Öflugt kerfi

Á fimmtudaginn fer kröftug lægð til austurs nokkuð fyrir norðan land. Henni fylgir bæði vindur og úrkoma - og e.t.v. verður mjög hlýtt um stund um landið austanvert. Þetta gengur hratt hjá, en kerfið er nægilega öflugt til þess að nokkuð spennandi verður að fylgjast með atburðum í kjölfarið - hvort breyting verður á veðurlagi eða hvort allt fer í svipað far aftur og aðallega hefur verið nú að undanförnu. 

w-blogg110820a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar. Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins, af þeim má ráða vindátt og vindhraða í rúmlega 5 km hæð, en litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Og svo sannarlega er það hlýtt loft sem fýkur hjá. Við sjáum að þykktin yfir landinu austanverðu á að fara yfir 5640 metra og reyndar má á nákvæmari kortum sjá 5660 metra sem er með því hæsta sem sést hér við land. Ekki er alveg víst að þessi þykktarspá standist - hún byggir ekki aðeins á aðstreymi hlýinda (sem er raunverulegt) heldur líka lögun landsins í líkaninu og hvernig hún magnar hlýindi hlémegin landsins - ekki víst að þar sé allt með felldu. 

En það er allt í lagi að benda á þetta - og jafnframt að mættishitaspá í 850 hPa er einnig með allra hæsta móti, 30 stig. En spár um hámarkshita í mannheimum eru öllu lægri og trúlega raunsæjar. En miði er möguleiki - eins og sagt er. 

Svo er aftur spurning hvað gerist í framhaldinu - þetta spark sem háloftahringrásin fær - nægir það til að veðurlag breytist? Við vitum ekkert um það enn - framtíðarreikningar eru út og suður (eins og oftast). 


Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar

Meðalhiti í Reykjavík fyrstu tíu daga ágústmánaðar er 10,9 stig, -0,7 stigum neðan meðaltals sömu daga 1991 til 2020 og einnig neðan meðaltals síðustu tíu ára og í 18.hlýjasta sæti (af 20) á öldinni. Það sem af er öldinni voru dagarnir tíu kaldastir árið 2013, meðalhiti þá 10,4 stig, en hlýjastir voru þeir árið 2003, meðalhiti 13,5 stig. En ágúst hefur oftast verið hlýr á þessari öld. Á langa listanum er hitinn nú í 84.sæti (af 146), á þeim lista eru sömu dagar 2003 líka hlýjastir (ásamt 1944), en kaldastir voru þeir 1912, meðalhiti aðeins 6,4 stig.

Á Akureyri er meðalhiti dagana tíu 12,8 stig, +1,4 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020, en +2,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára [en hefur mjög oft verið hærri].

Hitanum hefur verið nokkuð misskipt. Á Suðurlandi er hitinn nú í 17.hlýjasta sæti aldarinnar og 16.hlýjasta við Faxaflóa. Aftur á móti eru dagarnir tíu þeir fjórðuhlýjustu á Austurlandi að Glettingi. Sé litið til einstakra stöðva er jákvæða vikið miðað við síðustu tíu ár mest á Skjaldþingsstöðum, þar er hiti +3,6 stig ofan meðallags, en neikvæða vikið er mest -1,7 stig á Garðskagavita.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 39,2 mm, nálægt tvöfalt meðallag, en 27,2 mm á Akureyri, meir en tvöfalt meðallag.

Sólskinsstundir hafa mælst aðeins 12,1 í Reykjavík og hafa aðeins einu sinni verið færri fyrstu tíu daga ágústmánaðar, það var 1916.

Loftþrýstingur hefur verið sérlega lágur þessa tíu daga, hefur aðeins einu sinni verið lægri síðustu 200 árin. Það var 1842, hann var jafnlágur 1876 - og ómarktækt hærri en nú 1867 og 1950.


Bloggfærslur 11. ágúst 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • Slide10
  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.5.): 49
  • Sl. sólarhring: 172
  • Sl. viku: 1875
  • Frá upphafi: 2353077

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 1682
  • Gestir í dag: 46
  • IP-tölur í dag: 43

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband