Loft að vestan - og síðan að norðan

Nú í kvöld - þriðjudaginn 22. febrúar - er komið skaplegt veður víðast hvar á landinu eftir rúmlega sólarhringsátök. Lægðin sem sótti inn yfir landið vestanvert í nótt - miðjuþrýstingur náði niður undir 945 hPa - er nú farin að grynnast og hún hefur hörfað vestur á Grænlandshaf. Þar tekur hún hring - verður svo gripin af kaldri háloftalægð sem fer til austurs fyrir sunnan land á morgun. 

Lægðin dró mikla stroku af köldu kanadalofti út yfir Atlantshaf - það er nú um það bil að ná til okkar - spurning hversu langt það fer norður á landið áður en það hörfar undan norðanáttinni sem nær undirtökum á landinu síðdegis og annað kvöld (miðvikudag). 

Á miðnætti í kvöld verður staðan þessi (að sögn harmonie-líkansins).

w-blogg220222a

Úrkomubakkinn við Suðurland er jaðar köldu strokunnar ð vestan. Ólgar þar og hrærist - vel blandað í glasi. Töluverð úrkoma virðist vera í þessum bakka. Þess vegna er spurning hvort bætir á snjóinn hér suðvestanlands í nótt eða í fyrramálið. Stendur það glöggt - því norðanáttin sækir fram fyrir norðan okkur. Við sjáum gríðarmikinn streng úti á Grænlandssundi. Heldur dregur úr honum þegar hann fellur suður yfir landið - en er þó nægilega öflugur til þess að Veðurstofan er með aðvaranir í gildi vegna hans um landið norðvestanvert - við tökum mark á þeim. 

w-blogg220222b

Hér má sjá ratsjármynd Veðurstofunnar kl. 21:20 nú í kvöld. Allmikill kraftur er í úrkomubakkanum - og svo sýnist sem hann hafi undið eitthvað upp á sig. 

w-blogg220222c

Það sést jafnvel betur á þessari mynd. Þar sýnist sem bakkinn sé samsettur úr fjölda lítilla kuðunga sem liggja hlið við hlið - væntanlega skiptast á snörp uppstreymissvæði með töluverðri úrkomu og síðan úrkomuminni belti á milli. Rétt fyrir ferðalanga sunnan- og suðvestanlands að gefa þessum bakka gaum í nótt og fram eftir morgni - sömuleiðis skefur ábyggilega á vegum þegar norðanstrengurinn nær undirtökum síðdegis.

Illviðrið í gær og í dag (21. og 22.) febrúar er í flokki þeirra verri hér á landi - miðað við vindhraða sennilega í flokki 10 til 15 verstu á þessari öld. Foktjón varð víða um land - auk þess sem vatnsagi olli sköðum og samgöngur röskuðust. Raflínur sködduðust. 

Nokkur tími verður þar til vindhraðamet á einstökum stöðvum verða staðfest - en líklega eru þau flest í lagi. Ársvindhraðamet voru slegin á þessum veðurstöðvum (upphafsár í sviga - aðeins stöðvar sem hafa mælt í meir en 18 ár eru tilgreindar): Haugur í Miðfirði (2003), Kálfhóll á Skeiðum (2003), Veiðivatnahraun (1993), við Gullfoss (2001), Skálholt (1998), Víkurskarð (1995) og Vatnsskarð eystra (1999). Uppgjör dagsins í dag (þriðjudags) hefur ekki borist þannig að hugsanlega bætast fleiri stöðvar við listann. Fjöldi febrúarmeta féll. 

Eins og minnst var á hér að ofan er þetta kalda loft sem sækir að landinu úr suðri sérlega vel hrært. Það sést vel á myndinni hér að neðan.

w-blogg220222d

Þetta er þversnið frá suðri (vinstra megin) til norðurs (hægra megin) - eftir 23°V, frá  63 til 67°N. Litir og vindörvar sýna vindátt og vindstyrk, en heildregnar línur mættishita. Það óvenjulega á þessari mynd er það hversu fáar jafnmættishitalínurnar eru. Yfir Faxaflóa er enga línu að finna fyrr en upp í um 700 hPa (3 km hæð) og þar fyrir ofan eru línurnar mjög gisnar, allt upp að veðrahvörfum í um 400 hPa hæð. Ofan veðrahvarfa (sem eru til þess að gera neðarlega) eru jafnmættishitalínur mjög þéttar að vanda. Eftir sólarhring verða 5 jafnmættishitalínur neðan 700 hPa ofan Faxaflóa - mun venjulegra ástand. Þéttni jafnmættishitalína sýnir hversu vel loftið er blandað (hrært) - því færri sem þær eru því betur er blandað. Þeir (fáu) sem fylgjast með myndum af þessu tagi ættu að gefa þessu gaum. 


Bloggfærslur 22. febrúar 2022

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.5.): 153
  • Sl. sólarhring: 160
  • Sl. viku: 1169
  • Frá upphafi: 2352044

Annað

  • Innlit í dag: 139
  • Innlit sl. viku: 1059
  • Gestir í dag: 131
  • IP-tölur í dag: 128

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband