Hlýtt ár (enn og aftur)

Meðalhiti í byggðum landsins í nóvember er mjög nærri meðallagi áranna 1991 til 2020, en lítillega neðan meðallags síðustu tíu ára. Svipað er með hita fyrstu 11 mánuði ársins, hann er lítillega yfir 30-ára meðaltalinu, en örlítið neðan meðaltals síðustu tíu ára.

Á lista yfir meðalhita síðustu 73 árin er hiti í Reykjavík í 15.hlýjasta sæti, en í því fimmtahlýjasta á Akureyri, áttundahlýjasta austur á Dalatanga. Við getum því gengið út frá því að árið 2021 verður í hópi hlýju áranna eins og öll ár þessarar aldar.

w-blogg301121a

Myndin sýnir meðalhita fyrstu 11 mánaða ársins í Reykjavík. Á þessu tímabili hefur hlýnað að meðaltali um 1,1 stig á öld, en þrepaskipting er þó áberandi. Mjög hlýtt var frá því upp úr 1920 til 1965, síðan kalt, sérstaklega í kringum 1980. Hlýnunin síðan gerir meira en að vega upp kólnunina á sjöunda áratugnum - þó ekki hafi orðið miklar breytingar síðustu tuttugu árin tæp. 

Eins og alltaf er verið að taka fram segir línurit sem þetta ekkert um framtíðina. Engan (eða fáa alla vega) grunaði 1920 að nú færi mikið hlýskeið í hönd - menn gengu líka alveg grunlausir á móts við kólnunina á sjöunda áratugnum. Það er helst að væntingahljóð hafi verið komið í suma í kringum aldamótin - því áberandi hnattræn hlýnun hafði þá verið í gangi í meir en áratug. En hlýnunin var, þegar hún loksins kom, mun örari heldur en vænta mátti, nánast var hægt að tala um óðahlýnun. Til allrar hamingju dró aðeins úr framsókn hennar. Hefði ákefðin haldist, væri nú meir en 1 stigi hlýrra hér á landi heldur en fyrir 20 árum. 

Breytileiki hita frá ári til árs hefur verið heldur minni á núverandi hlýskeiði heldur en á því fyrra - minni heldur en ritstjóri hungurdiska hefði búist við. Hin tilviljanakennda tíðni vindátta frá ári til árs ræður um eða yfir helmingi breytileikans - kannski vægi norðanáttarinnar hafi minnkað - ekki vegna þess að hún sé sjaldséðari heldur vegna þess hversu mikið hún hefur hlýnað. En þrátt fyrir að hin almenna hnattræna hlýnun auki líkur á því að hlýskeiðið haldi áfram hér á landi megum við samt ekki ganga út frá því sem fullvísu.

Svo er spurning hvort annað þrep aukinnar hlýnunar leynist í framtíðinni? Ábyggilega heldur veðráttan þó áfram að koma okkur á óvart - rétt eins og hún hefur gert svo lengi sem elstu menn muna. 

Breytileiki desemberhita er mikill - getur hnikað ársmeðalhitanum til um 0,2 til 0,6 stig frá því sem fyrstu 11 mánuðirnir spá. Verði desember mjög hlýr gæti árið endað í 5,6 stigum í Reykjavík, en verði hann mjög kaldur gæti það endað í 5,0 stigum. Meðalhiti fyrstu 11 mánaðaanna er 5,7 stig. Aðeins tvö ár frá aldamótum hefur meðalhiti í Reykjavík verið undir 5 stigum (2013 og 2015). Meðalhiti 1991 til 2020 er 5,1 stig, en meðalhiti síðustu tíu ára 5,4 stig.  


Bloggfærslur 30. nóvember 2021

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg040524c
  • w-blogg040524b
  • w-blogg040524a
  • w-blogg020524b
  • w-blogg020524a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 257
  • Sl. sólarhring: 336
  • Sl. viku: 1343
  • Frá upphafi: 2352302

Annað

  • Innlit í dag: 222
  • Innlit sl. viku: 1208
  • Gestir í dag: 213
  • IP-tölur í dag: 212

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband