Fyrstu tíu dagar desembermánaðar

Fyrstu tíu dagar desembermánaðar hafa verið nokkuð óvenjulegir. Mjög kalt hefur verið inn til landsins, en hlýrra við sjávarsíðuna. Meðalhiti í Reykjavík er -0,5 stig og er það -1,5 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og -1,0 stigi neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 17. hlýjasta sæti á öldinni. Kaldastir voru sömu dagar 2011, meðalhiti þá -4,8 stig, en hlýjastir voru þeir 2016, meðalhiti +7,1 stig. Á langa listanum raðast hitinn í hundraðasta hlýjasta sæti af 150. Hlýjastir á þessum tíma voru sömu dagar 2016, en kaldastir árið 1887, meðalhiti þá var -7,2 stig.

Nokkrar athuganir vantar frá Akureyri í mánuðinum, en þó er ljóst að hiti er um -5,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára og þetta er næstkaldasta eða þriðjakaldasta desemberbyrjun síðustu 88 ára, kaldara var 2011 og mjög svipað og nú 1951.

Þetta er næstkaldasta desemberbyrjun aldarinnar á Miðhálendinu, á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi, en að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum og á Suðausturlandi þar sem hitinn raðast í 16. hlýjasta sætið (af 23).

Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Stórhöfða. Þar er hiti +0,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára og +0,6 yfir í Surtsey. Kaldast hefur aftur á móti verið á Sauðárkróksflugvelli -8,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára - og meðalhiti þar er -10,2 stig. Á Blönduósi hefur hiti verið -7,4 stig neðan meðallags.

Úrkoma hefur verið sérlega lítil í Reykjavík, aðeins mælst 0,3 mm, sömu daga árið 1892 mældist hún 0,2 mm. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 4,3 mm og er það rétt innan við fimmtungur meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 19,6 mm og er það um 40 prósent meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 22,1 í Reykjavík, 17 fleiri en í meðalári og hafa aðeins einu sinni mælst fleiri sömu daga, það var í fyrra þegar sólskinsstundirnar mældust 22,8 fyrstu tíu daga desembermánaðar. 

w-blogg11122023b

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins síðustu tíu daga og vik hennar frá meðallagi. Mikil hæð hefur verið við Ísland og Grænland og haldið öllum lægðum fjarri. Fyrir austan land er norðanátt sem veitir kulda til Skandinavíu. Aftur á móti hafa verið mikil hlýindi vestan Grænlands. Þetta er svipuð staða og í nóvember - og reyndar frá því um 20.október (með smáundantekningum).

w-blogg11122023a

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í nóvember og vik hennar frá meðallagi (litir). Mikill hæðarhryggur hélt sig við Ísland mestallan mánuðinn. Jafnhæðarlínur við Ísland eru sérlega gisnar - lægðabrautir hafa legið langt suður í hafi. Nánasti „ættingi“ þessa nýliðna nóvember er nóvember 2019. Sérlega hægviðrasamur mánuður og þurr víðast hvar - en það entist ekki (eins og margir hljóta að muna). 

Nú á að verða veruleg breyting á stöðunni. Lægðabrautin á að færast að landinu, hvort það er tímabundin ráðstöfun máttarvaldanna eða „varanleg“ vitum við auðvitað ekki. Við þökkum BP fyrir kortagerðina. 


Bloggfærslur 11. desember 2023

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 704
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband