - jafnvel þótt hlýnun á heimsvísu sé næsta vís. 

Við sjáum til hvort eitthvað meira verður um þetta fjallað á hungurdiskum - eða hvort nóg er komið. 


Bloggfærslur 22. desember 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.12.): 46
  • Sl. sólarhring: 239
  • Sl. viku: 1008
  • Frá upphafi: 2421108

Annað

  • Innlit í dag: 42
  • Innlit sl. viku: 882
  • Gestir í dag: 40
  • IP-tölur í dag: 40

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband