Stóri-Boli við áramót

Við heyrum nú hljóðin frá kuldapollinum Stóra-Bola handan yfir norðanvert Grænland - en vonum jafnframt að hann láti okkur í friði. Það er samt ákveðin fegurð sem fylgir skrímslinu þar sem það liggur á meltunni.

w-blogg291219a

Kortið er gert eftir gögnum frá bandarísku veðurstofunni nú í kvöld og gildir um hádegi á gamlársdag. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Ísland er alveg neðst - umlukið tiltölulega hlýju lofti - þykktin yfir Suðausturlandi um 5400 metrar. 

Miðja Stóra-Bola er yfir Ellesmereeyju. Hann er „barmafullur“ af köldu lofti - það sést af því að jafnþykktar- og jafnhæðarlínur eru álíka margar og sammiðja. Þrýstingur við sjávarmál er nærri því sá sami undir öllum pollinum, rétt rúm 1000 hPa - vindur umhverfis hann er því mjög lítill. 

Á þessu korti er hæð 500 hPa-flatarins í miðju ekki nema 4610 metrar - með því allralægsta sem sést á þessum slóðum og þykktin - í þessari spá - er aðeins 4570 metrar þar sem hún er lægst. Það er e.t.v. á mörkum þess trúlega, evrópureiknimiðstöðin sýnir lægst um 4630 metra. Sú tala er heldur algengari. Kuldi er einnig mikill í neðri lögum megi trúa spánni. Þessi sama spáruna bandarísku veðurstofunnar sýnir um -45 stiga frost í 850 hPa - ekki mjög oft sem sú tala sést í spám, en evrópureiknimiðstöðin (og afsprengi hennar danska harmonie-spáin) sýna örlítið hærri hita í þeim fleti. Harmonie-spáin sýnir meir en -50 stiga frost á fjöllum Ellesmereeyju á gamlársdag, en mælingar eru þar af mjög skornum skammti inni í sveitum, frostið gæti hugsanlega farið í -55 til -60 stig þar sem það verður mest. 

Sumar spár gera ráð fyrir því að aðeins slettist úr pollinum þegar hann rekst á Grænland uppúr miðri viku - sú sletta gæti náð hingað til lands stutta stund. Síðan virðast reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir því að pollurinn hörfi aftur til vesturs eða suðurs. Þó fyrirbrigði sem þetta valdi sjaldan vandræðum í sinni heimabyggð er annað uppi á teningnum sleppi þau út úr girðingunni. 


Bloggfærslur 29. desember 2019

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg130925-ak-a
  • w-blogg130925a
  • w-blogg130925b
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.9.): 5
  • Sl. sólarhring: 222
  • Sl. viku: 1480
  • Frá upphafi: 2498000

Annað

  • Innlit í dag: 5
  • Innlit sl. viku: 1341
  • Gestir í dag: 5
  • IP-tölur í dag: 5

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband