Kosningaveðrið 1979 - stutt upprifjun

Árið 1979 var, eins og nú, kosið til Alþingis um mánaðamótin nóvember/desember. Menn höfðu af þessu nokkrar áhyggjur sem komu fram í skrifum og í útvarpi. Samkomulag var þó um að líkur á því að illviðri spillti kosningunum að mun væru litlar. Ritstjóri hungurdiska vann við veðurspár um þetta leyti, bæði á spádeild Veðurstofunnar og kom fram í sjónvarpi.

Eftir að kosningadagar voru endanlega ákveðnir spurðu margir um veður - eða öllu heldur líkur á kosningahamlandi illviðri á kjördag. Ritstjórinn lenti - eins og aðrir veðurfræðingar - í því að svara, m.a. rámar hann í viðtal í útvarpi - og í sama skipti hafi verið rætt við fulltrúa Vegagerðarinnar um almenna færð á þessum árstíma. 

Í framhaldi af þessu skrifaði ritstjóri hungurdiska pistil um illviðralíkur. Þar sagði m.a.:

Niðurstöður þessara hugleiðinga eru því þær að líkur á skaðaveðri kosningadagana eru litlar, en hins vegar séu töluverð líkindi á samgönguvandræðum i einstökum landshlutum, i fullu samræmi við tölur vegagerðarinnar. Hins vegar minnka líkur stórlega ef dagar eru tveir eða fleiri. 

Í lok pistilsins er einnig eftirfarandi að finna (dálítið einkennilegt að lesa þetta nú, 45 árum síðar). Taka má fram að kjördagarnir tveir voru sunnudagur og mánudagur:

Flugmálastjóri lét hafa eftir sér í fjölmiðlum að veðurfar hefði verið öðruvísi og öllu hægara hin síðari ár en verið hefði lengi. Þetta er alveg rétt. En við vitum að þessu ástandi mun linna, en við vitum ekki hvenær. Við vitum ekki hvort veturinn í vetur mun skipa sér í hóp með síðustu þremur hægu vetrum. Við getum ekkert sagt um slíkt fyrirfram. Út i Washington eru nú gefnar út 5 daga veðurspár, sem stundum má ráða í fyrir okkur hér svo vit sé í. En þó er það upp og ofan. Ef heppni verður með má því e.t.v. leiða líkur að kosningaveðrinu á miðvikudag fyrir kosningar. Slík spá yrði þó ónákvæm og ekki mjög áreiðanleg, en samt. 

En hvernig varð svo veðrið? Sannleikurinn er sá að það reyndist veðurspámönnum nokkuð taugatrekkjandi, jafnvel þótt spár væru alls ekki út og suður eins og stundum gerðist á þessum árum. Mesta óvissan var tveimur dögum fyrir kosningarnar. Ljóst var að lægðin sem nálgaðist landið var mjög djúp, en hvernig hana bæri að var meira vafamál. 

w-blogg171024i

Þetta varð þó skýrara á laugardeginum 1. desember. Kortið að ofan sýnir hvernig era-interim endurgreiningin sýnir lægðina snemma að morgni þess 1. Þá gerði allmikið landsynningsveður, sem þó stóð ekki lengi. Skil lægðarinnar fóru yfir og að baki þeim var mun betra veður, skúrir og síðan él. Nú fólst óvissan fyrst og fremst í tvennu. Annars vegar því hvort hinn mikli vestanstrengur sunnan lægðarinnar myndi ná inn á landið en hins vegar því hvort miklum norðaustanstreng á Grænlandssundi myndi slá inn á Vestfirði. Hvort tveggja slapp til - að mestu. 

w-blogg171024ii

Þetta sjáum við á síðara yfirlitskortinu. Það sýnir veðrið á hádegi fyrri kosningadaginn. Allmikill vestanstrengur liggur um landið sunnan- og austanvert, en hagstætt lægðardrag er yfir landinu sjálfu. Öflugur norðanstrengur er að vísu vestan við lægðina, en versti hluti hans er þó vel norðan við land. Í framhaldinu gekk vestanáttin niður, það bætti um stund í norðanáttina, einkum við Húnaflóa og einnig norðaustanlands - en gekk fljótt niður.

w-blogg171024a

Hér má sjá veðrið klukkan 15 fyrri kosningadaginn. Þá er snjókoma á Vestfjörðum - og hríð var á Ströndum. Nokkur snjór var inn til landsins á Norðausturlandi, en þar var veður allgott. Vestanáttin var um stund nokkuð stríð á Austfjörðum. Eins og sjá má er nokkuð hvasst við suðurströndina og á Reykjanesi í éljagangi - en þetta lagaðist. Talsverður snjór var inn til landsins suðvestanlands - en olli þó ekki teljandi vandræðum, því væg hláka var þegar vindur var hvað mestur. 

w-blogg171024b

Síðasta myndin gefur yfirlit. Rauði ferillinn sýnir lægsta þrýsting á landinu á hverjum athugunartíma dagana 26. nóvember til 5. desember. Tímakvarðinn er láréttur. Kosningadagarnir eru til hægðarauka merktir sem blátt strik á myndinni. Grámerktu súlurnar sýna hins vegar þrýstispönn landsins, mismun á hæsta og lægsta þrýstingi á hverjum athugunartíma. 

Allmikil lægð kom að landinu þann 28. og við sjáum vel að þrýstispönnin er yfir 15 hPa í um það bil sólarhring. Vindur var mestur á Vestfjörðum og stóð af norðaustri. Hálfgert vandræðaveður. Lægðin gekk síðan hjá og föstudaginn 30. var landið á milli lægða. Þá var óvissa veðurspámanna hvað mest. Aðfaranótt 1. féll loftvog mjög ört, þrýstispönnin óx og komst upp í 26,7 hPa kl.6 um morguninn (fyrsta kortið hér að ofan sýnir þá stöðu). Svo vildi til að þetta var um hánótt og færri en ella urðu því varir við þetta vonda veður. Eins og glögglega sést gekk það hratt niður, en þrýstispönnin var samt á bilinu 12 til 15 hPa mestallan daginn - og langt fram eftir kosningadeginum, þ.2. Þá var vestanáttin hvað hvössust. En veðrið mátti heita gengið niður fyrir kvöld og daginn eftir, þ.3. (síðari kosningadaginn), var alveg vandræðalaust veður. 

Við sjáum að þrýstingurinn féll örast áður en skilin fóru yfir að morgni þess 1. Síðan hélt hann áfram að falla allan þann dag - þegar köld lægðarmiðjan nálgaðist. Þessu fylgdi umtalsverð óvissa. Loftvogin fór lægst niður í 945 hPa aðfaranótt kosningadagsins. Óvenjulágt gildi. Spurningin var þá hvað væri handan lægðarinnar. Þar sem lægðin fór síðan að grynnast og skildi eftir sig lægðardrag yfir landinu sluppum við vel - og veðurspámenn þóttu heldur sitja uppi með að hafa gert of mikið úr þessu veðri - meira en ástæða var til - að sögn. En svo einfalt var málið ekki - eins og hér hefur vonandi verið skýrt út.

Við skulum að lokum rifja upp fáeinar fréttir af veðri og byrjum aðeins á fyrri lægðinni. Morgunblaðið segir frá fimmtudaginn 29.nóvember:

Ofsarok gekk yfir Vestfirði og Vestfjarðamið í fyrrinótt og í gær (28.). Símasambandslaust varð við Vestfirði klukkan 18 í gær og var svo enn um miðnættið. Vindur mældist víða á Vestfjörðum 10 stig í gær og í Æðey mældist vindhraðinn allt að 85 hnútum, sem jafngildir 13 til 14 vindstigum. Trausti Jónsson veðurfræðingur sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að útlitið nú með veður kosningadagana 2. og 3. desember væri frekar dökkt. „Það er slæm lægð, sem í dag er yfir miðríkjum Bandaríkjanna, sem við eigum von á að verði hér við land á laugardag eða sunnudag“, sagði Trausti.

Þann 4. birtust fréttir af kosningaveðrinu. Morgunblaðið segir frá þriðjudaginn 4.desember:

Vetrarkosningunum lauk í gærkvöld, en mjög víða var kjörfundi slitið eftir fyrri dag kosninganna, þ.e. á sunnudagskvöld. Kjörsókn var milli 80 og 90% og sums staðar heldur meiri. Veður hamlaði ekki framkvæmd kosninga að ráði, en tafði sums staðar að kjörgögn bærust á talningastað og hafa kosningar því gengið vonum framar að því er kjörstjórnarmenn upplýstu.

Síðan kom heil opna með fréttum utan af landi. Víðast hvar fór vel með veður. Við grípum þó fáeina brot á lofti:

Hólmavík [3.] : Veður var ágætt hér um slóðir í gær [2.], en í gærkvöldi fór þó að snjóa og er hér nú allmikill snjór. Færð á þó að vera góð fjögurrahjóladrifsbílum. Fólki gekk yfirleitt vel að komast á kjörstað, en þó var það nokkrum erfiðleikum bundið í Árneshreppi, þar sem sumir voru allt að þrjá tíma á leiðinni á kjörstað, leið sem venjulega er farin á hálftíma.

Staður í Hrútafirði: Veður var hér ágætt og færð á vegum góð, nema hvað einhverja ófærð gerði á Holtavörðuheiði. — Magnús.

Raufarhöfn, 3. desember: Veður var hið ágætasta þar til síðasti atkvæðaseðillinn datt ofan í kjörkassann, þá skall á glórulaus stórhríð.

Kópaskeri, 3. desember: Hér áttu menn von á hríðarveðri í allan gærdag, en ekkert varð úr og var veður hið ákjósanlegasta og færð mjög góð á vegum. — Ragnar.

Borgarfirði eystra, 3. desember: Veður var slæmt hér á kjördaginn, vestanrok og svo mikil hálka var að hættulegt var að fara milli húsa. Þrír bílar fuku út af veginum utan við þorpið og einn maður slasaðist talsvert, rifbrotnaði meðal annars, en hefur þó enn ekki verið fluttur á sjúkrahús, hvað sem síðar verður ákveðið. Í dag er hér ágætis veður og snjór er ekki mikill á jörðu, en hins vegar talsverð svellalög. — Sverrir.

Mjóifjörður: Það var mikil steypa hér út fjörðinn í gær og fólkið á Reykjum komst því ekki hingað yfir til að kjósa, sagði Sigfús Vilhjálmsson bóndi og hreppstjóri á Brekku í Mjóafirði í samtali við Morgunblaðið í gærdag. — Það kom þó ekki í veg fyrir að þeir gætu kosið, sem vildu, því að í dag er hérna blíðuveður og Reykjafólk kom yfir í dag og kaus.

Akureyri, 3. desember 1979: Ungur maður varð úti á Svalbarðsströnd nú um helgina, og fannst lík hans laust eftir hádegi i gær, sunnudag. Hann ... fór að heiman á bíl sínum snemma á laugardagsmorgun [1.], og var ekki vitað hvert hann ætlaði. Þegar eftirgrennslanir á laugardag báru ekki árangur, var leit hafin að honum á sunnudagsmorgun. Félagar í Hjálparsveit skáta og Flugbjörgunarsveitinni á Akureyri tóku þátt í leitinni ásamt mönnum af Svalbarðsströnd og úr Öngulsstaðahreppi. Um hádegi fannst bíll [] mannlaus og læstur á veginum hjá Geldingsárbrú, og nokkru síðar fannst [] örendur skammt utan og neðan við bæ á Geldingsá. Vonskuveður hafði verið á þessum slóðum á laugardag, hvassviðri og skafrenningur. - Sv.P

Þannig að þótt vel tækist til með kosningarnar var samt ekki alveg vandræðalaust veður (eins og þjóðsögur nú herma). Við látum þetta duga - og felum Veðurstofunni og öðrum til þess bærum aðilum að sinna veðurspám fyrir kosningarnar 30.nóvember næstkomandi. 


Bloggfærslur 18. október 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2024
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg171024b
  • w-blogg171024a
  • w-blogg171024ii
  • w-blogg171024i
  • w-blogg151024c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.10.): 42
  • Sl. sólarhring: 290
  • Sl. viku: 2604
  • Frá upphafi: 2402284

Annað

  • Innlit í dag: 29
  • Innlit sl. viku: 2261
  • Gestir í dag: 29
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband