Óvissudæmi

Undanfarna daga hefur verið óvissa af skemmtilegra taginu í spám reiknimiðstöðva. Það er alltaf óvissa, oftast af óljósum ástæðum, en stundum mjög áberandi. Þannig er staðan einmitt nú. Taka verður fram að vel má vera að þessi ástæða sem hér er gerð að umfjöllunarefni verði horfin í næstu spárunum, strax í dag, en svo getur hún líka orðið viðvarandi næstu daga. 

Lítum á nokkur spákort (myndin batnar sé hún stækkuð).

w-blogg111224a

Þetta eru klippur úr hefðbundnum norðurhvelsháloftakortum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi, en þykkt er sýnd i lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Bláu litirnir sýna kalt loft, en þeir gulu og brúnu hlýtt. 

Fyrsta kortið (efst til vinstri) sýnir stöðuna í dag, miðvikudaginn 11.desember. Vindrastir háloftanna hlykkjast um kortið, meginröstin liggur frá miklu lægðardragi yfir Norður-Ameríku um Ísland og austur til Síberíu. Nokkrir hlykkir eru á röstinni, áberandi bylgja (merkt c) á kortinu er við Ísland og veldur sunnanátt hennar rigningu og hlýju veðri hér á landi í dag, en berst hratt til austurs og öllu kaldara loft fylgir síðan á vesturhlið hennar. Mikil framsókn af hlýju lofti er austan við ameríska lægðardragið (þar sem merkt er með bókstafnum a). Þessi framsókn ryður upp nýjum hrygg sem hingað verður kominn á laugardag (kortið efst til hægri). 

Það skiptast á hryggir og lægðardrög í röstinni. Langflestar bylgjurnar brotna fram yfir sig, þannig að þær hafa tilhneigingu til að loka kalda loftið úr næstu bylgju á undan inni fyrir sunnan röstina. (Heldur færri bylgjur brotna hins vegar aftur fyrir sig - þá lokast hlýtt loft inni á norðurslóðum). Röstin er sum sé svo óstöðug að hún er ýmist að loka inni hlýtt loft norðar en það á erindi, en kalt sunnar. Sá er munur á þessum afskornu hæðum og lægðum að hæðirnar eru hlýjar, en lægðirnar kaldar. 

Kaldar afskornar lægðir hafa verið viðvarandi við Miðjarðarhaf í haust, loftið í þeim hefur sífellt verið endurnýjað - að norðan, en lokast af vegna atgangs rastarinnar í norðri. Á korti dagsins (efst til vinstri) má sjá svona lægð, hún er merkt með bókstafnum b. 

Á kortinu efst til hægri hefur lægð þessi þokast til vesturs og er á laugardag komin vestur fyrir Kanaríeyjar. Hún er þá ekki eins köld og áður, hlýr sjórinn hefur yljgað henni og er að belgja hana frekar út af raks. 

Óvissan sem minnst var á í upphafi fylgir þessari suðlægu og hlýnandi lægð. Á síðasta kortinu, því sem er í neðra horni til vinstri og gildir á þriðjudag í næstu viku virðist lægðin vera að ná sambandi við enn eitt lægðardragið sem meginröstin er að bera til austurs. Úr getur orðið innskot í röstina úr suðri, rakaþrungið og hlýtt. Hitti það vel í kalda bylgju úr vestri getur orðið umtalsverður vöxtur úr. Hitti ekki í lokast lægðin annað hvort af aftur (og eyðist smám saman) - eða hún straujast sem ritstjórinn kallar sem svo - tætist í sundur á suðurjaðri vindrastarinnar, án þess að ná nokkrum vexti, en styrkir röstina sem heild. 

Undanfarna daga hafa spár verið með ýmsum hætti. Evrópureiknimiðstöðin kom með fyrstu hugmynd um samband rastar og lægðar, en bandaríska veðurstofan afneitaði slíku gersamlega. Reiknimiðstöðin linaðist þá heldur - en þá fór sú bandaríska að gera sig líklegri - en ekki svo mjög. 

Ritstjóra hungurdiska finnst svosem líklegast að ekki verði mikið úr, en mun þó fylgjast spenntur með til lokadags því hlutirnir eru fljótir að gerast. Önnur óvissa - óþekkt gæti þó orðið á undan til að breyta öllu. Slíkt er alvanalegt. 


Fyrstu tíu dagar desembermánaðar 2024

Meðalhiti fyrstu tíu daga desember 2024 er -0,1 stig í Reykjavík, -1,1 stig neðan meðallags sömu daga áranna 1991 til 2020 og -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 16. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar 2016, meðalhiti þá 7,1 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -4,8 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 96. hlýjasta sæti (af 151). Dagarnir 2016 eru þar einnig í toppsæti, en í því neðsta eru sömu dagar 1887, meðalhiti þá -7,2 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú -1,6 stig, -1,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020 en í meðallagi síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið kaldast við Faxaflóa og Breiðafjörð, hiti raðast í 16. hlýjasta sæti aldarinnar, en hlýjast (að tiltölu) hefur verið á miðhálendinu, þar raðast hitinn í 11. hlýjasta sæti (af 24). Miðað við síðustu tíu ár hefur verið kaldast á Hornbjargsvita, vikið þar -1,4 stig, en hlýjast á Sauðárkróksflugvelli þar sem hiti hefur verið +1,6 stigum yfir meðallagi síðustu tíu ára.
 
Úrkoma hefur mælst 31,9 mm í Reykjavik og er það í meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 8,5 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Á Dalatanga hafa mælst 55,7 mm, það er ríflegt meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 7 í Reykjavík og er það nærri meðallagi, en sólarlaust hefur verið á Akureyri (eins og alloft í desember).

Bloggfærslur 11. desember 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b
  • w-blogg071224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.12.): 508
  • Sl. sólarhring: 511
  • Sl. viku: 2135
  • Frá upphafi: 2418889

Annað

  • Innlit í dag: 448
  • Innlit sl. viku: 1885
  • Gestir í dag: 402
  • IP-tölur í dag: 387

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband