Vb-lægðir - upprifjun

Þegar ritstjóri hungurdiska horfir á myndir af flóðunum í Noregi rifjast upp veðurfræðikennslustund í Bergen fyrir nærri 50 árum. Þetta var í vinnuáfanga í kortagreiningu og veðurspám (allt upp á fornan máta). Rætt var um gömul fræði - og úrelt þá þegar, lægðabrautir, sem þó lifðu meðal elstu kennara. Ekki er í minninu hvaða kort var sýnt af þessum lægðabrautum. Þær voru númeraðar á rómverska vísu I, II og svo framvegis - og síðan bókstaf bætt við, a,b,c ... . Ein þessara lægðabrauta var nefnd sérstaklega, Vb (fimm-b) og talað um margvíslega hættu sem af slíkum lægðum stafaði - og dæmi tíunduð, flóð, hvassviðri og þrumuveður. 

Enn má finna upplýsingar um þessa lægðabraut á netinu, bæði í Noregi, Svíþjóð, Danmörku og Þýskalandi (og kannski víðar) - engin ósköp en nægilega mikið til að sýna að hugtakið er enn á lífi. Aðgengilegasta greinin (með skýringarmyndum) er á bloggsíðu sænsku veðurstofunnar:„Lågtrycksbanor över Europa“. 

Lægðir þessar koma langt að sunnan, jafnvel alveg frá Miðjarðarhafi. Með þeim kemur mjög hlýtt og rakt loft. Sumar þeirra sýna tilburði til að dýpka nokkuð skyndilega yfir Eystrasalti. Fyrr á tíð ollu þær því stundum óvæntum vestan- eða norðvestanstormi þar um slóðir - eða vestur við Danmörku. Þó að svona lægðir sýni sig á öllum árstímum þykja þær sérlega varasamar að sumarlagi, komandi nánast upp úr þurru, valdandi mikilli úrkomu á mjög stórum landsvæðum og hvassviðri sem óvenjuleg eru á þeim árstíma. Jafnvel talað um sumarmartröð veðurspámannsins. Svo er að heyra á fréttum að þrýstingur í miðju lægðarinnar nú hafi verið lægri en mælst hafi um áratugaskeið í Suður-Noregi að sumarlagi - innan við 980 hPa. [Vonandi heyrum við nánar þar um síðar]. 

Stærsti flóðaatburður sögunnar í Austur-Noregi varð í júní 1789 og nefnist „Storofsen“ - við getum auðveldlega ráðið í það nafn. Um hann má lesa í ágætum pistli á Wikipediu, Sjálfsagt verður minnst á þetta - og borið saman við Hans.  

Aðaldæmið sem nefnt var í kennslustundinni forðum finnur ritstjórinn hins vegar ekki neinar heimildir um - kannski er það bara til í misminni hans (en meira að segja það er farið að bregðast). Átti það að segja frá skyndilegri dýpkun yfir Eystrasalti og mannsköðum á sjó í kjölfarið. Kannski finnst þetta einhvern tíma síðar. 

Flóð í kjölfar víðtækra úrkomuatburða á stórum vatnasviðum eru marga daga að ganga yfir. Í stærstu fljótum jafnvel mánuði. Hér á landi eru vatnasvið minni og styttri tíma tekur að renna fram. Hér eru leysingaflóð á vetrum, gjarnan tengd ísstíflum venjulega þau stærstu (fyrir utan jökulhlaup). Vorleysingaflóð með rigningu í bland eru einnig skæð - þá er skriðuhætta veruleg. Flóð eftir að hálendisleysingu lýkur eru sjaldséðari, en geta samt stöku sinnum verið ofsafengin. Við skulum hafa í huga að það er tölfræðilega varasamt að bera tíðni ólíkra gerða flóða beint saman. Þegar rætt er um endurkomutíma flóða eins og þess sem nú gengur yfir Noreg þarf að hafa þetta í huga - það er ekki endilega sambærilegt við vorleysingaflóðin miklu sem við höfum alloft heyrt um þar á bæ. Þetta er öðruvísi atburður. 

Að lokum - þegar ritstjórinn var ungur maður var það gjarnan gefið í skyn (eða jafnvel fullyrt) að stórflóð fortíðarinnar (eins og Storofsen) tengdust einkum öfgakenndu og köldu veðurfari „litlu-ísaldar“ - nú fáum við að heyra hið gagnstæða - þau séu óhjákvæmilegur fylgifiskur hlýnandi veðurfars. Margt bendir nú til þess að hlýnandi veðurfari fylgi aukin úrkoma, jafnvel að tíðni aftakaatburða aukist. En það er samt varasamt að fullyrða að atburður eins og „Hans“ sé á einhvern hátt algjörlega afleiðing hlýnandi loftslags - án þess hefði atburðurinn ekki orðið. Það má frekar segja - með einhverjum rökum - að hlýnunin bæti heldur í styrk atburða af þessu tagi - en sé ekki eini - eða stærsti - orsakavaldurinn. 


Bloggfærslur 10. ágúst 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg160524a
  • w-blogg160524i
  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (18.5.): 76
  • Sl. sólarhring: 102
  • Sl. viku: 1156
  • Frá upphafi: 2354681

Annað

  • Innlit í dag: 69
  • Innlit sl. viku: 1037
  • Gestir í dag: 66
  • IP-tölur í dag: 64

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband