Af hitafari á þremur fjallvegum

Hér verður hitafar þriggja fjallvega borið lauslega saman. Aðaláhersla er á árstíðasveiflu. Fjallvegirnir þrír eru: Holtavörðuheiði (veðurstöð í 370 metra hæð yfir sjávarmáli=, Steingrímsfjarðarheiði (440 m) og Vatnsskarð í Húnavatnssýslu (420 m). Landslag á Vatnsskarði er mjög ólíkt því sem er á hinum heiðunum. Hæðarmunurinn er ekki mikill, en skapar þó einn og sér lítilsháttar mun í meðalhita, mestan á milli Holtavörðuheiðar og Steingrímsfjarðarheiðar þar sem hann er um 70 metrar - eða um 0,5°C. 

w-blogg300820a

Myndin hér að ofan sýnir meðalhita hvers mánaðar á heiðunum þremur - þeir sem hafa áhuga geta flett tölunum upp í viðhenginu. Gulu súlurnar sýna hita á Steingrímsfjarðarheiði. Þær eru í öllum tilvikum lægri en hinar. Við sjáum líka að meðalhiti er þar undir frostmarki fram í maí og kominn aftur niður í frostmark í október. Í fljótu bragði virðist sem meðalhiti sé neðan frostmarks um hálfum mánuði lengur vor og haust heldur en á hinum heiðunum tveimur -  „sumarið“ mánuði styttra. 

Við skulum nú líta nánar á þennan hitamun stöðvanna.

w-blogg300820b 

Hér er byrjað á því að reikna meðalhita hvers almanaksdags árið um kring þessi 23 ár. Síðan er munur stöðvanna reiknaður. Blái ferillinn sýnir mun á hita á Holtavörðuheiði og Steingrímsfjarðarheiði - jákvæðar tölur sýna daga þar sem hlýrra er á fyrrnefndu heiðinni. Það er nærri því alla daga ársins - fáeinir dagar í júlílok þar sem munurinn er enginn eða Steingrímsfjarðarheiði lítillega í vil. Hvort slíkt heldur til lengri tíma litið er aldeilis óvíst. Aftur á móti getum við verið harla viss um að megindrættir ferilsins eru raunverulegir. Munurinn er áreiðanlega minnstur í júlí og framan af ágúst - vex síðan upp í um 0,7 stig og - sem skýrist líklega að mestu af 70 metra hæðarmun stöðvanna. Helst munurinn svipaður allt haustið og vel fram yfir áramót. Seint í febrúar eða framan af mars fer munurinn að aukast - vex síðan nokkur hratt og nær hámarki síðari hluta maímánaðar. Hann er síðan miklu minni í lok júní heldur en í upphafi mánaðaris. - Bíðum smástund með skýringar.

Rauði ferillinn sýnir mun á hita á Holtavörðuheiði og Vatnsskarði. Það er kaldara allt árið á fyrrnefndu heiðinni - fáeinir dagar að vísu þegar þar er hlýrra, en í aðaldráttum er munurinn 0,4 stig haust og vetur fram í mars, en vex síðan og er mestur í júní. Þá er áberandi kaldara á Holtavörðuheiði - munar hátt í 1 stigi - þrátt fyrir að stöðin á Vatnsskarði sé 60 metrum hærra yfir sjávarmáli heldur en stöðin á Holtavörðuheiði. 

w-blogg300820c

Síðasta mynd sem við lítum á að þessu sinni sýnir árstíðagang dægursveiflu hitamunar stöðvanna á Holtavörðuheiði og Steingrímsfjarðarheiði. Hver mánuður er sjálfstæður - strikalínur sýna mörk milli mánaða. Hitamunur kl.1 að nóttu er lengst til vinstri í hverjum mánuði, en hiti kl.24 lengst til hægri. Í janúar er hitamunur að meðaltali 0,7 stig, bæði dag og nótt. Í maí er ann minnstur seint að nóttu, um 1,0 stig, en vex upp í meir en 2,5 stig síðdegis. Sá munur sem við sáum að var á hita stöðvanna tveggja í maí er því ekki síst orðinn til við það hve miklu kaldara er á Steingrímsfjarðarheiði að deginum heldur en á Holtavörðuheiði á þessum tíma árs. Munurinn að næturlagi er að vísu meiri heldur en á öðrum árstímum, en ekki svo mjög miklu meiri. 

Við getum auðvitað ekki (án nánari athugunar) verið viss um hvað veldur þessari hegðan. Svo virðist sem á tímanum nóvember og fram í febrúar sé munurinn á hita stöðvanna (bæði dag og nótt) að mestu skýranlegur af hæðarmun þeirra. Hinn mikli munur seint á vetri og fram í júní er nær örugglega tengdur mismunandi snjóalögum við stöðvarnar. Þar koma nokkrir þættir við sögu. Í fyrsta lagi er ekki útilokað að snjó leggi meira að Steingrímsfjarðarheiðarstöðinni þannig að hitamælirinn sé undir vor ekki í réttri hæð yfir yfirborði (of neðarlega - vegna þess að snjórinn er „of ofarlega“). Í öðru lagi - og það er áhrifameiri skýring - er ábyggilega miklu meiri snjór í bæði nær- og fjærumhverfi Steingrímsfjarðarheiðarstöðvarinnar heldur en á Holtavörðuheiði - þessi snjór þarf að bráðna og í það fer orka - sem annars færi í að hita autt yfirborð - sem síðan hitar loftið. Yfirborðshiti liggur því stöðugt í núlli, jafnvel í miklu sólskini. Í þriðja lagi er hugsanlegt - það vitum við ekki - að meira sé um þoku við stöðina á Steingrímsfjarðarheiði heldur en á Holtavörðuheiði á þessum árstíma. Einhvern veginn finnst ritstjóra hungurdiska þessi síðasta skýring ekki sérlega líkleg - eða vægi hennar í heildinni sé ekki mikið.

Þá sitja júlí og að nokkru leyti ágúst eftir. Við sjáum (já, þeir sjá sem rýna í línuritið) að í báðum þessum mánuðum dregur Steingrímsfjarðarheiði mjög á Holtavörðuheiði undir kvöld -svo mjög meira að segja að (ómarktækt) hlýrra er á Steingrímsfjarðarheiðinni. Spurning hvað þessu veldur. Vel má vera að þetta hafi með hafgolu að gera - eða hvað við eigum að kalla Hrútafjarðarstrenginn. Steingrímsfjarðarheiðin er miklu betur varin fyrir slíku - sjávar- og lyftingaráhrif gætu verið minni heldur en á Holtavörðuheiðinni. 

Ferlarnir í september og október minna á vorferlana, en eru þó miklu veigaminni. Kannski sjáum við hér áhrif þess að snemma fer að snjóa á Steingrímsfjarðarheiði - að meðaltali þrálátar heldur en á Holtavörðuheiðinni. 

Veðurfarslega er margt dularfullt á fjöllum á Vestfjörðum. Drangajökull er alveg sér á parti meðal jökla landsins. Enginn teljandi jökull er við Tröllakirkju á Holtavörðuheiði - þó hærri sé en hábungur Drangajökuls. Enginn jökull er heldur á Glámu (og hefur að sögn fróðra ekki verið - þó haldið sé fram). En mælingarnar á Steingrímsfjarðarheiði sýna okkur þó að sumarið er um mánuði styttra þar heldur en í samsvarandi hæð í nágrenninu.

Mun betur mætti rýna í þessar mælingar - t.d. með því að tengja þær við vindáttir. Þá gætum við betur séð hvort það er eitthvað sérstakt veðurlag sem mest hefur að segja um þennan mun - eða hvort hann er svipaður flesta daga. 

Látum þetta duga að þessu sinni.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Árin 1846 til 1860 - inngangur

Í samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar áranna 1749 til 1924 er nú komið að árunum 1846 til 1860. Væntanlega mun taka nokkra mánuði að afgreiða þau. Hér lítum við mjög lauslega á hitafar þessara ára. Hægt er að halda því fram að eins konar hlýskeið hafi ríkt hér á landi frá því um eða upp úr 1820 og fram á miðjan sjötta áratug aldarinnar. Þetta hlýskeið er það fyrsta af þremur sem við þekkjum frá því mælingar hófust. Biðin eftir næsta hlýskeiði á eftir varð mjög löng - það hófst ekki fyrr en um og upp úr 1920 - þó að vísu megi segja að verstu kuldarnir væru hjá upp úr 1890. Þriðja hlýskeiðið hófst síðan um síðustu aldamót og stendur enn.

Nítjándualdarhlýskeiðið sem við nefnum svo var þó bæði kaldara og slitnara heldur en síðari skeiðin tvö. Munar að líkum mest um það að mun meiri hafís var í norðurhöfum heldur en síðar varð. Það þýddi að norðlægar áttir voru (þegar þær gerði á annað borð) mun kaldari heldur en norðanáttir hinna hlýskeiðanna tveggja. Á því hlýskeiði sem við nú upplifum er það einmitt norðanáttin sem hefur hlýnað mest - langt er í hafískuldann. Sunnan- og suðvestanáttir hafa hlýnað mun minna. Um þetta hefur verið fjallað hér á hungurdiskum - og verður trúlega gefinn frekari gaumur síðar. 

Það var sumsé þannig að þrátt fyrir nokkuð hagstæða tíð þessa gamla hlýskeiðs komu inn á milli bæði afspyrnukaldir mánuðir og jafnvel árstíðir og ár sem spilltu ásýnd þess. Það er auðvitað varla hægt að segja nákvæmlega hvenær því lauk, hvort það gerist strax 1855 - eða tveimur eða þremur árum síðar er ekki gott að segja - enda skiptir það raunar engu. 

ar_1845-61-t12

Hér má sjá 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Stykkishólmi á árunum 1845 til 1861. Það einkennist af gríðarlegum sveiflum - allt frá hinu mjög svo sérstaka og hlýja ári 1847 yfir í árið illa 1859. Fyrra árið er eitt allrahlýjasta ár 19.aldar, ásamt hugsanlega 1828. Hlýindin 1880 sem voru jafnvel meiri hittu ekki eins vel í almanaksárið. 

Eins og við sjáum á myndinni eru hlýindi sem þessi bara á við meðalár í núverandi hlýskeiði.Rauða línan þvert yfir myndina sýnir meðalhita síðustu tíu ára. Það er aðallega einn gríðarkaldur mánuður sem sá um að draga hitann árið 1848 niður á við - og sama má segja um lágmarkið sem sjá má árið 1855. Bláa línan sýnir meðalhita áranna 1861 til 1875 og sú svarta „kalda meðaltalið“ 1961 til 1990. 

Af þessari einföldu mynd getum við ráðið að við eigum eftir að sjá tíð hrósað mjög - og sömuleiðis kveinað undan henni þegar við litum á fréttir af tíðarfari einstakra ára. 

Rauða strikalínan sýnir 12-mánaða keðju loftþrýstings. Á þessum tíma eru nokkrir merkir há- og lágþrýstimánuðir, en almennt er þrýstifar ekki mjög afbrigðilegt lengi í senn. 


Bloggfærslur 30. ágúst 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 38
  • Sl. sólarhring: 218
  • Sl. viku: 1864
  • Frá upphafi: 2353066

Annað

  • Innlit í dag: 37
  • Innlit sl. viku: 1673
  • Gestir í dag: 37
  • IP-tölur í dag: 37

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband