Af reykjavíkurhitanum

Við höfum endrum og sinnum hér á hungurdiskum litið á stöðu 12-mánaðakeðjuhitameðaltala. Í apríl í fyrra, 2023 var síðast drepið niður fæti í Reykjavík og er það sem hér fer á eftir bein framlenging á því. Ástæðan e.t.v. sú að nú er útlit fyrir að við fáum kaldasta ár í Reykjavík í tæp 30 ár. Það er töluverður tími, það var t.d. ekki fyrr en komið var fram á síðasta hluta níunda áratugarins að ritstjóri hungurdiska gat farið að tala um að hann myndi meir en 30 ára veðurlag. Það sama mun eiga við um þá sem nú eru á fertugsaldri, að þeir muna ekki vel veður langt aftur fyrir aldamót. Hitafar í ár hlýtur því að marka nokkur tíðindi í tilfinningu þeirra veðurgleggri í þeirra hópi, þótt við gamalmennin látum okkur fátt um finnast (eins og venjulega).

w-blogg101224a

Fyrri myndin sýnir 12-mánaðakeðjur hita frá aldamótum. Í kringum þau hlýnaði verulega frá því sem verið hafði áratugina á undan og hafa nær öll ár síðan verið hlý. Hlýnunin kom eiginlega öll í einu þrepi á árunum 2002 til 2004. Síðan hefur ekkert hlýnað, en verulega köld ár hafa þó ekki látið sjá sig fyrr en e.t.v. nú, en það er þó ekki kaldara en svo að það er í meðallagi áranna 1966 til 1995. Bláu súlurnar á myndinni sýna 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á þessum tíma. Fyrsta gildið er sett við janúar 2001, það er hiti tímabilsins febrúar 2000 til janúar 2001. Síðan er haldið áfram. Síðasta gildið nær til desember 2023 til nóvember 2024.

Rauði ferillinn er settur inn til gamans (gerir myndina ólæsilegri að vísu). Þetta er samskonar ferill fyrir 24 ár (tæp) á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld. Hann byrjar á meðaltali mánaðanna febrúar 1925 til janúar 1926, en endar á desember 1948 til nóvember 1949. Síðara hlýja tímabilið er heldur hlýrra en það fyrra - rauði ferillinn er oftast neðan við þann gráa.

Á fyrra tímabilinu er hlýjast um 1929, 1939, 1941 og 1946, en á því síðara 2003, 2004, 2010, 2014, 2016 og 2019. Á síðara tímabilinu er einna kaldast 2015 og 2018, og svo nú. Á fyrra tímabilinu er kalt 1930, í kringum 1936, 1943 og síðan langkaldast 1949. Segja má að sá kuldi hafi staðið þar til í lok árs 1952 og jafnvel lengur. Eftir það komu nokkur mjög hlý ár (aðallega hlýir vetur) þar til að kólnaði snögglega 1965 eins og alkunna er. Stærð sveiflna á milli ára er ekkert ósvipuð á tímabilunum tveimur - ræðast aðallega af tíðni vindátta og uppruna þess lofts sem um landið leikur á hverjum tíma.

w-blogg101224b 

Síðari myndin sýnir 30 ára keðjumeðaltal hitans eins og það blasir við í baksýnisspeglinum á hverjum tíma. Síðasta gildið á bláa ferlinum tekur til tímabilsins desember 1994 til nóvember 2024, en það fyrsta á við febrúar 1971 til janúar 2001. Á rauða ferlinum á fyrsta gildið við febrúar 1896 til janúar 1926, en það síðasta frá desember 1919 til nóvember 1949. Á báðum tímabilunum er 30-ára hitinn smám saman að hrista af sér kulda fortíðarinnar og hækkar eftir því sem á líður, heldur örar á því síðara heldur en því fyrra. Hlýnunin er í báðum tilvikum mjög mikil. Halli rauða ferilsins samsvarar 2,8°C/öld, en þess bláa 3,5°C/öld. Ef við rýnum í ferlana sjáum við að meiri sveigjur eru á bláa ferlinum, hlýnunin var sérlega snörp í kringum hann miðjan, þegar árin ofurköldu í kringum 1980 voru að hverfa út úr honum og ofurhlý ár að taka við. Á síðustu árum hefur heldur minni munur verið á þeim árum sem detta út og þeirra sem hafa komið inn. Þannig hagar til að næstu 4 til 6 ár gæti blái ferillinn haldist í svipaðri stöðu (jafnvel þótt fleiri ámóta „köld“ ár og það núlíðandi komi inn). Aftur á móti mun hann eiga erfitt með hækkun eftir það, því þá þurfa methlý ár að koma inn í stað hinna gríðarhlýju ára eftir 2002. Yngri og miðaldra veðurnörd geta fylgst spennt með því, við, þau elstu förum að týna tölunni úr þessu.

Við vitum auðvitað um framhald rauða ferilsins, hæsta gildi hans kom um 12 árum eftir þann enda sem við sjáum hér, hann toppaði í júnílok 1961 (frá júlí 1931, rauð strikalína) - eftir það fór hann niður á við og náði lágmarki í októberlok 1995 (grá strikalína), en hefur hækkað síðan. Fór síðan framúr fyrra hæsta hámarki í ágúst 2016 (blái ferillinn), og hefur verið ofan við það síðan.

Bláa strikalínan neðarlega á myndinni sýnir stöðu 30-árakeðjunnar í lok árs 1895, meðaltal áranna 1866 til 1895. Hún er um 0,6 stigum neðan við þá gráu (kaldasta 30-ára meðaltal síðara kuldaskeiðs). Má segja að það muni hnattrænni hlýnun - gróflega.

Ritstjóri hungurdiska mun vonandi halda áfram að gefa þróuninni gaum (á ýmsa vegu).

 


Bloggfærslur 10. desember 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b
  • w-blogg071224a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.12.): 512
  • Sl. sólarhring: 514
  • Sl. viku: 2139
  • Frá upphafi: 2418893

Annað

  • Innlit í dag: 450
  • Innlit sl. viku: 1887
  • Gestir í dag: 404
  • IP-tölur í dag: 389

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband