Hlýindi á Grænlandi?

Öfgahlýindi hafa í sumar að mestu forðast Ísland en hafa alloft dansað nærri landinu. Þannig er það líka þessa dagana. Sérlega hlýtt loft er vestan við okkur, yfir Grænlandi. Hvort eða hvernig það nýtist þarlendum er hins vegar óljóst - alla vega eru veðurstöðvar sárafáar á Grænlandi og illt að staðfesta hita þar í dölum og fjörðum. Helst að vart verði við hann í Syðra-Straumfirði og Nassarsúak. Við lítum nú á spá danska igb-reiknilíkansins um hita á Norðaustur-Grænlandi sem gildir á miðvikudag 23. ágúst kl.16. 

w-blogg220823a

Við tökum fyrst eftir 26 stigum sem spáð er í Kangerlussuaq-firði. Við munum víst aldrei fá að vita hvort hitinn verður svona hár í raun og veru. [Það er merkilegt að grænlenska nafnið á Syðri-Straumfirði er líka Kangerlussuaq - ekki veit ritstjórinn hvort eða hvernig þarlendir greina á milli í daglegu tali - en þetta er sitthvor staðurinn]. Í öðru lagi er hita spáð yfir 20 stig á stórum landsvæðum norðan við Scoresbysund (sem reyndar er ekki kennt við Scoresby sjálfan, heldur föður hans, sem líka hét Scoresby). Við munum varla fá að vita heldur hvort rétt er spáð þarna. Mælt er í þorpinu Ittoqqortoormiit (maður öðlast ákveðinn skilning á erfiðleikum útlendinga við íslensk nöfn við að horfa á þetta). Trúlega er líka mælt á flugvelli þeirra - Constable Pynt. 

Langflestar veðurathugunarstöðvar á Grænlandi eru á útskögum, ekki ósvipað og var hér á landi á árum áður - hitafar í innsveitum lítt þekkt. Við vitum því lítið um tíðni atburða af þessu tagi. Vel má vera að þeir séu allalgengir, en hitaútgildavísir evrópureiknimiðstöðvarinnar er í hæstu hæðum á þessum slóðum þessa dagana. Aðrir hitavísar eru líka í hæstu hæðum. Hita í 850 hPa er spáð í 17 stig, mættishiti er yfir 30 stig í þeim fleti, þykkt er spáð 5680 m á sömu slóðum, en síðdegis á fimmtudag - og hita í 500 hPa nærri metum. 

Hvort þetta svo rætist veit enginn - líkön giska auðvitað á eitthvað og við trúum þeim að vissu marki - þegar þar að kemur. 

Góðum hlýindum er spáð á Suðurlandi næstu daga - yfir 20 stigum - en raunveruleg öfgahlýindi virðast ætla að halda áfram að forðast okkur. Kannski við þökkum bara fyrir það. 

Viðbót um hádegi miðvikudag 23.ágúst: Í gær (22.) fór hiti í 20,4 stig í Nassarsuaq og 20,2 á Constable Pynt-flugvelli, 


Bloggfærslur 22. ágúst 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg160524a
  • w-blogg160524i
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 83
  • Sl. sólarhring: 99
  • Sl. viku: 1163
  • Frá upphafi: 2354688

Annað

  • Innlit í dag: 75
  • Innlit sl. viku: 1043
  • Gestir í dag: 71
  • IP-tölur í dag: 69

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband