12.10.2024 | 21:18
Meira af kulda (í Möðrudal)
Síðastliðna nótt (aðfaranótt 12. október) mældist frost -17,7 stig í Möðrudal (á Efra-Fjalli - eins og sagt var hér áður fyrr). Veðurstöðin er hæsta byggðastöð landsins 452 metra yfir sjávarmáli. Góð skilyrði eru þar til myndunar grunnstæðra hitahvarfa - til þess að gera sléttlent. Stöðin á 124 af 366 landsdægurlágmarksmetum landsins - þar af þrjú með Grímsstöðum á Fjöllum. Flest þessara meta eru frá tíma mönnuðu stöðvarinnar, en sjálfvirka stöðin er þó - á okkar hlýindatímum - búin að hirða tíu (metið í nótt það tíunda). Í kyrrstöðutíðarfari eru sett 2 til 4 ný landsdægurlágmarksmet á ári, en þeim hefur áberandi fækkað í þeim hlýindum sem hafa verið ríkjandi síðustu áratugi.
Á síðari árum hafa stöðvar bæst við til fjalla, mun hærra í landi heldur en byggðir ná. Þær stöðvar hafa auðvitað náð í mörg dægurmet, en það er ákveðin tregða hjá ritstjóra hungurdiska að telja þær með í langtímasafni byggðastöðvanna. Möðrudalur á samt enn 94 landsdægurlágmarksmet á samkeppnislista allra stöðva.
Nokkur árstíðasveifla er í metasækni Möðrudals. Stöðin er líklegri til að setja landsdægurmet að vetrarlagi heldur en á sumrin. Eftir að sól hefur brætt allan snjó á vorin hitar hún jarðveginn sem síðan sér um að forða metum yfir blásumarið - svona yfirleitt, Möðrudalur á þannig aðeins fjögur landsdægurlágmarksmet í júlí og tvö í júní - þau ættu að vera tíu í hvorum mánuði dreifðust þau jafnt á alla mánuði ársins.
Hitamælisaga Möðrudals er býsna köflótt. Byrjað var að athuga þar í júlí 1886, en fjölmargar eyður eru í mæliröðinni, sumar langar, t.d. frá því í apríl 1902 til mars 1903. Árið 1907 lenti athugunarmaður upp á kant við dönsku veðurstofuna og féllu þá athuganir niður í tvö ár.
Verstu götin komu þó á tímabilinu 1930 til 1944 og síðan aftur frá 1964 til 1976. Eftir það voru gerðar mannaðar mælingar til 2010. Sjálfvirkar mælingar byrjuðu síðan árið 2003 þannig að nokkur ár eru til samanburðar. Sáralítill munur var á ársmeðalhita sjálfvirku og mönnuðu stöðvanna, reiknast 0,0 stig, en lítilsháttar munur er á mánaðarmeðaltölum, ástæðan fellst trúlega í ónákvæmni í dægursveifluáætlun fyrir mönnuðu stöðina. Ætti að vera að hægt að leiðrétta hann þegar farið verður í endurskoðun reikninga á meðalhita stöðvarinnar.
Í nótt (12.október) var einnig mikið frost á Grímsstöðum á Fjöllum, -15,8 stig. Hefði það orðið nýtt landsdægurmet hefði Möðrudalur ekki gert enn betur. Eldra metið var -13,9 stig, sett í Möðrudal 1996. En -14,4 stig mældust við Setur sunnan Hofsjökuls 1999. - Nýja metið í Möðrudal hirti því stig af hálendinu í dægurmetakeppninni (sem nördin fylgjast spennt með - alla daga).
Þetta (-17,7 stig) er óvenjumikið frost svo snemma hausts. Við vitum um tvö eldri tilvik með meira frosti í Möðrudal fyrr. Það var 27. september 1954 þegar frostið mældist -19,6 stig. Þykir jafnvel ótrúlegt, því þótt sérlega kalt hafi verið um þær mundir munar nokkru á þessari tölu og þeirri næstlægstu. Við lítum nánar á það hér að neðan. Hitt tilvikið var 9. október 1892 þegar frostið mældist -18,2 stig - við lítum líka nánar á það hér að neðan. Litlu munar á mælingunni nú og þeirri úr Svartárkoti 3.október 2008, -17,4 stig, í hrunkuldanum svokallaða. Um hann má lesa í gömlum hungurdiskapistli.
Við skulum (sumum e.t.v. til gamans - en öðrum til þrautar) líta á athuganir í Möðrudal dagana köldu í september 1954 og október 1892. Um þessi ár almennt má lesa í yfirliti hungurdiska (1954) og (1892).
Skeytabókin úr Möðrudal í september 1954 er nokkuð snjáð - athugunarmaður (Jón Jóhannesson) ekki lagt í hreinritun - enda er stundum varasamt að standa í slíku. Myndina má stækka.
Möðrudalur var skeytastöð á árinu 1954, sendi skeyti fjórum sinnum á dag - og gerði athugun kl.21 að kvöldi þar að auki. Hver athugun náði þvert yfir opnu í skeytabókinni - hita- og úrkomumælingar (og fleira) á vinstri síðu, en skeyti á þeirri hægri. Í efstu línu er hitamæling kl.21 þann 26. september. Þá sýnist hiti vera 64 stig. Í skeytalykli þess tíma var ekki hægt að senda mínusmerki. Það var leyst með því að draga 50 frá hitanum (og sleppa svo mínusmerkinu: -14-50=-64, sent sem 64). Flestir athugunarmenn skrifuðu þó þá tölu aðeins í skeytadálkinn (við sjáum hann ekki) - en hér hefur Jón notað 64 fyrir -14. Starfsmaður Veðurstofunnar hefur síðan krotað í það með rauðu - sett mínus fyrir framan og krotað töluna 1 ofan í 6. Heildarmyndin verður því subbulegri en hún var í frágangi athugunarmanns - og gerir allt ólæsilegra nú 70 árum síðar.
Í næstu línu er athugunin kl.9 að morgni þess 27. Í fyrsta dálki er hiti á loftvog (sem ekki var notuð - en kannski er þetta hitinn inni í húsinu í Möðrudal, líklega 11,5 stig. Síðan kemur hitinn -18,0 stig og nokkrum dálkum þar aftan við er lágmarkshitinn, -20,0 (eða 70 eins og athugunarmaður ritar). Hámarksaflestur er þar aftan við, 55,0 stig, eða -5,0. Neðan við lágmarkshitatöluna (í sviga) er síðan svokölluð sprittstaða lágmarksmælisins. Það er sá hiti sem mælirinn sýnir þegar athugun er gerð, 68,4 stig (-18,4). Í hinum fullkomna heimi á hún að vera sú sama og hiti þurra mælisins (aðalmælis) sýnir, en munar 0,4 stigum í þessu tilviki, sprittstaðan er -0,4 stigum lægri (en hún ætti að vera. Þessi munur er reiknaður á hverjum degi í gegnum mánuðinn. Þá fæst út líkleg leiðrétting á lágmarksmælinn - og svo vill til að í þessum mánuði er meðalskekkjan einmitt 0,4 stig. Stigin -20 sem lesin voru af lágmarksmælinum verða þannig að -19,6 stigum - það er mettalan. Lægsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í september.
Við sjáum af þessum tölum öllum að ekki er ástæða til að efast um að afspyrnukalt hafi verið þessa nótt, en aftur á móti er engin von til þess að fullyrða að lágmarkstalan hafi einmitt átt að vera -19,6. Yfirferð á athugununum sýnir að tilhneigingar gætir til að lesa af öllum mælum með 1 stigs nákvæmni (ekki er það þó alveg regla). Sú nákvæmni er alveg nægileg til að reikna mánaðarmeðalhita, en neglir ekki met á tíundahluta. Hefði sjálfvirk stöð verið í Möðrudal eru talsverðar líkur á að lokatalan hefði orðið önnur heldur en -19,6 - en ekki langt í frá þó.
Handritið úr Möðrudal frá 1892 lítur allt öðru vísi út.
Afskaplega hreint og snyrtilegt allt saman hjá Stefáni Einarssyni. Greinilegt afrit, sem undirritað var 1. apríl 1893. Við tökum strax eftir því að enginn lágmarksmælir var á staðnum - og að lesið er í heilum stigum. Danska veðurstofan hefur strikað með rauðu undir lægsta og hæsta hita mánaðarins. Þann 4. og 5. fór hiti í +5 stig kl.14. Hvaða klukku Stefán notaði vitum við ekki - líklega sólina á þessum tíma árs, líklega er þetta þá um kl.15 að okkar tíma. Að morgni þess 9. mældist hitinn -18 stig.
Hér er því við sama vanda að etja og áður. Talan er ekki nákvæm nema upp á eitt stig, hvort stöðin sem er á staðnum í dag hefði mælt nákvæmlega -18,0 er mjög óvíst, raunar ólíklegt.
Þess má geta að október 1892 var almennt talinn hagstæður og stilltur mánuður, þó árið í heild sé eitt það kaldasta sem við vitum um.
Þeir sem rýna í blaðið geta séð blýantsfærslur í aftasta dálki og sömuleiðis skrifað t -0,2 (neðst til hægri á myndinni). Við vitum að það er leiðrétting sem danska veðurstofan notar á hitann. Kannski könnuðu þeir mælinn áður en hann var sendur á stöðina. Lægsta tala mánaðarins verður þannig -18,2, og landsdægurlágmarksmet þ.9. sem staðið hefur allt til okkar daga.
Tölurnar í aftasta dálki sýna meðaltal þriggja athugana á dag. Sumar veðurstofur notuðu slík bein meðaltöl við reikninga mánaðarmeðaltala. Danska veðurstofan gerði það ekki, þar á bæ var leiðrétt fyrir skorti á næturathugun - rétt eins og enn er gert. Bandaríska Smithsonian-stofnunin var áskrifandi að klukkumeðaltölum dana og reiknaði meðaltöl fyrir íslenskar stöðvar sem beint meðaltal - rétt eins og við sjáum í blýantsdálkinum hér. Vetrarhelming ársins er ekki mikill munur á slíkum reikningum og þeim aðferðum sem danska veðurstofan notaði (og þeim sem Veðurstofan notar í dag). Á sumarhelmingi ársins er hins vegar vel marktækur munur, svo mikill að bandaríska veðurstofan (og aðrir aðilar vestra) þurfa að leiðrétta allar eldri tölur frá Íslandi (eins og auðskilið hlýtur að vera) til að ná samræmi við mælingar síðustu áratuga. Sumarhiti fortíðarinnar eru þannig lækkaður. Margir fást ekki til að skilja nauðsyn þessarar ákveðnu leiðréttingar.
Vísindi og fræði | Breytt 13.10.2024 kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2024 | 02:47
Kalt - en hversu óvenjulegt?
Það er heldur svalt þessa dagana. Ritstjóri hungurdiska lítur alloft á töflur sem sýna tíðni mismunandi þykktar yfir landinu. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því lægri sem hún er, því kaldara er loftið. Þessi þykktarmælikvarði getur hins vegar verið nokkuð langt frá réttu lagi þegar kemur að hita á einstökum veðurstöðvum. Þar geta staðbundin hitahvörf ráðið mjög miklu, sérstaklega á björtum og hægum nóttum.
Myndin - sem við lítum á okkur veðurnördum til hugarhægðar (við þurfum lítið) sýnir tíðni þykktargilda yfir landinu samkvæmt era5-endurgreiningunni fyrri hluta októbermánaðar. Hún nær hér til tímabilsins 1940 til 2022 - og mælt er á 6 klst fresti, 4980 mælingar alls. Núna - þegar þetta er skrifað - er þykktin um 515 dekametrar (5150 metrar) - við sjáum á myndinni að það er mjög lágt (merkt með lóðréttri strikalínu), en langt frá lágmarksmetinu, sem sett var 1971. Þá kom alveg sérlega kaldur dagur. Árið 1971 var síðast hafísáranna svonefndu - og satt best að segja væntu menn þess að 1972 yrði líka hafísár - svo skæð kuldaköst gerði þegar vindur snerist til norðurs þetta haust. En ekkert varð úr því, veturinn varð í hópi þeirra hlýrri, einn fárra hlýrra vetra á kuldaskeiðinu sem við enn minnumst.
Það eru alls 76 tilvik sem eru jafnlág eða lægri heldur en það sem við nú upplifum - aðeins um 1,5 prósent allra tilvika. Þau dreifast langt í frá jafnt - koma í klösum og eru flest raunar úr miklu og nokkuð langvinnu kuldakasti í fyrri hluta október 1981 (sem eldri nörd muna vel). Mun færri eru úr áðurnefndu kasti 1971 og síðan svona á stangli gegnum árin. Raunar voru nokkur (samliggjandi auðvitað) tilvik í fyrra, en annars ekki síðan 2010 og 2009.
Dreifingin hegðar sér annars nokkuð skikkanlega. Hún er þó skökk - halinn kaldara megin er mun lengri heldur en sá hlýi. Er þess að vænta hér á landi - kuldaköst tengjast kuldapollum eða köldum lægðardrögum en hlýindi hlýjum hæðum eða hæðarhryggjum. Meiri fyrirferð er í þeim síðarnefndu heldur en lægðunum og lægðardrögunum - sem eru að jafnaði snarpari.
Það er skemmtilegt þrep í dreifingunni á milli 523 og 524 dekametra og raunar e.t.v. annað hinumegin á milli 549 og 548 dam. Eitthvað raunverulegt sjálfsagt við þessi þrep.
Bloggfærslur 12. október 2024
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (2.2.): 70
- Sl. sólarhring: 709
- Sl. viku: 1972
- Frá upphafi: 2438783
Annað
- Innlit í dag: 63
- Innlit sl. viku: 1808
- Gestir í dag: 62
- IP-tölur í dag: 62
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010