Uppbrot á norðurslóðum

Illviðrin sem gengu hér yfir fyrr í vikunni dældu miklu magni af hlýju lofti langt norður í höf. Önnur slík árás á kuldann á norðurslóðum er líka í pípunum yfir Alaska. Þetta hefur valdið því að reglubundin hringrás hefur brotnað mjög upp og mun taka að minnsta kosti nokkra daga fyrir hana að ná sér aftur á strik.

Þetta sést allvel á kortinu hér að neðan. Þar er spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um stöðuna í 500 hPa síðdegis á sunnudag (3. janúar). 

w-blogg020116a

Jafnhæðarlínur eru heildregnar - því þéttari sem þær eru því hvassara er í lofti. Litir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mörkin á milli grænu og bláu litanna er við 5280 metra - meðalþykkt hér á landi í janúar er um 5240 metrar, í daufasta bláa litnum. 

Á sunnudaginn er landið hins vegar þakið grænum lit - hiti í lofti er því fáein stig yfir meðallagi. Niður undir jörð situr þó væntanlega kaldara loft yfir landinu - vindur á hverjum stað ræður því hvort það blandast upp í það hlýrra (og öfugt) eða hvort það flettist alveg af. 

Við sjáum langan grænan borða hlykkjast langt norður í höf og austur með Rússlandi norðanverðu og myndar þar mikla hæð - lyfti veðrahvörfunum þar yfir um um nokkra kílómetra. Sú lyfta olli kólnun í heiðhvolfinu og við borð lá að hringrásin þar raskaðist líka (ekki alveg útséð um það - en sennilega jafnar hún sig).

En kuldinn á norðurslóðum hverfur ekki við svona aðsókn heldur leitar hann líka undan og hefur m.a. stór og mjög kaldur pollur lokast af yfir Rússlandi. Hann er reyndar tvískiptur - sá víðáttumeiri er á þessu korti norðaustan Svartahafs og mun reika um Rússland næstu daga - kólnandi. Sá minni er á kortinu yfir Finnlandi. Þar hefur verið mjög hlýtt að undanförnu - en kólnar nú rækilega.

Þessi Finnlandskuldi á síðan að fara til vesturs Svíþjóð og Noreg næstu daga og reyndar um síðir (miðvikudag) ná alveg til okkar - eða fara til vesturs fyrir norðan land - spár eru ekki sammála um smáatriði málsins. En Ísland er vel varið fyrir kulda beint úr austri - hlýir hafstraumar milli Íslands og Noregs sjá um þá vörn - sé kuldinn ekki því  meiri og sneggri í förum. 

Þeir sem reglulega fylgjast með þykktarkortum taka líka eftir því að fjólublái liturinn - (þykkt minni en 4920 metrar) er vart sjáanlegur (aðeins smáblettur við norðurskautið - ef vel er að gáð). Fjólublái liturinn er að jafnaði mjög áberandi á þessum tíma árs - en fjarvera hans sýnir vel að bylgjur að sunnan hafa greinilega brotnað inn í annars vel varinn norðurslóðakuldann og blandað hlýrra lofti að sunnan saman við hann. Niðurstaðan er sú að venjulegan heimskautavetrarkulda er hvergi að sjá. - Tökum samt fram að það er ekkert einsdæmi á þessum tíma árs - en samt. 

Kuldinn nær sér fljótt á strik aftur um leið og blöndun að sunnan lýkur og væntanlega verða fjólubláu svæðin komin í venjubundna stærð nokkrum dögum eftir að bylgjubrotinu að sunnan linnir. - En Alaskabylgjan er býsna öflug og stuggar við öllum litlum kuldapollum - vonandi að þeir hrekist ekki hingað. 

En við skulum til gamans líta aðeins betur á Evrópukuldapollana. Kortið hér að neðan gildir á sama tíma og það fyrra, kl. 18 á sunnudag 3. janúar. Það er ekki alveg eins - reiknimiðstöðvar eru sjaldan alveg sammála.

w-blogg020116b

Hér sést vel að þykktin í kuldapollinum yfir Finnlandi er minni en 5040 metrar. Þótt hitinn við 5040 metra sé allaf sá sami að meðaltali í veðrahvolfinu neðanverðu - sama hvar er í heiminum, er stöðugleiki mjög breytilegur. Hann er að jafnaði mun meiri yfir Finnlandi að vetrarlagi heldur en hér. Þess vegna má búast við því að kuldi í Tampere við 5040 metra verði meiri heldur en við sömu þykkt í Reykjavík. 

En lítið þýðir fyrir ritstjóra hungurdiska að vera að velta sér upp úr því hversu kalt verður í Finnlandi - hann á nóg með sig. 

Sé eitthvað að marka framtíðarspár mun Rússlandskuldinn ekki ná til Vestur-Evrópu og Bretlands - þar halda lægðir áfram að ganga yfir eða stranda. Framtíðarstaða við Ísland er mjög óljós - hlýtt loft verður ekki fjarri sunnan við land og má vera að það hindri bæði kulda úr austri - og síðar norðri til að ná til landsins. - En sparkið frá Alaska er ansi öflugt og gæti bætt í norðanáttina hér verði kuldinn að hörfa undan úr Íshafinu. 


Bloggfærslur 2. janúar 2016

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c
  • w-blogg020725b
  • w-blogg020725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.7.): 2
  • Sl. sólarhring: 333
  • Sl. viku: 1659
  • Frá upphafi: 2482882

Annað

  • Innlit í dag: 2
  • Innlit sl. viku: 1497
  • Gestir í dag: 2
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband