Mikill gangur

Við lítum á fáein veðurkort. Mikill gangur er í veðrakerfum á Norður-Atlantshafi þessa dagana. Við virðumst þó í stórum dráttum eiga að sleppa við verstu lægðirnar, en bæði má lítið út af bregða og að auki eru éljagangur og bleyta á víxl nokkuð erfitt veðurlag fyrir þá sem þurfa að vera á ferðinni - sem eru víst flestir. 

Við notum tækifærið og lítum á fáein veðurkort. Enn skal tekið fram að ritstjóri hungurdiska gerir ekki spár og vísar hann sem fyrr á Veðurstofuna og aðra til þess bæra aðila. 

Við sluppum vel í gær þegar lægð fór í óðavöxt fyrir norðaustan land og hefur í dag valdið verulegu illviðri í Norður-Noregi. Svo virðist sem ný lægð hlaupi í óðavöxt á miðvikudag og á hún líka að fara til Noregs - en á aðeins suðlægari braut en sú fyrri og hittir því landið á öðrum stað. 

w-blogg290124a

Kortið er úr fórum evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um miðnætti annað kvöld (þriðjudag 30.janúar). Við sjáum kuldapollinn Stóra-Bola við Baffinsland og teygir hann klaufir sínar yfir á Grænlandshaf. Grænland heldur mesta kuldanum í skefjum. Mjög ákveðin suðvestanátt er í háloftunum yfir landinu og lægðarbylgja sunnan við land. Þar er norðmannahrellirinn á ferð. 

Ef vel er að gáð má sjá að misgengi er á milli jafnhæðar- og jafnþykktarflata. Ritstjóri hungurdiska segir að loftið sé riðið (jafnhæðarlínugerðirnar tvær búa til netmöskva). Gul ör bendir á stað nærri þeim þar sem nýja lægðarmiðjan er. Þar er 500 hPa hæðin um 5160 metrar, en þykktin 5280 metrar (mörk græna og bláa litarins). Þrýstingur er lægstur þar sem þykktin er mest á jafnhæðarlínu. Við getum auðveldlega reiknað þrýstinginn með því að finna mun á 500 hPa hæðinni og þykktinni, hann er -120 metrar en það jafngildir -15 hPa, 1000 hPa-flöturinn er í -120 metra hæð, þrýstingur við sjávarmál því 1000-15 hPa = 985 hPa. Kannski er lægðin aðeins dýpri, við eigum erfitt með að sjá hvar nákvæmlega munurinn á milli hæðar og þykktar er mest neikvæður. [Væri útkoman jákvæð, væri sjávarmálsþrýstingur hærri en 1000 hPa sem því nemur]. 

Við sjáum vel á kortinu að mjög stutt bil er á milli bæði jafnhæðar- og jafnþykktarlína. Ef 5160 jafnhæðarlínan næði í 5460 metra jafnþykktarlínuna (gula svæðið, sem ekki er langt undan, væri sjávarmálsþrýstingurinn ekki 985 hPa heldur 963 hPa, 22 hPa lægri. Það er einmitt þannig sem lægðin dýpkar, 500 hPa flöturinn er fallandi og lægri og lægri jafnhæðarlínur fá undir sig meiri þykkt. 

w-blogg290124b

Næst förum við upp í 300 hPa-flötinn á sama tíma. Kortið sýnir hæð hans, vind og hita (litir). Lægðarinnar sér ekki beinlínis stað á þessu korti - við höfum þó merkt staðsetningu hennar til hagræðis. Við sjáum að meðan köld framrás fylgdi lægðinni á fyrra korti er hér öfugt farið - hlýr blettur eltir lægðina. Við erum hér ofan veðrahvarfa. Kalda loftið neðan veðrahvarfanna dreifir úr sér og þar með dragast veðrahvörfin niður og loftið ofan þeirra hlýnar. Þó við sjáum ekki lægðina getum við samt nokkurn veginn giskað á hvar hún er (ekki nákvæmlega þó), hlýi bletturinn kemur upp um hreyfingu hennar (og dýpkun). Veðrahvörfin (og 300 hPa-flöturinn) dragast niður - það veldur því að það bætir í vindhraða undir þeim og vindur verður líka ívið suðlægari - þá skerpir bæði á kalda loftinu á eftir lægðinni og því hlýja á undan henni - lægri jafnhæðarlínur færast ofan á meiri þykkt (hlýrra loft). Næsta kort sýnir stöðuna 18 klst síðar.

w-blogg290124c

Lægðin er nú komin að strönd Noregs. Þar hefur 4920 metra jafnhæðarlínan (tekist hefur að draga veðrahvörfin ámóta niður) náð í 5340 metra þykkt (sem myndar lokaðan hring við lægðarmiðjuna). Lægðin er komin niður í 947 hPa þar undir. Hún er reyndar svo kröpp að við höfum ekki alveg hitt á réttan stað fyrir örina (mestan mun hæðar og þykktar), reiknimiðstöðin spáir 943 hPa í miðju. Hvort það verður rétt er önnur saga. Því er spáð að lægðin dýpki um meir en 40 hPa á 18 klst, sannkallaður óðavöxtur. 

w-blogg290124d

Við pökkum saman með korti sem sýnir sjávarmálsþrýsting og 3 klst þrýstibreytingu á sama tíma og kortið næst að ofan. Í miðju hvíta blettsins hefur þrýstingur stigið um 26 hPa á 3 klst. Þetta er með því allra mesta sem sést, viðurkennt Íslandsmet er 33 hPa á 3 klst, frá 1949. Þá var veðurstaða að mörgu leyti svipuð og er þessa dagana. 

Við skulum taka eftir því að vestan Íslands er líka hámark í þrýstistigi, en þó ekki „nema“ tæp 11 hPa á 3 klst. Það er þó nógu mikið til þess að líklega er stormur einhvers staðar í nánd - sennilega sunnan Reykjaness og austur fyrir Vestmanneyjar. 

Fylgist með spám - ef þið eigið eitthvað undir veðri. 


Bloggfærslur 29. janúar 2024

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.1.): 90
  • Sl. sólarhring: 340
  • Sl. viku: 2857
  • Frá upphafi: 2427409

Annað

  • Innlit í dag: 72
  • Innlit sl. viku: 2560
  • Gestir í dag: 70
  • IP-tölur í dag: 70

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband