Í febrúar 1971

Veturinn 1970 til 1971 var yfirleitt talinn hagstæður þó þá gengi á með töluverðum umhleypingum. Vatnavextir og skriðuföll komu þó við sögu bæði í október, desember og snemma í febrúar, um miðjan nóvember gerði snarpt veður af austri og vetrarlegt var þá norðaustanlands. Ritstjórinn minnist mikils tíðindaleysis í janúar - nema hvað sérlega kaldur dagur kom á höfuðborgarsvæðinu undir lok mánaðarins, frost fór í -19,7 stig á Reykjavíkurflugvelli, það mesta frá 1918 og ekki hefur komið jafnmikið frost síðan á Reykjavíkurstöðinni. Þá fór frost í -30 stig við Mývatn. Snjóflóð ollu nokkru tjóni í febrúar og mars, einkum þó í síðarnefnda mánuðinum og í apríl gerði eftirminnilegt hríðarkast. Veðurnörd máttu allvel við una þegar upp var staðið.

En við lítum hér á stöðuna einn ákveðinn dag, þriðjudaginn 9. febrúar. 

w-blogg081121d

Hér má sjá veðrið kl.15 þennan dag (kortið verður lesanlegra sé það stækkað). Í Reykjavík er austan kaldi, rigning og 5 stiga hiti. Það rignir um allt sunnanvert landið, allt austur á sunnanverða Austfirði. Uppi í Síðumúla í Borgarfirði er hins vegar allhvasst af norðaustri, þar snjóar, skyggni er aðeins 300 metrar og frostið er -7 stig. Við vitum ekki af meiri mun á hita á sama tíma á þessum tveimur veðurstöðvum, 11,3 stig [þegar vindur er meiri en 10 m/s í Síðumúla]. Frost er um allt landið norðanvert og víða dimm hríð. Frost er rúm -11 stig á veðurstöðvunum á Galtarvita, í Æðey og á Hornbjargsvita. Eftirtektarvert er einnig að -12 stiga frost er í Grímsey. Ekki var langt í hafís undan Norðurlandi og Vestfjörðum, allt vestan frá Bjargtöngum og austur á Melrakkasléttu. Hrafl af honum kom inn á firði og flóa. Þetta varð síðasti hafísveturinn í þessari syrpu (og hefðu fáir trúað því þá). 

w-blogg081121g

Klippa úr Morgunblaðinu daginn eftir segir af hríð og ófærð. Þar segir að færð hafi þyngst á Hellisheiði, en talið til tíðinda að heiðarvegir á Austurlandi, svosem Fjarðarheiði og Oddsskarð hafi verið færir. Rafmagnsbilanir urðu. 

Síðar fréttist af miklum snjóflóðum sem féllu víða á vegi í nágrenni Ísafjarðar og nokkrum dögum síðar féll snjóflóð á íbúðarhús (Hlíðarveg 1d) á Siglufirði og þar í firðinum fórust 75 kindur er snjóflóð féll á fjárhús. Sömuleiðis eyðilagðist sumarbústaður. 

w-blogg081121e

Það var alldjúp lægð sem kom að landinu þann 9. og fór síðan yfir landið sem olli þessu veðri. Hitaskil gengu inn á landið, en komust ekki yfir það. Hlýjasta loftið rann síðan til austurs en um leið og það var komið hjá slaknaði heldur á norðaustanáttinni og snerist meira til norðurs. Vindáttir voru síðan norðlægar flesta daga, allt fram til þess 21. 

w-blogg081121f

Háloftakortið á sama tíma sýnir mikla sunnan- og suðvestanátt yfir landinu. Hlýtt loft úr suðri er á leið yfir landið. Það náði til jarðar sunnanlands, en tókst ekki að hreinsa kalda loftið sem lá yfir landinu norðanverðu - en sunnanáttin uppi sá fyrir úrkomu vestanlands - þótt þar væri áttin austlæg eða norðaustlæg. 

Ritsjórinn sat þennan dag í helliregni á Laugarvatni - og furðaði sig á veðurfréttum úr Borgarfirði.


Bloggfærslur 9. nóvember 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 166
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 1252
  • Frá upphafi: 2352211

Annað

  • Innlit í dag: 150
  • Innlit sl. viku: 1136
  • Gestir í dag: 145
  • IP-tölur í dag: 145

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband