Að mestu framhjá - þó ekki alveg

Talvert kuldakast er í uppsiglingu við Norður-Grænland. Það á að skjóta sér til suðurs næstu daga en fer að mestu framhjá fyrir austan land. Ekki sleppum við þó alveg og sé eitthvað að marka spár má gera ráð fyrir töluverðu næturfrosti víða um land um helgina. 

w-blogg060520a

Hér er háloftastaðan eins og evrópureiknimiðstöðin telur hana verða síðdegis á föstudag (8.maí). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og má af þeim ráða vindátt og vindstyrk í rúmlega 5 km hæð yfir sjávarmáli. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því minni sem hún er því kaldara er loftið. 

Kuldinn er hér hvað mestur vestur af Jan Mayen, þykktin þar á að verða um 5000 metrar, en sjórinn, þó hann sé ekki sérlega hlýr, 1 til 2 stig á þeim slóðum, dregur samt úr kuldanum. Sólarhring síðar á kjarni kuldapollsins að vera kominn suður á 65 gráður norðlægrar breiddar - miðja vegu milli Íslands og Noregs - um 3 stigum hlýrri en á kortinu hér að ofan. Á sunnudag verður kjarni kuldans við Mæri í Noregi, og þykktin þá þá um 5140 metrar - og hefur hlýnað um 7 stig. 

Séu þessar spár réttar er líklegt að það snjói langt niður í byggðir í Noregi og vel niður í fjöll í Skotlandi. Norðmenn eru svosem ekki óvanir snjó í maí, ritstjórinn man töluverðan snjó í Bergen um miðjan maí þegar hann dvaldist við nám þar. Sá snjór stóð reyndar afskaplega stutt við. 

Þó meginkuldinn virðist fara framhjá Íslandi að þessu sinni má kannski muna að svona kuldapollar á ferð hallast oftast. Mestur kuldi í neðstu lögum lofthjúpsins er því vestar í þessum kuldapolli heldur en háloftakuldinn - að auki er meginhluti landsins enn snævi þakinn - þó autt sé í byggðum. Meðan varmi frá sjónum vinnur við að brjóta kulda í lofti á bak aftur allan sólarhringinn er því öðru vísi farið yfir landi. Sól og autt land sjá um að eyða honum að deginum - en nótt og snjór styðja við kuldann. Drjúgmikið næturfrost getur því orðið í kuldakasti sem þessu - þótt þykktin yfir landinu hafi oft orðið lægri í maí. Eitthvað tefur þetta gróður.

Þó þetta kuldakast verði vonandi ekki teljandi og gangi fljótt hjá er ekki mikil hlýindi að sjá í framhaldinu - vorið hefur sinn hæga gang. 


Bloggfærslur 6. maí 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg160424b
  • w-blogg160424a
  • w-blogg120424c
  • w-blogg120424b
  • w-blogg120424a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (20.4.): 2
  • Sl. sólarhring: 108
  • Sl. viku: 1493
  • Frá upphafi: 2348738

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1300
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband