Hásumar á suðurhveli - hávetur hér

Nú er hásumar á suðurhveli jarðar. Í tilefni af því lítum við á eitt háloftakort sem sýnir hringrásina þar nú í dag. Að því loknu horfum við á stöðuna hér við land.

w-blogg140120a

Kortið er úr smiðju bandarísku veðurstofunnar. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykkt er sýnd í lit. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Suðurhluti Suður-Ameríku er til hægri á myndinni, rétt sést í Afríku neðst og Ástralía og Nýja-Sjáland eru efst til vinstri. Athugið að vindur á suðurhveli blæs með lægri þrýsting á hægri hönd - öfugt við það sem við erum vön. Styrkur vestanvindabeltis suðurhvels er öllu meiri í janúar heldur en hjá okkur í júlí - og blái kuldaliturinn nær yfir stærra svæði heldur en hann gerir hjá okkur á sama árstíma. Þrátt fyrir allt er enn ísöld á Suðurskautslandinu - og hefur verið það lengst af síðustu 35 milljón ár (kannski ekki þó alveg samfellt). 

Þónokkur bylgjugangur er í háloftunum - en að jafnaði mun minna áberandi en hér á norðurhveli - lítið um truflandi fjallgarða - og víðáttumikið haf er umhverfis Suðurskautslandið allt. 

Eins og við sjáum er mjög hlýtt yfir Ástralíu - þykktin meiri en 5820 metrar þar sem mest er. Var enn meiri fyrr í mánuðinum. Þar bíða menn þess að einhver bylgja myndi afskorna lægð sem gæti þá fært þeim langþráða rigningu. Stöku sinnum kemur líka einhver hroði til þeirra úr rakabúri hitabeltisins - flókið samspil og tilviljanakennt. 

Við berjumst hins vegar við háveturinn. Að meðaltali eru 13. og 15.janúar illviðrasömustu dagar ársins. Litlu (ómarktækt) munar þó einstökum dögum tímabilsins frá sólstöðum fram til 20.febrúar.   

w-blogg140120b

Þetta kort gildir á sama tíma og suðurhvelskortið - en nær aðeins yfir hluta hringsins. Við megum taka eftir því að meginröstin er hér langt sunnan við okkur - rétt sést í hana sunnan Nýfundnalands og yfir Vestur-Evrópu. Mikill flekkur af hlýju lofti (grænn litur) hefur rifið sig út - komist norður fyrir röstina og hringar þar mikla háloftalægð með miðju skammt fyrir suðaustan land. Nokkur vindur er í háloftunum kringum sjálfa lægðarmiðjuna (um 20 m/s í 5 km hæð yfir Austfjörðum), en yfir landinu vestanverðu er vindur í þeirri hæð innan við 10 m/s og enginn úti yfir Grænlandssundi. 

Niðri í mannheimum er hins vegar versta veður - norðaustanstormur eða meira. Við sjáum ástæður þessa vinds vel á kortinu. Mikill þykktarbratti er frá lægðarmiðjunni yfir til Grænlands. Við Austurland er þykktin um 5350 metrar, en ekki nema um 5050 við Scoresbysund, munar 300 metrum. Það samsvarar um 15 stiga hitamun - að meðaltali í neðri hluta veðrahvolfs. Hlýja loftið hefur þrengt að því kalda sem nú rennur í stríðum straumi suður um Grænlandssund og Ísland. Í allan dag hefur þrýstimunur milli Suðausturlands og Vestfjarða verið meiri en 25 hPa. Ef trúa má greiningum er vindurinn mestur í aðeins 800 til 1200 metra hæð, nær þar um 36 til 40 m/s - en minnkar ört þar fyrir ofan (háloftaathuganir hafa fallið niður í Keflavík í dag). Norðanloftið vill sína leið þegar að því er sótt. 

Spár gera ráð fyrir því að það slakni á slagnum strax á morgun. Síðan hefst undirbúningur undir næsta skítkast. Þó meginröstin sé langt undan er hún snör í snúningum. Megi trúa spám mun dálítil bylgja sem í dag er við vesturströnd Kanada ryðja röstinni alveg til okkar strax um helgina með einhvers konar illviðri. Svo er auðvitað rými fyrir ýmislegt á milli þessara stóru kerfa á fimmtudag og föstudag - þó vindar verði varla mjög hvassir (en líklega þó best að halda öllum möguleikum opnum - og segja sem minnst). 


Bloggfærslur 14. janúar 2020

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 30
  • Sl. sólarhring: 240
  • Sl. viku: 1505
  • Frá upphafi: 2498025

Annað

  • Innlit í dag: 23
  • Innlit sl. viku: 1359
  • Gestir í dag: 23
  • IP-tölur í dag: 23

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband