Óvenjuleg hlýindi á Norður-Grænlandi

Mikil hlýindi eru nú á Norður-Grænlandi. Fregnir bárust af því í dag að hlánað hefði við ískjarnaborstað þar um slóðir og grípa hefði þurft til aðgerða til varnar ískjörnum sem náð hefur verið upp (koma þeim undir snjó). Það mun vera óvenjulegt. 

Reiknilíkan dönsku veðurstofunnar sýnir óvenjulega stöðu. Við vitum ekki alveg um gæði líkangagnanna - rétt að hafa það í huga.

w-blogg270623a

Hér má sjá hita í 850 hPa eins og igb-líkanið reiknar undir hádegi á morgun, miðvikudaginn 28. júlí. Þá á hiti að vera tæp 19 stig í 850 hPa-fletinum við Norðausturhorn Grænlands. Það hæsta sem við vitum um yfir Keflavíkurflugvelli (eftir 70 ára athuganir) er um 14 stig. Ef til vill hefur hiti komist í ámóta tölur yfir Austurlandi einhvern tíma á því tímabili - en hér er ekki um einhvern smáblett að ræða. Nú er sól hæst á lofti og skín baki brotnu allan sólarhringinn á þessum slóðum - þó lágt á lofti. Niðurstreymi í skjóli jökulsins hjálpar mjög. Líkanið segir að það sé orðið alautt á stórum svæðum (við vitum ekki um réttmæti þess), en ís er víða á fjörðum og sjórinn auðvitað mjög kaldur þar sem íslaust er. Hitans gætir því aðeins staðbundið niðri í djúpum fjarðardölum.

w-blogg270623b

Hæsta talan sem sést á þessu korti (sem gildir um hádegi á morgun, miðvikudag) er 23,7 stig langt norður á Pearylandi - í firði sem kenndur er við Frederick E. Hyde, en hann var einn af þeim sem styrktu Peary fjárhagslega þegar hann fór um þessar slóðir árið 1900. Ef við rýnum í kortið má sjá fjölmarga smábletti með meir en 20 stiga hita (í líkaninu). 

Það er trúlegt að þetta sé ekki mjög óalgengt einmitt á þessum tíma árs. Veðurstöðvar eru sárafáar á þessum slóðum og þær sem þar þó eru eru flestar við ströndina þar sem líkur á háum hita eru mun minni. Við ættum þó að láta sérfræðinga í hitafari svæðisins sjá um fullyrðingar. 

Lauge Koch, hinn kunni danski heimskautakönnuður, kvu hafa kallað svæði við þennan fjörð „gróðurhúsið“ (Drivhuset) - kannski ekki að ástæðulausu. Frumheimild þessa hefur ritstjóri hungurdiska því miður ekki fundið enn - og veit því ekki hvort rétt er eftir haft. 

Annað mál:

Nú velta menn því fyrir sér hvort júní verði methlýr á Akureyri. Fyrir 9 árum voru sömu vangaveltur uppi á teningnum á hungurdiskum. Þá var spurningin hvort júníhiti þar næði 12 stigum. Hann gerði reyndar betur, fór í 12,2 stig og varð þar með næsthlýjastur allra júnímánaða. Hlýjastur var júní 1933, með 12,3 stig. Nú (að kvöldi 27.júní 2023) reiknast meðalhitinn við Lögreglustöðina á Akureyri 12,7 stig, vel yfir metinu. En næstu dagar verða heldur kaldari. Til að ná 12,4 stigum verður meðalhiti næstu þriggja daga að vera hærri en 10,0 stig - allgóður möguleiki er á því. Það flækir auðvitað málið að árið 1933 var mælt við gömlu símstöðina - tölurnar þaðan sýna 12,6 stig - en ekki 12,3 eins og núgildandi samræmd tafla. Það væri skemmtilegra ef nýtt (hugsanlegt) met yrði ofan við þá tölu. Nú er einnig mælt við Krossanesbraut. Þar er meðalhiti mánaðarins til þessa nú 12,5 stig og 12,2 stig á Akureyrarflugvelli. Ekki voru aðrar stöðvar en Akureyri í Eyjafirði 1933, auðveldar okkur ekki metinginn. Meðalhiti á Torfum í Eyjafirði endaði í 12,7 stigum í júní 2014, en er 12,5 sem stendur - nær varla 2014. Þar var hiti 12,5 stig í júní 2016, en var þá ekki „nema“ 11,8 á Akureyri (bæði við Lögreglustöðina og Krossanesbraut). - Endanlegar tölur koma í ljós eftir helgi. 

Við getum þess í framhjáhlaupi að talan á Torfum 2014, 12,7 stig, er hæsti meðalhiti júnímánaðar hér á landi (allar stöðvar) - jafnhár og reiknast á Húsavík í júní 1953. 


Bloggfærslur 27. júní 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg231124-kosningaspa-ec b
  • w-blogg23124-kosningaspa-ec a
  • w-blogg211124a
  • w-blogg181124a
  • w-blogg151124c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (25.11.): 8
  • Sl. sólarhring: 421
  • Sl. viku: 2551
  • Frá upphafi: 2414406

Annað

  • Innlit í dag: 7
  • Innlit sl. viku: 2371
  • Gestir í dag: 7
  • IP-tölur í dag: 7

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband